Málsvari félaga

Sem heildarsamtök viðskiptalífsins starfar Viðskiptaráð óskipt að hagsmunum allra sem stunda viðskipti. Það er eitt öflugusta tæki viðskiptalífsins í baráttu fyrir úrbótum á almennu rekstrarumhverfi fyrirtækja og bættum starfsskilyrðum með jafnræði, frjálsa samkeppni, heilbrigða viðskiptahætti og lágmörkun ríkisrekstrar að leiðarljósi.

Málsvari fyrirtækja
Aðild að Viðskiptaráði gefur fyrirtækjum kost á að hafa áhrif á stefnumótun ráðsins og koma hagsmunamálum sínum á framfæri. Þau mál er koma á borð Viðskiptaráðs geta jafnt varðað viðskiptalífið í heild sem og sértækari hagsmuni einstakra aðildarfyrirtækja eða atvinnugreina.

Aðild að Viðskiptaráði Íslands er frjáls, ólíkt því sem tíðkast hjá viðskiptaráðum víða erlendis. Þetta gefur ráðinu mikilvæga sérstöðu þar sem starfsemi þess er ekki háð hagsmunum neinna annarra en aðildarfélaga. Þar sem ráðið er með öllu óháð framlögum eða annarri fyrirgreiðslu af hálfu stjórnvalda er það í mun sterkari stöðu til að veita það mikilvæga aðhald sem þörf er á.

Samskipti við opinbera aðila
Viðskiptaráð beitir sér fyrir jákvæðum breytingum á lögum, reglum og stjórnarframkvæmd er varða íslenskt viðskiptalíf. Ráðið fær öll frumvörp er snerta hagsmuni viðskiptalífsins til umsagnar og hefur samband við aðildarfélög þegar frumvörpin snerta hagsmuni þeirra beint. Ráðið gerir athugasemdir í samvinnu við félagsmenn sína og kemur þeim á framfæri til Alþingis. Með þeim hætti er ráðið málsvari aðildarfélaga sinna á Alþingi. Auk þess eru félagar Viðskiptaráðs tilnefndir í nefndir vegna einstakra frumvarpa og brýnna málefna.