Viðskiptaráð Íslands

Bakhjarl menntunar

Frá stofnun hefur Viðskiptaráð Íslands tekið þátt í uppbyggingu íslensks menntakerfis með áherslu á hagnýta menntun á sviðum atvinnulífs, enda fátt til meiri hagsbóta fyrir viðskiptalífið en öflugt og vel menntað starfsfólk.

Stjórnendur í atvinnulífinu gera sér sífellt betur grein fyrir því að til þess að standast samkeppni þurfa fyrirtæki að hafa innan sinna vébanda hæft og vel menntað starfsfólk. Alþjóðavæðing atvinnulífsins gerir það að verkum að fyrirtækin búa við meiri samkeppni en áður og ný tækni og meira flæði upplýsinga leiða til þess að kröfur til starfsfólks aukast stöðugt.

Menntasjóður Viðskiptaráðs Íslands

Til að mæta þessari eftirspurn eftir vel menntuðu og hæfu starfsfólki er mikilvægt fyrir atvinnulífið að taka virkan þátt í uppbyggingu menntunar. Að þessu hlutverki hefur Viðskiptaráð komið með markvissum hætti síðustu ár og áratugi í gegnum Menntasjóð Viðskiptaráðs Íslands. Sjóðurinn er sjálfseignastofnun sem starfar undir vernd og umsjón Viðskiptaráðs Íslands.

Formlegt hlutverk Menntasjóðs VÍ er að auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs með því að efla og bæta menntun og rannsóknir á öllum skólastigum og styðja við nýsköpun atvinnulífs. Stjórn Viðskiptaráðs myndar fulltrúaráð Menntasjóðsins VÍ og fer með æðsta vald í málefnum stofnunarinnar.

Sjóðurinn er meirihlutaeigandi í Háskólanum í Reykjavík og rak Verzlunarskóla Íslands um árabil. Viðskiptaráð Íslands hefur jafnframt veitt námsstyrki til íslenskra nemenda við framhaldsnám erlendis í gegnum tíðina og hefur Menntasjóður ráðsins nú tekið við því hlutverki.

Um okkur

Viðskiptaráð vinnur að því að efla íslenskt efnahagslíf og skapa þannig forsendur til framfara og bættra lífskjara. Við erum frjáls félagasamtök sem hafa starfað samkvæmt þessu leiðarljósi frá árinu 1917.