Meginmarkmið leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja er að stuðla að góðum stjórnarháttum með því að skýra hlutverk og ábyrgð stjórnenda fyrirtækja og auðvelda þeim þannig að rækja störf sín og treysta um leið hag hluthafa og annarra hagaðila.
6. útgáfa leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja voru gefnar út 2. febrúar 2021. Að útgáfu leiðbeininganna standa sem fyrr Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Nasdaq Iceland, en leiðbeiningarnar eru nú uppfærðar frá 5. útgáfu sem hefur verið í gildi frá árinu 2015, en þónokkrar breytingar eru gerðar á leiðbeiningunum að þessu sinni, þótt megininntak þeirra sé hið sama og uppsetningin hefðbundin.
Leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja voru fyrst gefnar út árið 2004 og hafa þær verið endurskoðaðar með reglubundnum hætti frá þeim tíma. Leiðbeiningunum er ætlað að nýtast sem verkfæri stjórna og stjórnenda til að mæta þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir, en það er skoðun útgefenda að með því að fylgja góðum stjórnarháttum megi styrkja innviði fyrirtækja og efla almennt traust gagnvart viðskiptalífinu. Hvort tveggja skiptir sköpum fyrir samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja og æ fleiri fyrirtæki sjá sér hag í því að fara að leiðbeiningunum.