Viðskiptaráð Íslands

Hlutverk og lög

Meginhlutverk Viðskiptaráðs er að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja á Íslandi og skapa þannig forsendur til aukinnar verðmætasköpunar og bættra lífskjara. Það er ekki síður hlutverk ráðsins að efla skilning almennings á mikilvægi frjálsræðis í viðskiptum, lágmörkun opinberra afskipta, hagfellds skattaumhverfis og annarra þátta sem auka samkeppnishæfni Íslands. Ráðið hefur frá árinu 1917 verið frjáls vettvangur fyrirtækja og einstaklinga sem deila þessari sameiginlegu sýn um frelsi og framfarir.

Aðild að Viðskiptaráði Íslands er frjáls, en víða erlendis tíðkast skylduaðild að viðskiptaráðum. Sem heildarsamtök viðskiptalífsins starfar Viðskiptaráð óskipt að hagsmunum allra sem stunda viðskipti. Það er eitt öflugasta tæki viðskiptalífsins í baráttunni fyrir úrbótum á almennu rekstrarumhverfi fyrirtækja og bættum starfsskilyrðum með jafnræði, frjálsa samkeppni og heilbrigða viðskiptahætti að markmiði.

Uppspretta nýrra hugmynda

Viðskiptaráð hefur alla tíð verið uppspretta nýrra hugmynda. Jarðvegur fyrir þessar hugmyndir hefur verið misfrjósamur en til lengri tíma hefur árangurinn verið ótvíræður. Þannig hefur ráðið stuðlað að framförum í viðskiptalífinu í yfir 100 ár, bæði með beinum og óbeinum hætti. Það má tvímælalaust rekja mörg af stærstu framfaraskrefum í viðskiptasögu landsins til frækorna sem sáð hefur verið af Viðskiptaráði Íslands.

Heilbrigt og kraftmikið atvinnulíf skapar forsendur til framfara og bættra lífskjara. Viðskiptaráð og þeir sem að því standa hafa trú á því að Ísland og íslenskt viðskiptalíf geti skipað sér í fremstu röð í alþjóðlegu samhengi. Til að svo geti orðið þarf einhugur að ríkja á meðal stjórnvalda, atvinnulífs og íbúa landsins um að byggja hér upp kjöraðstæður til viðskipta. Takist það er framtíðin björt.

Meðal verkefna Viðskiptaráðs frá stofnun:

  • Stofnandi Kaupþings Reykjavíkur árið 1921, forvera Kauphallarinnar
  • Aðstoðaði við að semja fyrsta frumvarp til laga um varnir gegn óréttmætum verslunarháttum
  • Tók að sér stjórn Verzlunarskóla Íslands árið 1922 og hefur verið bakhjarl skólans allar götur síðan
  • Kom að stofnun upplýsinga- og innheimtuskrifstofu fyrir kaupsýslumenn árið 1928, sem síðar varð hluti af Creditinfo
  • Stuðlaði að stofnun Verslunarbanka Íslands hf. og Tollvörugeymslunnar hf.
  • Hafði umsjón með upplagseftirliti dagblaða og samræmdri vefmælingu á Íslandi
  • Stofnaðili og meirihlutaeigandi Háskólans í Reykjavík
  • Útgefandi leiðbeininga um góða stjórnarhætti frá árinu 2003
  • Stendur ár hvert fyrir mælingum á samkeppnishæfni Íslands í samstarfi við IMD viðskiptaháskólann í Sviss
  • Hvataaðili að mótun langtímastefnu í efnahagsmálum 2012-2017, m.a. í tengslum við Íslandsskýrslu McKinsey & Company og Samráðsvettvang um aukna hagsæld

Um okkur

Viðskiptaráð vinnur að því að efla íslenskt atvinnulíf og skapa þannig forsendur til framfara og bættra lífskjara. Við erum frjáls félagasamtök sem hafa starfað samkvæmt þessu leiðarljósi frá árinu 1917.