Engum dylst að undanfarin misseri hafa verið Íslendingum erfið. Heilt hagkerfi er enn í uppnámi eftir fall bankakerfisins og viðfangsefnin ærin, enda ríkja hér fjórar kreppur; fjármála, skulda, gjaldmiðils og stjórnmála. Engar töfralausnir eru til, heldur þarf að marka stefnu, skilgreina markmið og vinna skipulega að því að ná þeim.
Eitt meginþema markmiðssetningar í stöðu eins og hér er hlýtur að þurfa að vera efling atvinnulífs - einkageirans sem veitir 125 þúsund manns atvinnu og stendur undir skatttekjum ríkisins og um leið velferðarkerfinu eins og það leggur sig. Hérlendis skortir hinsvegar verulega á aðgerðir til stuðnings atvinnulífi en enginn skortur er á hugmyndum sem draga úr því kraft eða letja fólk til framtaks og dugnaðar.
Síðasta málið í röð margra er umræða um enn eitt nýtt skattþrep á háar tekjur sem felur í sér enn frekari hækkun jaðarskatta. Jaðarskattar eru nú þegar orðnir allt of háir og til þess fallnir að draga úr dugnaði, fæla öflugt fólk frá landinu og hliðra vinnu í svart hagkerfi. Nægur skaði hefur þegar verið unninn á íslensku skattkerfi svo vanstilltar hugmyndir á borð við þær sem nú heyrast verði ekki að veruleika.
102% jaðarskattar í Monismaniu
Nálgunin sem nú virðist eiga upp á pallborðið hjá sumum stjórnmálamönnum, einkum úr stjórnarflokkunum tveimur, hefur verið prófuð og gerð hefur verið grein fyrir árangri hennar. Ein hugljúfasta lýsingin af því er Astridar Lindgren sem skrifaði smásöguna um barnabókahöfundinn
Pomperipossa sem bjó í landinu
Monismaniu. Þar voru jaðarskattar 102%. Í fyrstu hélt Pomperipossa að hún þyrfti aðeins að greiða 1.995.000 krónur í skatta af tveimur milljónum, en komst svo að því að hún hafði reiknað rangt og skuldaði skattinum 2.000 krónur þegar allar hennar tekjur höfðu verði greiddar í skatta.
Eftir að hafa bölvað öllum börnunum sem lásu bækurnar sem hún skrifaði og hækkuðu þannig tekjur hennar og juku skuld hennar við skattinn, hugsaði hún til þeirra ráðhollu stjórnmálamanna sem hún áður virti sem vitra og réttsýna og hafði kosið af trúrækni um árabil.
Hvað vakir fyrir þeim - að búa til samfélag eins þröngsýnt og ómögulegt og mögulegt er. Það ætti ekki að refsa fólki og ofsækja það eingöngu vegna þess að það - með eða án vilja - hagnaðist á heiðarlegan hátt.
Og Pomperipossa hugsaði áfram:
Hver er þessi ótrúlega súri öfundarfnykur sem nú liggur yfir Monismaniu? Og af hverju segir enginn upphátt: „Þetta getur ekki gengið áfram, því þannig deyðum við vinnusemi í okkar ástkæra landi og þá verða engir atvinnurekendur eftir til að skattleggja“
Að því loknu sótti Pomperipossa um félagslega aðstoð og safnaði fyrir kúbeini svo hún gæti brotist inn í ríkissjóð til að sækja sér þær 5.000 krónur sem hún taldi sig eiga. Ef stjórnmálamennirnir gátu stolið, hví ekki hún?
Því miður er nú of mikill svipur með umræðu og skattstefnu á Íslandi og í Monismaniu. Það er vond þróun. Lesning sögu Astridar Lindgren af Pomperipossa í Monismaniu er hinsvegar góð skemmtun og holl áhugasömum um stefnumörkun í skattamálum. Hana má finna
hér á ensku og
hér á frummálinu.
Finnur Oddsson
Framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands