Menntasjóður Viðskiptaráðs Íslands ses. er sjálfseignarstofnun sem hefur haft það formlega hlutverk að auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs með því að efla og bæta menntun og rannsóknir á öllum skólastigum og styðja við nýsköpun atvinnulífs. Menntasjóður Viðskiptaráðs Íslands(MVÍ) hét Sjálfseignarstofnun Verslunarráðs Íslands um viðskiptamenntun (SVÍV) til ársins 2014, en SVÍV rak Verzlunarskóla Íslands um árabil og stofnaði Háskólann í Reykjavík. Í dag er sjóðurinn meirihlutaeigandi Háskólans í Reykjavík. Rekja má sögu sjóðsins aftur til ársins 1922 þegar Verzlunarráð (forveri VÍ) tók við rekstri Verzlunarskólans.
Sjóðurinn er í dag rekinn hliðstætt Viðskiptaráði Íslands þar sem stjórn VÍ er fulltrúaráð MVÍ og framkvæmdastjórn VÍ er stjórn MVÍ. Sjóðnum tilheyra tveir undirsjóðir. Annars vegar námsstyrkjasjóður sem var áður sjóður Fríðu Proppé og P. Stefánssonar sem veitt hefur styrki til námsmanna erlendis frá 1987. Undanfarin ár hafa fjórir einstaklingar verið styrktir um eina milljón króna hver.
Hins vegar framtíðarsjóður (áður rannsóknarsjóður) sem hefur í gegnum árin fjármagnað verkefni VÍ á sviði menntunar og nýsköpunar, auk þess að styðja við önnur verkefni utan ráðsins. Frá 2017 hefur framtíðarsjóður fjármagnað verkkeppni Viðskiptaráðs þar sem ungt fólk hefur komið saman og unnið að áskorunum framtíðar í menntamálum, loftslagsmálum og tæknimálum með aðstoð leiðbeinenda. Árin 2015 til 2017 voru aftur á móti veittir styrkir til stuðnings menntunar og aukinnar verðmætasköpunar í atvinnulífinu. Árið 2015 voru t.d. veittir styrkir til Alþjóðskólans, ritunar „Hagnýtrar heilsuhagfræði“ og rannsóknar á stjórnarháttum fyrirtækja.
Viðskiptaráð vinnur að því að efla íslenskt atvinnulíf og skapa þannig forsendur til framfara og bættra lífskjara. Við erum frjáls félagasamtök sem hafa starfað samkvæmt þessu leiðarljósi frá árinu 1917.