Samkeppnishæfni IMD

IMD viðskiptaháskólinn í Sviss (e. International Institute for Management Development) hefur starfrækt rannsóknarstofnun um samkeppnishæfni þjóða heims frá árinu 1989. Rannsóknarstofnunin á í samstarfi við um 60 aðila víða um heim með það að leiðarljósi að gefa stjórnvöldum, fyrirtækjum og stofnunum sem besta mynd af samkeppnishæfni þjóða.

Úttekt á samkeppnishæfni
Stærsti liður í starfi stofnunarinnar er árleg útgáfa samkeppnislistans „IMD World Competitiveness Yearbook.“ Samkeppnislistinn er einn sá virtasti í heiminum og byggir á rannsóknum um samkeppnishæfni ásamt ítarlegum og yfirgripsmiklum upplýsingum frá samstarfsaðilum stofnunarinnar. Samkeppnishæfni hvers ríkis er metin út frá samsettri einkunn sem skiptist í fjóra meginþætti: efnahagslega frammistöðu, skilvirkni hins opinbera, skilvirkni atvinnulífs og samfélagslega innviði. Listinn hefur þá sérstöðu að byggja að 2/3 hluta á tölulegum upplýsingum til að tryggja eins hlutlægan mælikvarða og unnt er. Til að endurspegla einnig þróun samkeppnishæfni eins og þátttakendur upplifa hana styðst listinn að hluta til við stjórnendakönnun sem framkvæmd er í hverju og einu þátttökulandi. Samanlagt byggir listinn á yfir 300 mælikvörðum í dag og gefur greinargóða mynd af meginþáttum samkeppnishæfni þjóða.

Aðkoma Viðskiptaráðs
Viðskiptaráð Íslands annast samantekt á tölulegum upplýsingum og stjórnendakönnun atvinnulífsins á Íslandi í samstarfi við IMD. Tilgangur samstarfsins er að gefa innlendum og erlendum aðilum sem nákvæmastar upplýsingar um stöðu íslensks atvinnulífs og efnahags. Þessar upplýsingar geta stjórnvöld, stofnanir og fyrirtæki notað til að bæta samkeppnishæfni landsins gagnvart öðrum löndum heims.

Samstarf við VÍB
Á vordögum 2014 fóru Viðskiptaráð og VÍB í samstarf um kynningu á niðurstöðum úttektar IMD. Samstarfið felst í árlegum fundi þar sem fjallað er um samkeppnishæfni Íslands. Í dag er samstarfið við núverandi Íslandsbanka þar sem VÍB rann saman við bankann.

Niðurstöður 2018
Á fundi sem Viðskiptaráð hélt í samstarfi við Íslandsbanka þann 31. maí 2018 voru niðurstöður úttektar IMD á samkeppnishæfni Íslands kynntar. Ísland situr í 20. sæti listans, sem er hækkun um þrjú sæti frá árinu 2016.

Kristrún Frostadóttir, hagfræðingur Viðskiptaráðs, segir að sterkt gengi krónunnar dragi heildareinkunn landsins niður.

Hækkunin á stöðu Íslands á listanum er drifin áfram af aukinni skilvirkni hjá hinu opinbera og í atvinnulífinu. Innlendur efnahagur hækkar einnig um 19. sæti þar sem hagvöxtur er sterkur og atvinnustig hátt. „Það kemur kannski ekki mörgum á óvart að við séum að fara upp um lista enda er þetta mat á stöðu landsins út frá síðastliðnu ári. Við höfum náttúrulega staðið okkur mjög vel í alþjóðlegu samhengi á efnahagslegum mælikvarða - mjög sterkur hagvöxtur búinn að vera og atvinnustig mjög hátt og lágt atvinnuleysi.“ segir Kristrún.

Hong Kong og Sviss sitja sem fastast í efstu tveimur sætum listans. Singapúr hækkar um eitt sæti milli ára (3. sæti) á kostnað Bandaríkjanna (4. sæti). Þar á eftir kemur Holland sem hækkar um þrjú sæti milli ára (5. sæti)

Ísland stendur hinum Norðurlandaþjóðunum enn að baki þrátt fyrir að bilið minnki milli ára. Danmörk lækkar um eitt sæti milli ára (7.sæti), Svíþjóð lækkar um fjögur sæti (9.sæti) og Noregur um tvö (11.sæti). Finnland hækkar hins vegar um 5 sæti milli ára og situr nú í 15. sæti listans.

Úttekt IMD á samkeppnishæfni þjóða er ein sú umfangsmesta í heimi og er hún gerð á hverju ári. Úttektin samanstendur af yfir 300 undirþáttum. Tveir þriðju þeirra eru í formi haggagna sem safnað er af samstarfsaðilum í hverju ríki fyrir sig. Þriðjungur byggir á alþjóðlegri stjórnendakönnun sem um 6,200 stjórnendur fyrirtækja og annarra samtaka taka þátt í.

Kynningu á niðurstöðum úttektarinnar og upptöku er að finna hér:

Tengt efni: