Hvalir eru ekki blóm

„Ég skil að það sé  freistandi að skrifa fréttir um innkaupakörfu áhrifavalds í útlöndum eða fólk sem keypti sér hús í smábæ í Danmörku, en án samhengis segja þær lítið.“

Í amerískum glæpaþáttum sjáum við oft verjendur, sem gjarnan eru hetjurnar, kalla til sérfræðivitni. Það eru sérfræðingar með heppilegar skoðanir og gegn greiðslu eru þeir til í að mæta og gefa álit í krafti sérfræðiþekkingar sinnar. Skjólstæðingurinn er svo sýknaður og allir una glaðir við sitt.

Veruleikinn er venjulega aðeins flóknari, en það er ekki þar með sagt að ekki séu til svona sérfræðingar í íslensku samfélagi, sem taka sér stöðu með eða á móti einhverjum málstað. Oft er það þannig að einhverjir deiluaðilar tefla fram hvor sínum sérfræðingi (eða álitsgjafa). Þeir eru að sjálfsögðu ekki sammála og almenningur situr eftir, litlu nær.

En stundum hlýtur einfaldlega að vera hægt að skera úr um hvað er rétt og hvað rangt, ekki allt er háð túlkun. Í því samhengi má nefna umsögn Hafrannsóknarstofnunar um frumvarp nokkurra þingmanna um bann við hvalveiðum, en í greinargerð með málinu er því haldið fram að hvalir framleiði súrefni. Um það atriði segir Hafró: Hvalir framleiða ekki súrefni - og vísar á bug „ýmsum staðhæfingum sem eru ekki í samræmi við núverandi stöðu þekkingar á vistfræðilegum áhrifum hvala”.

Staðreyndir skipta máli í allri umræðu. Líka þegar við ræðum um efnahagsmál, laun og framfærslu. Ég skil að það sé  freistandi að skrifa fréttir um innkaupakörfu áhrifavalds í útlöndum eða fólk sem keypti sér hús í smábæ í Danmörku, en án samhengis segja þær lítið. Það væri því til dæmis sniðugt að skoða samanburðarhæfar tölur alþjóðlegra stofnana sem sýna hvernig við stöndum miðað við aðrar þjóðir.

Áreiðanleg gögn segja okkur nefnilega að meira að segja kaupmáttarleiðrétt eru meðalárslaun á Íslandi einna hæst í heiminum - og hvalir geta ekki ljóstillífað.

Birtist fyrst á vb.is 1. nóvmber 2023.

Tengt efni

Meiri pening, takk

„Aðhaldskrafa er ekki byggð inn í stjórnkerfið sem við búum við og þannig hafa ...
19. apr 2024

Já, ég er óþolandi

Svanhildur Hólm er komin með nýtt áhugamál sem vonandi léttir eitthvað álaginu ...
12. apr 2023

Opinber þynnka

Er opinber þynnka eitthvað skárri en einkarekin?
24. mar 2022