Viðskiptaráð Íslands

Ein þjóð leysir vandann

Það er margur vandinn sem nú blasir við Íslendingum. Hann má flokka í þrennt; hagrænan, stjórnmálalegan og hugarfarslegan. Hagrænn vandi endurspeglast í því að skuldir heimila, fyrirtækja og hins opinbera eru of miklar, hagvöxtur er neikvæður, kaupmáttur hefur rýrnað, eftirspurn dregist saman og fjöldi fólks hefur misst lífsviðurværi sitt.

Brýn verkefni bíða
Á sviði stjórnmála gengur ríkisstjórn erfiðlega að koma brýnum verkefnum í framkvæmd, þrátt fyrir að hafa að nafninu til þingmeirihluta. Þar má nefna málalyktir Icesavesamninga, fjárfestingar í atvinnuskapandi verkefnum og efndir stöðugleikasáttmála við aðila vinnumarkaðar. Að auki eru úrræði stjórnvalda til úrbóta illa eða ekki nýtt af þeim sem á þurfa að halda. Þetta má m.a. glögglega sjá af slökum árangri við úrlausn skuldavanda heimila og fyrirtækja síðustu mánuði.

Allir leggist á árarnar
Afleiðing þessa er brotin þjóðarsál þar sem hinn einkennandi kraftur og bjartsýni Íslendinga hefur vikið fyrir svartsýni, neikvæðni og brigslum um svik. Birtingarmyndina má sjá í tíðum fjöldamótmælum á Austurvelli, rætinni umræðu í vefheimi og brottflutningi Íslendinga til landa þar sem framtíðin er talin bjartari.

Vandi okkar er af þeirri stærðargráðu að hann verður ekki leystur nema að allir leggist á árarnar, og þá í sömu átt. Þörf er á forystu á öllum sviðum samfélagsins, sem blæs þjóðinni von í brjóst og áhuga á verkinu sem fram undan er. Þá er verkið vel leysanlegt.

Þrjár þjóðir með andstæð markmið?
Á þessu hefur verið alger skortur að undanförnu og meira farið fyrir hnútukasti sem virðist helst gefa til kynna að Ísland byggi þrjár mismunandi þjóðir, sem allar hafa andstæð markmið. Þjóðirnar eru stjórnmálamenn, atvinnurekendur og fólk sem rekur venjuleg íslensk heimili. Það er með öllu ótækt að leiðtogar á hinum ýmsu sviðum leyfi sér að tala með þeim hætti að það leiðir til sundrungar frekar en samstöðu. Þetta á sérstaklega við um forsvarsmenn stjórnvalda og atvinnulífs, hverra samskipti hafa á stundum síst gefið tilefni til að ætla að þar fari fagfólk í leit að lausnum við erfiðri stöðu. Af sama meiði eru samskipti stjórnar og stjórnarandstöðu en þar mætti of oft ætla að réðu persónulegir hagsmunir frekar en hagsmunir Íslendinganna sem kusu alþingismenn á þing.

Skoðanaskipti snúist um málefni frekar en persónur
Það er ekkert óeðlilegt við að fólk greini á um leiðir að markmiðum sem flestir eru þó sammála um hver eru – bætt lífskjör og að áfram verði eftirsóknarvert að byggja landið. En til að árangur náist verður að gera þá kröfu að rökræða um verðleika mismunandi leiða sé fagleg og hófstillt. Til að svo verði þurfa skoðanaskipti að snúast um málefni frekar en persónur, um lausnir frekar en sakbendingu og um framtíð frekar en fortíð.

Ein þjóð leysir vandann

Með gífuryrðum drögum við Íslendinga í dilka sem eiga engan rétt á sér. Á Íslandi eru yfir 170 þúsund heimili og 30 þúsund fyrirtæki sem byggja tilvist sína hvert á öðru. Þau mynda órofa heild þar sem heimilin þurfa á atvinnu að halda og fyrirtækin á starfsfólki og eftirspurn. Sá sem rekur fleyg þar á milli, gætir sín ekki á afleiðingunum. Heimilin eru atvinnulífið, atvinnulífið er heimilin og á Íslandi býr bara ein þjóð. Höfum það í huga í glímunni við vandann sem Íslendingar munu óhjákvæmilega sigrast á.

Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs

Grein þessi birtist í Fréttatímanum 15. október 2010 (Bls. 34).

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024