Viðskiptaráð Íslands

Óvissa um greiðslufallstryggingar

Að undanförnu hafa töluverðir hnökrar verið á milliríkjaviðskiptum vegna gjaldeyrishafta Seðlabankans og vandamála í greiðslumiðlun sem upp komu eftir fall íslensku viðskiptabankanna. Erlendir aðilar hafa ekki farið varhluta af þeirri óvissu sem ríkir um íslenskt efnahagslíf, enda mikið fjallað um íslensku fjármála- og gjaldeyriskreppuna. Það sem enn hefur aukið á vandann er að erlend greiðslutryggingarfélög fást sum hver ekki til að gangast í ábyrgðir fyrir greiðslur hjá íslenskum félögum.

Fyrirtæki (t.d. erlendir birgjar) kaupa tryggingar fyrir greiðslufalli viðskiptavina sinna (t.d. íslenskra innflytjenda). Stærstu alþjóðlegu greiðslutryggingarfélögin eru Euler Hermes og Atradius, sem sækja upplýsingar um stöðu íslenskra fyrirtækja hjá upplýsingamiðlunum á borð við CreditInfo.  Vegna hrörnandi efnahagsástands á alheimsvísu hafa greiðslutryggingarfélögin kerfisbundið unnið að því að minnka áhættu í starfsemi sinni og draga þá sérstaklega úr starfsemi í löndum þar sem efnahagsástand er talið ótryggt.

Ísland er nú talið með slíkum löndum og hafa íslensk fyrirtæki því mörg hver lent í vandræðum vegna þess að birgjar þeirra fá ekki lengur ábyrgð fyrir greiðslum frá þeim. Niðurfelling á slíkum tryggingum felur í sér umtalsvert óhagræði í rekstri íslenskra fyrirtækja, t.a.m. vegna aukinnar lausafjárþarfar. Því er afar brýnt að markvisst sé unnið að enduruppbyggingu á trúverðugleiki Íslands, íslensks viðskiptalífs og fjármálageira, til að frekara óhagræði eigi sér ekki stað með afar slæmum afleiðingum fyrir íslenska hagkerfið. Ef greiðslufallstryggingar eru ekki veittar, eru eftirfarandi leiðir mögulegar til að ganga frá viðskiptum á milli landa:

- Greiðslufrestur hjá birgjum án tryggingar eða ábyrgðar
Í mörgum tilvikum eru erlendir birgjar tilbúnir að semja um slíkt, sérstaklega þar sem byggt er á traustu viðskiptasambandi. Það er þó ekki óeðlilegt, í ljósi umfjöllun um Ísland síðustu vikur og hnökra á erlendri greiðslumiðlun, að erlendir aðilar geti verið tregir til að veita íslenskum fyrirtækjum greiðslufrest án trygginga. Engu að síður er sérstaklega mælt með að vinna sé lögð í að halda góðu sambandi við birgja og útskýra ástæður núverandi erfiðleika í viðskiptum á milli landa.

- Bankaábyrgð frá íslenskum banka
Mögulegt er að fá útgefna bankaábyrgðir hjá viðskiptabönkunum og þjóna þær að hluta á sama hátt og greiðslufallstryggingar. Slík útgáfa felur í sér einhvern kostnað, sem annars hefur fallið á birgja (vegna greiðslufallstrygginga sem þeir hafa keypt). Því er ekki óeðlilegt að afslættir komi á móti hjá erlendum birgjum. Rétt er að benda á að erfitt getur reynst að framselja bankaábyrgðir auk þess sem sumir erlendir aðilar vantreysta ábyrgðum íslenskra banka. Væntanlega eykst traust þó smám saman þegar málefni íslensku viðskiptabankanna skýrast.

- Fyrirframgreiðsla
Gengið er frá greiðslu áður en vara er send af stað. Þessi leið er óheppileg fyrir margra hluta sakir, s.s. vegna aukinnar lausafjárþarfar fyrirtækja, vandkvæða við útgáfu reikninga (pro forma), skerts aðgengis að gjaldeyri og núverandi vandkvæðum við greiðslumiðlun á milli landa.

Unnið að fyrirgreiðslu
Eins og áður sagði er afar brýnt að grípa strax til aðgerða til að liðka fyrir því að íslensk fyrirtæki geti átt viðskipti við erlenda aðila með eðlilegum hætti. Greiðslufallstryggingar eru mikilvægur þáttur í því að svo geti verið og því er nú unnið að því í samstarfi við stjórnvöld að kynna tryggingarfélögunum stöðu mála hérlendis með það að leiðarljósi að liðka til fyrir því að þau ábyrgist áfram greiðslur frá íslenskum fyrirtækjum. Gert er ráð fyrir að fulltrúar stjórnvalda, íslensku viðskiptabankanna og Viðskiptaráðs Íslands hitti forsvarsmenn tryggingarfélaganna í næstu viku í þessum tilgangi.

Mikilvægi upplýsingaskilaÍ þessu sambandi er afar mikilvægt að erlendu tryggingarfélögin hafi sem bestar upplýsingar um rekstur þeirra íslensku fyrirtækja sem gengist er í ábyrgðir fyrir.  Því vill Viðskiptaráð brýna fyrir þeim félögum sem eiga eftir að skila inn ársreikningi 2007 (og í sumum tilfellum árshlutareikningi 2008) að gera það hið fyrsta. Upplýsingar sendist á reports@creditinfo.is.

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024