Sáttamiðlun

Viðskiptaráð Íslands býður aðilum aðstoð við að leysa viðskiptadeilur með sérstakri sáttamiðlun (e. mediation). Sáttamiðlun er aðferð til lausnar ágreiningi sem aðilar velja sjálfir að taka þátt í. Markmið sáttaviðræðna er að aðilar nái samkomulagi sem þeir eru sáttir við. Aðilarnir ákveða hvort þeir vilja ljúka málinu með samkomulagi og hvers efnis það samkomulag á að vera. Þeir geta hvenær sem er, allt þar til samkomulag liggur fyrir, hætt þátttöku.

Munur á sáttamiðlun og gerðardómsmáli/dómsmáli
Sáttamiðlun er mótað ferli sem, með tilstuðlan sáttamanns, á að skapa svigrúm fyrir opnari viðræður aðila en t.d. í dómsmáli. Það er í verkahring sáttamanns að hafa yfirsýn yfir allt það sem fram kemur í viðræðum aðila og leiðbeina þeim af öryggi gegnum öll þrep sáttaferlisins. Í sáttaviðræðum þurfa báðir aðilar að vera virkir og tilbúnir til að leita nýrra leiða til úrlausnar og til í að gefa eftir af upprunalegum kröfum sínum.

Sáttamiðlun fer fram í trúnaði
Með trúnaði er ekki einungis átt við þagnarskyldu sáttamanns um það sem fram kemur í sáttaferlinu, heldur þagnarskyldu aðila og skuldbindingu þeirra að ræða ekki um ágreiningsefnið við utanaðkomandi, nema samkomulag sé um annað þeirra í milli. Þagnarskyldan gildir einnig fyrir dómi og stjórnvöldum, að því marki sem lög heimila.

Sáttamaður
Sáttamaður skal vera hlutlaus og málefnalegur og verður að gæta þess að hans eigin skoðanir hafi ekki áhrif á lausn málsins. Sáttamaður má ekki hafa áhrif á lausn málsins. Sáttamanni er óheimilt, án skriflegs samþykkis aðila, að upplýsa um nokkuð sem honum verður kunnugt um við sáttamiðlun og geta aðilar ekki leitt sáttamann sem vitni í einkamáli. Sáttamanni er óheimilt, án samþykkis aðila, að upplýsa gagnaðila um atriði sem honum hefur verið trúað fyrir við sáttamiðlun.

Samningsákvæði
Hér að neðan er tillaga að orðalagi ákvæðis í viðskiptasamningi sem vísar ágreiningi til sáttameðferðar hjá Viðskiptaráði:

„Aðilum er heimilt að leggja ágreining sinn fyrst í sáttaumleitun Viðskiptaráðs Íslands. Skal stjórn Gerðardóms Viðskiptaráðs þá tilnefna sáttamann, að höfðu samráði við aðila. Um sáttaumleitunina skal fara eftir samþykktum stjórnar Gerðardóms Viðskiptaráðs um sáttaumleitun.

Ef samkomulag næst ekki milli aðila, fer ágreiningurinn fyrir Gerðardóm Viðskiptaráðs Íslands.“

Nánari upplýsingar
Nánari upplýsingar um sáttamiðlun eru gefnar á skrifstofu Viðskiptaráðs Íslands. Skrifstofan hefur jafnframt milligöngu um samband við stjórn Gerðardómsins og tekur á móti beiðnum til hans um sáttamiðlun. Umsjón með starfi Gerðardómsins hefur Gunnar Dofri Ólafsson, lögfræðingur Viðskiptaráðs.

Ítarefni um sáttamiðlun: