Viðskiptaráð Íslands

"Stjórnarmenn geta ekki firrt sig ábyrgð" - morgunverðarfundur um innra eftirlit fyrirtækja

 

Morgunverðarfundur Verslunarráðs um innra eftirlit fyrirtækja, sem haldinn var í samstarfi við PricewaterhouseCoopers, var vel sóttur.  Verslunarráð ásamt Samtökum atvinnulífsins og Kauphöll gáfu út Leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja fyrr á árinu. Því má segja að það hafi verið rökrétt framhald að fjalla um innra eftirlit sem er mikilvægur þáttur í stjórnarháttum fyrirtækja.

Í erindi Ólafs Kristinssonar endurskoðanda hjá PricewaterhouseCoopers kom fram að víða í lögum væru ákvæði um innra eftirlit án þess að það væri skilgreint nánar. Hann sagði að þeir aðilar sem kæmu að innra eftirliti, þ.e. stjórnir, eftirlitsaðilar, fjármagnseigendur, löggjafinn og dómstólar, þyrftu að hafa sameiginlegan skilning á því hvað fælist í því. Erlendis hefðu komið fram ýmsar rammaleiðbeiningar (Framework) um innra eftirlit. Ólafur fjallaði um rammaleiðbeiningar frá Bandaríkjunum sem kenndar eru við COSO. Þar er að finna skilgreiningu á innra eftirliti sem hæfir öllum fyrirtækjum óháð stærð, atvinnugrein og félagsformi. Innra eftirlit er skilgreint sem hver sú aðgerð stjórnar, stjórnenda og starfsmanna, sem ætlað er að veita hæfilega vissu um að eftirfarandi markmið náist: a) árangur og skilvirkni í starfseminni b) áreiðanlegar fjárhagsupplýsingar c) uppfyllt ákvæði laga og reglugerða.  Ólafur benti á að innra eftirlit væri ekki markmið í sjálfu sér. Það væri ekki ný deild í skipuriti og væri ekki íþyngjandi fyrir reksturinn. Hefði ekki í för með sér verulegan kostnaðarauka og hægði ekki á umsvifum fyrirtækisins. Innra eftirlit væri tæki stjórnenda til að ná settum markmiðum.

Sjá glærur Ólafs hér.

Brynjólfur Bjarnason forstjóri Símans sagði hvernig fyrirtækið hefði brugðist við auðgunarbroti sem upp komst hjá fyrirtækinu. Lísti hann ytri og innri viðbrögðum fyrirtækisins m.a. hvernig ferli rafrænnar afstemmingar hefði verið breytt. Brynjólfur sagði að fyrirtækið hefði breytt starfsmannareglum sínum og innri endurskoðun. Lagði hann áherslu á að farið væri að lögum og reglum. Upplýsingagjöf til stjórnenda væri fullnægjandi. Áhætta væri greind með fullnægjandi hætti og henni stjórnað. Að stöðugt gæða- og umbótastarf væri samþætt eðlilegri starfsemi Símans. Brynjólfur sagði að mikilvægt væri að gjörðir starfsmanna samræmdust stefnu og verklagsreglum Símans.

Sjá glærur Brynjólfs hér.

Heiðrún Jónsdóttir lögmaður á Lex lögmannsstofu fjallaði um eftirlitsskyldu stjórnarmanna. Hún sagði að stjórnarmenn gætu ekki firrt sig ábyrgð. Eftirlitsskyldan hvíldi á öllum stjórnarmönnum, ekki bara stjórnarformanni. Stjórnarmönnum bæri að sýna frumkvæði og koma á virku eftirliti og gætu ekki borið fyrir sig vanþekkingu. Heiðrún sagði að stjórnarmenn þyrfti ekki að hafa sérþekkingu til að fella á sig ábyrgð og að ekki væri hægt að bera fyrir sig að hafa ekki tekið þátt í störfum stjórnar. Stjórnarmenn ættu rétt til að kalla eftir upplýsingum og gætu sagt sig úr stjórn hvenær sem er. Benti hún á leiðir fyrir stjórnarmenn sem geta takmarkað áhættu (sjá glærur). Heiðrún sagði að brot á eftirlitsskyldu stjórnarmann gætu leitt til refsiábyrgðar og skaðabótaábyrgðar einstakra stjórnarmanna.

Sjá glærur Heiðrúnar hér.

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024