Aðalfundur 2018

Þann 14. febrúar næstkomandi fer fram aðalfundur Viðskiptaráðs Íslands. Á fundinum verður meðal annars gerð grein fyrir úrslitum í kjöri til formanns og stjórnar Viðskiptaráðs Íslands fyrir kjörtímabilið 2018 – 2020.

Aðalfundurinn fer fram á Hilton Reykjavík Nordica klukkan 9:00.

Stjórnarkjör
Stjórn ráðsins er skipuð 38 einstaklingum. 37 stjórnarmönnum og formanni. Frestur félaga til að setja nafn sitt á ábendingalista vegna stjórnarkjörs rennur út þriðjudaginn 23. janúar 2018. Framboð til stjórnar þarf að berast skriflega til skrifstofu ráðsins.

Kosning stjórnar er óbundin þannig að kjörgengir eru allir skuldlausir félagsmenn (stjórnendur í fyrirtækjum sem eiga aðild að Viðskiptaráði). Ábendingalisti með nöfnum þeirra sem gefa sérstaklega kost á sér til stjórnarsetu er því aðeins leiðbeinandi.

Framboð til formanns
Formaður stjórnar er kosinn sérstaklega í bundinni kosningu. Framboðsfrestur vegna formannskjörs er þremur vikum fyrir aðalfund, eða 23. janúar 2018. Framboð til formanns þarf að berast skriflega til skrifstofu ráðsins.

Lagabreytingar

Á fundi stjórnar Viðskiptaráðs Íslands þann 8. janúar var ákveðið að leggja fram tillögur til breytinga á lögum ráðsins á aðalfundi.

Breytingatillögurnar eru eftirfarandi:

Viðbætur við 15. gr. laga VÍ
3. mgr.: Kynjahlutföll í stjórn skulu vera þannig að hlutfall hvors kyns sé ekki lægra en 40%.
4. mgr.: Náist ofangreind kynjahlutföll ekki við kosningu stjórnar á aðalfundi skal sá er fékk flest atkvæði af þeim sem náðu ekki kjöri, og er af því kyni sem hallar á, taka sæti þess er fæst atkvæði fékk af þeim sem náðu kjöri, og er af fjölmennara kyninu. Hafi slík kynjahlutföll ekki enn náðst skal sá er fékk næstflest atkvæði af þeim sem náðu ekki kjöri, og er af því kyni sem hallar á, taka sæti þess er næstfæst atkvæði fékk af þeim sem náðu kjöri, og er af fjölmennara kyninu o.s.frv. þar til hlutföllin samræmast kröfu 3. mgr.

Viðbót við 17. gr. laga VÍ
17. gr.
Kjörnefnd, skipuð 5-7 einstaklingum, kosin af aðalfundi Viðskiptaráðs, annast, ásamt framkvæmdastjóra eða staðgengli hans, undirbúning og framkvæmd stjórnarkosningar. Þau sjá um, að aðildarfélögum sé sendur kjörseðill 15 dögum fyrir aðalfund. Kosningu er lokið kl. 17 daginn áður en aðalfundur hefst. Kjörnefnd úrskurðar allan ágreining varðandi kosningarnar og ræður afl atkvæða úrslitum mála. Forfallist kjörnefndarmaður er stjórn ráðsins heimilt að skipa annan í stað viðkomandi úr hópi aðildarfélaga.

Á kjörseðli skal standa hve mörg atkvæði hann veitir. Kjörseðillinn skal vera þannig úr garði gerður að formann skal kjósa sérstaklega en stjórnarmenn í einu lagi. Kjörseðlinum skulu fylgja ábendingar stjórnar Viðskiptaráðs um a.m.k. 57 manns, þar af a.m.k. 15 af hvoru kyni, tilkynning um frambjóðendur til formanns, svo og félagatal ráðsins.

Rafræn kosning
Fulltrúar aðildarfélaga fá sendan tölvupóst með kjörlykli og slóð á rafrænan kjörseðil. Athugið að einungis er hægt að svara einu sinni með hverjum kjörlykli. Val aðildarfélaga verður aldrei rakið til nafns.

Upplýsingar um kjörseðil:

Á kjörseðlinum er annars vegar að finna nöfn formannsframbjóðenda og hins vegar nöfn þeirra einstaklinga sem gefið hafa kost á sér til stjórnarsetu og eru á ábendingalista stjórnar.

Ábendingalistinn er settur upp með tilviljanakenndum hætti og er hann lagður fram með samþykki þeirra sem á honum eru í samræmi við lög Viðskiptaráðs.

Kosning stjórnar er óbundin. Kjörgengir eru allir skuldlausir félagsmenn (stjórnendur fyrirtækja sem eiga aðild að Viðskiptaráði). Ábendingalistinn er því aðeins leiðbeinandi.

Hver skuldlaus félagi í ráðinu hefur rétt til þess að kjósa 12 einstaklinga til setu í stjórn.

Kjörseðli þarf að skila rafrænt í síðasta lagi þriðjudaginn 13. febrúar kl. 17.00.

Atkvæði teljast einungis gild ef þeir sem þau greiða eru skuldlausir við Viðskiptaráð þegar kosningu lýkur.

Fylgigögn

Ábendingalisti – birtist í síðasta lagi fyrir 29. janúar 2018

Félagatal

Lagabreytingartillögur

Umsjón með framkvæmd stjórnarkjörs hafa Marta Guðrún Blöndal, lögfræðingur Viðskiptaráðs, og kjörnefnd sem kosin var á síðasta aðalfundi. Allar frekari upplýsingar veitir Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, í síma 510-7100.