Viðskiptaráð Íslands

Gerðardómur

Innan vébanda Viðskiptaráðs starfar sjálfstæð gerðardómsstofnun, Gerðardómur Viðskiptaráðs Íslands (e. The Nordic Arbitration Centre). Með notkun gerðardómsins geta aðilar fengið leyst úr ágreiningi með skjótum og öruggum hætti. Gerðardómurinn er hlutlaus aðili sem leggur hlutlægt mat á úrlausnarefni.

  • Hjá Gerðardómi Viðskiptaráðs Íslands fæst hröð úrlausn ágreiningsmála, en reglur Gerðardómsins kveða á um endanlega úrlausn innan sex mánaða, nema aðilar semji um annað
  • Trúnaður gildir um gerðarmeðferðina og úrskurðir eru ekki birtir opinberlega
  • Sérhæfðir dómendur leysa úr ágreiningi aðila
  • Heimilt er að leiða sérfræðivitni fyrir gerðardóminn

Aðilar að samningi geta komið sér saman um að ágreiningsmál sem upp koma þeirra á milli verði leyst fyrir gerðardómi í stað almennra dómstóla. Ágreiningurinn er þá leystur fyrir sjálfstæðum og hlutlausum gerðardómi, en aðilar hafa möguleika á að tilnefna gerðardómara sem eru í kjölfarið staðfestir af stjórn GVÍ. Kostir gerðarmeðferðar eru almennt taldir vera styttri málsmeðferðartími, trúnaður sem gildir um málsmeðferðina og víðtækt málsforræði aðila yfir málsmeðferðinni. Úrlausn gerðardóms er endanlega bindandi fyrir aðila og er auðvelt að fullnusta úrlausnir gerðardóma um nær allan heim.

Málsmeðferð fyrir dómstólum getur tekið langan tíma, með tilheyrandi kostnaði. Á móti kemur liggur úrlausn gerðardóms almennt fyrir innan sex mánaða frá því að mál hefst og er sú úrlausn endanleg, þannig að ekki er hægt að áfrýja henni til æðra dómstigs, sem felur í sér ákveðið hagræði. Sé ágreiningsefnið eða þeir hagsmunir sem eru í húfi þess eðlis að mikilvægt sé að fá skjóta úrlausn getur því verið mun hentugra að leita til gerðardóms með ágreininginn.

Trúnaður gerðarmeðferðar aðgreinir hana einnig skýrlega frá málsmeðferð fyrir dómstólum, en trúnaður gildir um gerðarmeðferðina og úrskurðir eru ekki birtir opinberlega nema aðilar semji um slíkt, ólíkt því sem gengur og gerist fyrir almennum dómstólum. Málsmeðferðin býður þar að auki upp á meiri sveigjanleika. Aðilar geta til að mynda samið um gagnaframlagningu og sönnunarfærslu, ásamt því að tilnefna gerðarmann og síðast en ekki síst leiða sérfræðivitni fyrir gerðardóminn.

Úrskurður gerðardómsins er endanlegur og bindandi fyrir málsaðila. Úrskurður gerðardómsins er jafnframt aðfararhæfur í 157 löndum, þar sem Ísland er aðili að New York samningnum um viðurkenningu og fullnustu erlendra gerðardómsúrskurða.