Forsvarsmenn stærstu fyrirtækja landsins telja að tækifæri til verðmætasköpunar í íslensku atvinnulífi á næstu 10 árum séu fjölmörg, en þó mest í orkugeira og ferðaþjónustu. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar sem fyrirtækið Maskína framkvæmdi fyrir Viðskiptaráð dagana 13.-31. janúar 2011. Alls voru 720 forsvarsmenn atvinnulífs í úrtaki könnunarinnar og svarhlutfall var um 57%.
Fjórðungur svarenda taldi tækifæri helst í frekari nýtingu orkuauðlinda og 11% töldu þau vera í tengslum við ferðamennsku og ferðaþjónustu. Verðmætasköpun á grunni þekkingar, nýsköpunar og hugverkageira, var forsvarsmönnum atvinnulífs einnig hugleikinn. Í niðurstöðum könnunarinnar kemur enn fremur fram að fleiri en færri telja að staða íslensks atvinnulífs verði betri eftir 12 mánuði, rúmlega 35% á móti rúmlega 30% sem telja að staðan verði verri. Það örlar því á aukinni bjartsýni hjá forsvarsmönnum fyrirtækja, sem er jákvæð þróun og til þess fallin að fyrirtæki leggi í fjárfestingu og grípi tækifæri til verðmætasköpunar sem víða leynast hér á landi.
Það viðamikla verkefni að nýta tækifæri til verðmætasköpunar hvílir fyrst og fremst á herðum atvinnulífsins - atvinnulífið þarf að varða veginn. Það er því viðeigandi að á Viðskiptaþingi 2011 verði horft á grunnstoðir hagvaxtar ásamt því að fjalla um þau margvíslegu tækifæri til uppbyggingar sem byggja á grunni þeirra. Þingið fer fram miðvikudaginn 16. febrúar á Hilton Reykjavík Nordica undir yfirskriftinni „Tökumst á við tækifærin - Atvinnulíf til athafna. Samhliða þinginu verður gefin út fróðleg skýrsla um efni þess og frekari niðurstöður úr áðurnefndri könnun verða birtar.
Ræðumenn á þinginu eru:
Einnig munu forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, og formaður Viðskiptaráðs, Tómas Már Sigurðsson, flytja erindi á þinginu. Þá mun mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, afhenda námsstyrki Viðskiptaráðs. Nánari upplýsingar um dagskrá og skráningu á Viðskiptaþing 2011 má finna hér.