Verðlagseftirlit ASÍ birti fréttatilkynningu í gær þar sem fullyrt er að engar vísbendingar séu um að afnám vörugjalda á byggingarvörur hafi skilað sér í lægra verði til neytenda. Viðskiptaráð gerir alvarlegar athugasemdir við bæði vinnubrögð og ályktanir eftirlitsins. Þannig notast ASÍ við rangan mælikvarða og tekur ekki tillit til þess að veigamiklir vöruflokkar, meðal annars steypuvörur, báru engin vörugjöld áður. Afleiðingin er að fullyrðing ASÍ stenst ekki nánari skoðun.
Verð til verktaka en ekki neytenda
ASÍ notast við undirvísitöluna „efni til viðhalds“ í vísitölu neysluverðs frá Hagstofu Íslands til að álykta um verðbreytingar á byggingarvörum til neytenda. Sú undirvísitala áætlar hins vegar efnisverð til verktaka – ekki neytenda. Undirvísitalan byggir á efniskostnaði í byggingarvísitölu Hagstofunnar sem áætlar kostnað verktaka við að byggja fjölbýlishús á höfuðborgarsvæðinu.
Veigamiklir vöruflokkar báru engin vörugjöld
Veigamiklir vöruflokkar í þeirri vísitölu sem ASÍ notast við báru engin vörugjöld áður. Þar má til dæmis nefna vörur úr sementi og steinsteypu, steypumót, bindiefni fyrir málmsteypumót, steypustyrktarjárn og steinull.1 ASÍ tekur hins vegar ekkert tillit til þess og gerir þess í stað ráð fyrir að allir vöruflokkar eigi að lækka í verði – jafnvel þótt engin vörugjaldalækkun hafi átt sér stað.
Þriðja athugasemd við vinnubrögð ASÍ á tveimur árum
Þetta er í þriðja sinn á tveimur árum sem Viðskiptaráð gerir athugasemdir við vinnubrögð verðlagseftirlits ASÍ. Í fyrri tvö skiptin notaðist verðlagseftirlitið við rangt viðmiðunarverð til að áætla áhrif skattalækkana á raftæki og byggingarvörur.
Viðskiptaráð lýsir yfir vonbrigðum með að verðlagseftirlit ASÍ kjósi að leiða hjá sér athugasemdir ráðsins og haldi þess í stað uppteknum hætti. Slíkt gerir neytendum erfitt fyrir að átta sig á verðbreytingum á helstu neysluvörum og áhrifum lægri neysluskatta á íslensk heimili.
-
1 Sjá nánar í tollskrá Tollstjóra. Vöruflokkanúmerin eru eftirfarandi: vörur úr sementi eða steinsteypu (6810), steypumót (7308), bindiefni fyrir málmsteypumót (3824), steypustyrktarjárn (7213), steinull og áþekk ull (6806.1).