Upprunavottorðum er ætlað að staðfesta upprunaland tiltekinnar framleiðsluvöru. Hugtakið er fyrst og fremst þekkt úr fríverslunarsamningum, en þeir kveða á um tollfríðindi til handa vöru sem er upprunnin í aðildarlöndum viðkomandi fríverslunarsamnings.
Rafrænar umsóknir um upprunavottorð má senda inn hér. Kerfið hefur verið rafrænt um nokkurra ára skeið sem bætir þjónustuna og eykur rekjanleika vottorða samkvæmt reglum Alþjóða viðskiptaráðsins, International Chamber of Commerce. Verðskrá má nálgast hér. Athugið að einungis er tekið á móti umsóknum um upprunavottorð í gegnum rafræna kerfið.
Í EES-samningnum er að finna sérstaka bókun um uppruna vöru (Bókun 4). Meginreglan er sú að til þess að vara sé talin hafa EES uppruna þarf hún að vera framleidd innan svæðisins úr hráefnum sem þar eru fengin eða uppfylla tilteknar kröfur um aðvinnslureglur (yfirleitt miðað við að 90% af verðmæti vörunnar eigi rætur að rekja til EES svæðisins).
Í ofangreindri bókun er gerð krafa um notkun tiltekinna eyðublaða til sönnunar á uppruna, þ.e. EUR.1 skírteinis og yfirlýsingar útflytjanda á vörureikningi. Ríkistollstjóri gefur út EUR.1 skírteini og fyrirmynd að orðalagi fyrrgreindrar yfirlýsingar er að finna í IV. viðauka A við bókunina, en viðaukann má nálgast hér á textaformi. Án þessara sannana um uppruna njóta upprunavörurnar ekki hags af ákvæðum EES-samningsins, sbr. 15. gr. bókunarinnar.
Samkvæmt 21. gr. bókunarinnar þá er útflytjanda heimilt að gefa út ofangreinda yfirlýsingu, ásamt því að aðgreina á reikningi uppruna hverrar vöru, ef vörusending inniheldur upprunavörur að heildarverðmæti ekki meira en EUR 6.000. Fari verðmætið yfir það þá þarf annað hvort EUR.1 skírteini eða útflytjandi þarf að vera viðurkenndur, sbr. 22. gr. bókunarinnar. Yfirlýsing þessi þarf að vera vélrituð, stimpluð eða prentuð á vörureikninginn sbr. 6. mgr. 21. gr. bókunarinnar, en skv. 8. mgr. sama ákvæðis getur útflytjandi gefið út yfirlýsingu á vörureikning annars vegar þegar vörurnar eru fluttar út og hins vegar eftir útflutning þó eigi síðar en tveimur árum eftir að innflutningur átti sér stað.
Upprunavottorðið er fyllt út af umsækjanda, undirritað og stimplað svo af hálfu Viðskiptaráðs. Nánari upplýsingar veitir Hulda Sigurjónsdóttir. Einnig er hægt að senda tölvupóst á mottaka@vi.is.
Viðskiptaráð hefur útbúið bréf sem að notendur upprunavottorða geta sent til viðskiptavina sinna til að staðfesta notkun rafræns kerfis við útgáfu upprunavottorða.
Smelltu hér til að sækja staðfestingarbréf
Hér má finna verðskrá upprunavottorða (gildir frá 1. september 2024)
Hvort heldur er um ráðgjöf, beina þjónustu eða vinnu að hagsmunamálum gerir Viðskiptaráð sitt besta við að leysa hratt og greiðlega úr málum aðildarfélaga. Ennfremur gefur ráðið út upprunavottorð og ATA Carnet skírteini.