Formaður Viðskiptaráðs: Einföldun regluverks setið á hakanum

Ein stærsta efnahagslega áskorun Íslendinga er lág framleiðni. Aukin framleiðni fyrirtækja í innlendum rekstri er lykillinn að bættum lífskjörum hérlendis. Þetta kom fram í máli Hreggviðs Jónssonar, fráfarandi formanns Viðskiptaráðs, í opnunarræðu Viðskiptaþings í dag. Flest tækifæri til aukinnar framleiðni séu til staðar í innlenda þjónustugeiranum og bætt umgjörð geirans myndi skila verulegum lífskjarabótum á Íslandi.

Þrjár áskoranir smæðarinnar

Hreggviður sagði smæðina þann þátt sem skeri sig mest úr í umhverfi íslenskra fyrirtækja en hún sé jafnframt undirrót margra þeirra áskorana sem fyrirtæki í innlendum rekstri glími við. Stjórnvöld þurfi að móta umgjörð atvinnulífsins með hliðsjón af þeim áskorunum sem smæðinni geta fylgt. Hreggviður útlistaði þrjár áskoranir:

  • Í fyrsta lagi sagði hann íslensk fyrirtæki búa við of miklar efnahagssveiflur. Þar hafi opinber fjármál og stöðugleiki á vinnumarkaði verið akkilesarhæll Íslendinga. Slíkar efnahagssveiflur dragi úr getu innlendra fyrirtækja til að móta langtímaáætlanir, byggja upp sérhæft vinnuafl og fjárfesta í tækjum sem auka rekstrarhagkvæmni.
  • Í öðru lagi séu stofnanaumhverfi og leikreglur á Íslandi ekki í takt við eðli hagkerfisins. Hér á landi sé haldið uppi álíka stofnanakerfi og stærri ríki hafa sem er sérlega íþyngjandi fyrir íslensk fyrirtæki vegna hærri hlutfallslegs kostnaðar. Leikreglur þurfi að sníða að aðstæðum.
  • Í þriðja lagi hafi ýmsar viðskiptahindranir verið lagðar í veg fyrir aukna framleiðni innlendra fyrirtækja og þá sér í lag hömlur gegn alþjóðlegri samkeppni. Hreggviður nefndi því til dæmis umfangsmikla tollvernd á sviði landbúnaðar, óskilvirka skattlagningu eins og stimpilgjöld og opinberar samkeppnisraskanir.

Íþyngjandi regluverk einn helsti þröskuldur íslenskra fyrirtækja

Af þeim þremur megináskorunum sem Hreggviður taldi upp sagði hann umbætur á stofnanakerfi og leikreglum setið á hakanum. Hann sagði það ótrúlegt að 330 þúsund manna samfélag haldi úti 182 ríkisstofnunum og nokkur hundruð rekstrareiningum til viðbótar á sveitastjórnarstiginu. Núverandi stjórnvöld hafi gefið út yfirlýsingar um að það standi til að einfalda kerfið en of lítið hafi breyst og í dag sé íþyngjandi regluverk einn helsti þröskuldur íslenskra fyrirtækja.

Bjartir tímar framundan

Í máli Hreggviðs kom fram að undanfarin fjögur ár hafa verið endurreisnartími á Íslandi. Hagvöxtur hafi verið umtalsverður og framtíðarhorfur þjóðarbúsins sjaldan verið betri. Að lokum þakkaði hann fyrir þau ár sem hann hafi gegnt sem formaður Viðskiptaráðs. Störf síðustu ára hafi verið góð, málefnastarf öflugt, stórir áfangar náðst í starfsemi ráðsins í menntamálum og flutningar Viðskiptaráðs úr Húsi verslunarinnar í Hús atvinnulífsins hafi skilað bæði faglegum og fjárhagslegum ávinningi.

Erindi Hreggviðs má nálgast hér

Tengt efni

Verðmæti fólgin í menntun og hæfni

Að mati Viðskiptaráðs er það hagur innflytjenda og samfélagsins að hæfni og ...
21. jún 2024

Gullhúðun og refsigleði í nýjum markaðssetningarlögum

Þingið hefur til umfjöllunar frumvarp til nýrra markaðssetningarlaga sem er ...
5. jún 2024

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi

Umsögn Viðskiptaráðs um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til ...