Viðskiptaráð Íslands

Greiðslumiðlun Schrödingers

„Með frumvarpinu er ekki einungis verið að veita Seðlabankanum heimild til að setja reglur um greiðslumiðlun heldur einnig verið að leggja drög að stofnun greiðslumiðlunar í eigu ríkisins.“

María Guðjónsdóttir, lögfræðingur Viðskiptaráðs.

Á Alþingi liggur frumvarp til breytinga á lögum um Seðlabanka Íslands. Við fyrstu sýn virkar þetta fremur stutt og einfalt frumvarp um rekstraröryggi greiðslumiðlunar. Það fara þó að renna á mann tvær grímur þegar jafn efnislitlu frumvarpi fylgir greinargerð upp á þrjátíu síður, en það skýrist einkum af því að með frumvarpinu er ekki einungis verið að veita Seðlabankanum heimild til að setja reglur um greiðslumiðlun heldur einnig verið að leggja drög að stofnun greiðslumiðlunar í eigu ríkisins.

Seðlabankinn hefur það hlutverk að tryggja fjármálastöðugleika og þ.m.t. greiðslumiðlun í landinu og því kann vissulega að vera ástæða til að styrkja reglusetningarheimildir svo bankinn geti sett skýrar leikreglur. Í því þarf þó ekki að felast opin og óskilgreind heimild Seðlabankans til að koma á fót greiðslumiðlun eða innviði, eins og bankanum og ráðherra er tamt að kalla málið til að réttlæta verkefnið.

Með frumvarpinu er lagt til að Seðlabankanum verði heimilt að setja reglur um rekstraröryggi greiðslumiðlunar og þar verði m.a. heimilt að mæla fyrir um fyrirkomulag innviða innlendrar greiðslumiðlunar, aðgang að innviðum, skyldu lánastofnana til þátttöku, gjald fyrir afnot og mörk á gjaldtöku af hálfu greiðsluþjónustuveitenda. Verður því ekki annað séð en að ætlunin sé ekki einungis að heimila Seðlabankanum að koma á fót greiðslumiðlun í eigin eigu, heldur jafnframt heimild til að skylda lánastofnanir til bera þróunar-, rekstrar og viðhaldskostnað. Um leið muni ríkið takmarka gjaldtöku fyrirtækjanna vegna rekstursins.

Bæði forsætisráðuneytið og Seðlabankinn hafa haldið því fram að ekki eigi að koma á fót nýrri ríkislausn í smágreiðslumiðlun heldur eigi að nýta núverandi innviði hjá bankanum og íslenskum innlánsstofnunum og að ekki standi til að fara í samkeppni við fyrirtæki á markaði. Í frumvarpinu er þetta ekki tryggt, ekki er fjallað um að þeir fjölmörgu innviðir á almennum markaði sem eru nú þegar til staðar verði nýttir. Um leið eru bankanum veittar heimildir til inngripa í rekstur fyrirtækja á samkeppnismarkaði og velta kostnaði yfir á þau. Það er ekki að ástæðulausu að víðtækar heimildir eiga ekki að vera lögfestar í þeirri trú að núverandi stjórnvöld hyggist ekki nýta þær með tilteknum hætti.

Ein af undirliggjandi ástæðum frumvarpsins er þjóðaröryggi en samkvæmt stjórnvöldum eru áhyggjur af viðnámsþrótti greiðslumiðlunar í landinu þar sem netárásum og hagnýtingu á veikleikum í hugbúnaði hafi fjölgað til muna og aukin ógn stafi að fjarskiptainnviðum. En nú þegar eru til innlendar rafrænar greiðslulausnir sem virka óháð erlendum kortakerfum og ekkert sem tryggir að greiðslumiðlun Seðlabankans verði ónæm fyrir umræddum hættum auk þess sem hún verður líkt og allar innlendar greiðslumiðlanir háð aðfluttum hug- og vélbúnaði.

Fjölmargar og ítrekaðar athugasemdir hafa verið gerðar við málið og enn er óljóst hvers vegna núverandi greiðsluúrræði duga ekki til. Hér er aðgengi að greiðsluþjónustu með besta móti, millifærslur á milli reikninga gerast í rauntíma og greiðslukort eru mjög útbreidd. Þá vinna aðilar á markaði að samræmdum greiðslulausnum sem tryggja opið aðgengi og bæta samkeppnisgrundvöll, framboð og nýsköpun í greiðsluþjónustu.

Oft er kostnaðarmati ríkisins ábótavant en hér er einfaldlega viðurkennt að ekki sé tímabært að útfæra nánar í löggjöf hver aðkoma Seðlabankans eigi að vera og hver heildarkostnaður af mögulegum innviðum verður. Sumir hefðu haldið að þetta væru næg rök fyrir því að staldra við en í staðinn er bankanum veittur opinn tékki. Sporin hræða þegar ríkið ætlar að veita stofnun víðtækar og lítt skilgreindar heimildir til að koma á fót tæknilausn. Hætta er á að við sitjum uppi með rándýra lausn sem virkar illa og enginn notar, annað eins hefur nú gerst. Eins og staðan er núna er engin leið að vita hvaða greiðslumiðlun á að koma á fót, hvað hún mun kosta og hvaða vandamál henni er ætlað að leysa og því er hún best geymd áfram í kassanum.

Tengt efni

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024

Eftirlitsmisskilningur Þórunnar

Viðskiptaráð leggur fram tíu tillögur sem lækka kostnað vegna eftirlits án þess …
31. ágúst 2024