Saga

100 ára hátíðarrit ráðsins má lesa hér.

Verzlunarráð Íslands (nú Viðskiptaráð Íslands) var stofnað 17. september 1917. Rúmum áratug áður höfðu Íslendingar eignast sína fyrstu heimastjórn og fóru um leið að hafa meiri áhrif á framvindu innanríkismála. Með sjálfstæðishug í brjósti var blásið til sóknar í atvinnu- og menningarmálum. Sími, bankar, eigin útgerð, uppbygging í menntamálum og ný sjálfstæð sambönd í utanríkisverslun styrktu þessa þróun. Á þessum tíma óx verslun hratt og mikil framþróun og nýsköpun átti sér stað.

Á þeim tíma er ráðið var stofnað var fyrri heimstyrjöldin enn í algleymingi, með þeirri eymd og eyðileggingu sem henni fylgdi. Svarf þá einnig að Íslendingum, þótt þeir tækju ekki beinan þátt í stríðinu. Þetta átti ekki síst við á sviði viðskipta og verslunar. Þannig var stofnun ráðsins einnig tilraun til að leysa þau vandamál sem styrjöldinni fylgdu.

Forveri ráðsins og stofnfundur þess
Segja má að forveri ráðsins hafi verið Kaupmannaráð Reykjavíkur. Kaupmannaráðið starfaði á ýmsan hátt eins og erlend verslunarráð gerðu á þessum tíma og hafði náin sambönd við bæði stjórnvöld og kaupsýslumenn. Einnig hafði Kaupmannaráðið gengist fyrir stofnun Verzlunarskóla Íslands árið 1905. Þó var að lokum ákveðið að endurskipuleggja starfsemina og upp úr því varð Verzlunarráð Íslands til.

Það var fulltrúafundur verslunarstéttarinnar, haldinn í KFUM-húsinu ( sjá mynd að ofan) við Amtmannsstíg í Reykjavík 17. september 1917, sem gekk frá stofnun ráðsins. Undirbúningur fundarins var í höndum áðurnefnds Kaupmannaráðs. Á fundinum var einróma samþykkt tillaga þess efnis að stofna „fulltrúanefnd fyrir verslun, iðnað og siglingar, er nefndist Verzlunarráð Íslands“. Að fundinum stóðu 73 einstaklingar eða fyrirtæki, en síðar bættust fleiri í hópinn og teljast stofnendur ráðsins vera 156 talsins. Á stofnfundinum var kosin fyrsta stjórn ráðsins, en í henni sátu Jes Zimsen, Garðar Gíslason, Jón Brynjólfsson, Ólafur Johnson, Carl Proppé, Jensen-Bjerg og Olgeir Friðgeirsson. Úr þessum hópi var Garðar Gíslason kosinn fyrsti formaður ráðsins.

Fjölbreytt verkefni
Saga ráðsins hefur verið viðburðarík, og það hefur starfað að mörgum merkum málum. Ráðið hefur alla tíð unnið í anda þeirra markmiða sem í upphafi voru sett en að sama skapi sniðið stakk eftir vexti. Síbreytilegt viðskiptaumhverfi hefur á þessum árum mótað áherslur í starfi ráðsins á hverjum tíma. Ráðið hefur þó alltaf verið vettvangur hvers kyns fyrirtækja, óháð starfsgreinum eða stærð þeirra. Í þeim víðtæku tengslum við íslenskt viðskiptalíf sem ráðið hefur þannig öðlast felst einmittstyrkur ráðsins. Margir merkir og mætir einstaklingar hafa komið að störfum ráðsins og verður svo væntanlega um ókomna tíð. Með sama áframhaldi munu störf þess eflast og árangurinn halda áfram að skila sér með bættum viðskiptaaðstæðum.

Afskipt og illa haldin verslun
Ráðið hefur verið virkt í ýmsum hagnýtum málum er varða aðildarfélaga, s.s. verðlags-, innflutnings- og gjaldeyrismálum. Ráðið hefur haft umsjón með elsta starfandi gerðardómi landsins og skipað fulltrúa til ýmissa tilfallandi nefndarstarfa. Um miðbik síðustu aldar beindist athyglin að lánsfjármálum. Þótti kaupsýslumönnum verslunin vera afskipt og illa haldin. Til að leysa þetta mál var Verzlunarsparisjóðurinn stofnaður árið 1956, en upp úr honum varð Verzlunarbankinn til. Verzlunarráð lék mikilvægt hlutverk í stofnun bankans. Verzlunarbankinn sameinaðist síðar Útvegsbanka Íslands, Alþýðubankanum og Iðnaðarbankanum undir nafninu Íslandsbanki.

Leiðarljós ráðsins
Á 25 ára afmæli ráðsins flutti þáverandi formaður Verzlunarráðs, Hallgrímur Benediktsson, aðalræðuna um Verzlunarráðið, hlutverk þess og gildi. Í ræðunni sagði hann m.a.: „Tilgangur samtakanna var sá að efla og treysta hina íslenzku verzlun og skapa heilbrigða og hagfellda verzlunarhætti meðal þeirra, sem verzlun stunda.“ Einmitt þetta hefur verið leiðarljós ráðsins fram á þennan dag, og með slíku starfi sem þessu telur það sig vera að vinna fyrir alþjóðaheill. Þessi orð eiga vel við enn þann dag í dag. Að sjálfsögðu hefur viðskiptastarf Íslendinga þróast yfir í fleiri þætti en verslun eingöngu, en sé orðinu verslun skipt út fyrir viðskipti, lýsir þetta stefnu ráðsins afar vel.

Verslunarráð verður Viðskiptaráð
Í september árið 2005 var ákveðið að breyta nafni Verslunarráðs Íslands í Viðskiptaráð Íslands. Undangenginn áratug hafði orðið meiri breyting á íslensku viðskiptaumhverfi en nokkurn tíma áður í sögunni. Aukin fjölbreytni fyrirtækja einkenndi umfram annað þá breytingu. Í því ljósi var stjórn ráðsins sammála um að nafnið væri ekki eins lýsandi fyrir starfsemi þess og best væri á kosið. Í ljósi þess var tekið upp nafnið Viðskiptaráð Íslands og um leið var eldra nafn ráðsins lagt niður. Almenn ánægja ríkti með breytinguna og var hún talin til þess fallin að styrkja enn frekar öflugt tengslanet ráðsins í hinu sívaxandi íslenska viðskiptalífi.

Hjónin frá Þverá
Viðskiptaráð Íslands hefur átt marga velvildarmenn í gegnum tíðina. Þannig hafa ýmsir einstaklingar lagt lóð sín á vogarskálarnar í störfum ráðsins, bæði með beinum og óbeinum hætti. Það er þó óhætt að segja að enginn hafi gengið lengra í þeim efnum en Páll Stefánsson frá Þverá í Aðaldal og kona hans, Hallfríður Proppé.

Styrktarsjóður hjónanna
Í janúar árið 1953 var Eggerti Kristjánssyni, þáverandi formanni ráðsins, skýrt frá því að þau hjónin hefðu ákveðið að ánafna Verzlunarráði allar eigur sínar eftir sinn dag. Í erfðaskrá hjónanna kom fram að allar skuldlausar eignir dánarbúsins skyldu ganga til ráðsins og með fjármununum yrði stofnaður sjóður er nefnist Sjóður Fríðu Proppé og P. Stefánssonar frá Þverá.

Tilgangur sjóðsins er að efla hag íslenskrar viðskiptastéttar, vernda rétt hennar, efla frjáls viðskipti og vinna gegn hvers konar ófrelsi, ríkiseinkasölu og sérréttindum einstakra fyrirtækja.

Ráðið flytur skrifstofur sínar á Laufásveg
Um miðjan sjötta áratuginn keypti ráðið húseign þeirra hjóna við Laufásveg 36 og varð andvirði hússins stofnfé minningarsjóðs Fríðu og Páls. Ráðið flutti síðan skrifstofur sínar þangað árið 1962. Var húsið innréttað og því breytt á ýmsan hátt og voru þar auk skrifstofunnar, bókasafn og samkomu- og fundarsalur. Fríða Proppé bjó á efri hæð hússins þar til hún andaðist um vorið 1965. Skrifstofur ráðsins voru á Þverá allt þar til húseignin var seld við fjármögnun á Húsi Verslunarinnar, sem nú hýsir skrifstofur Viðskiptaráðs.