Viðskiptaráð Íslands

Þörf á að treysta og styrkja flutningskerfi raforku

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á skipulagslögum nr. 123/2010.

Viðskiptaráð Íslands hefur tekið til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á skipulagslögum nr. 123/2010.

Frumvarpið byggist á tillögum átakshóps sem komið var á í kjölfar atburða sem leiddu með skýrum hætti í ljós að raforkuinnviðir geta ekki lengur tryggt örugga afhendingu raforku um allt land. Niðurstöður hópsins eru m.a. þær að leyfisveitinga- og umsagnarferli vegna framkvæmda við raforkuinnviði sé flókið og tímafrekt.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar er lögð áhersla á uppbyggingu grænnar orkuframleiðslu. Í því skyni þarf að treysta og styrkja flutningskerfi raforku. Frumvarpinu er ætlað að flýta fyrir og einfalda uppbyggingu nauðsynlegra innviða. Viðskiptaráð telur það til heilla og í samræmi við markmið stjórnarsáttmála. Aftur á móti telur ráðið að taka þurfi stærri skref en ráðgert er í fyrirliggjandi frumvarpi, eigi það að hafa tilætluð áhrif.

Viðskiptaráð leggur því til að frumvarpið taki ekki eingöngu til skipulags á flutningskerfi, heldur einnig til vinnslu, dreifingar og flutnings á raforku þ.e. einnig til dreifikerfis og annarra innviða eftir því sem við á. Ráðið mælist því góðfúslega til þess að 1. mgr. a-liðar 7. gr. frumvarpsins orðist á þá leið að hún taki einnig til þessara þátta. Sömu sjónarmið eiga við um b-lið sömu greinar.

Að öðru leyti tekur Viðskiptaráð undir þær athugasemdir sem koma fram í umsögn Samtaka iðnaðarins um sama mál, dags. 6. október sl.

Niðurstaða

Viðskiptaráð leggur til að tekið verði tillit til ofangreindra athugasemda og tillagna við þinglega meðferð frumvarpsins.

Ráðið lýsir sig reiðubúið til samstarfs og samráðs um frumvarpið og mun góðfúslega skýra umsögn sína nánar verði þess óskað.

Tengt efni

Dregið úr stuðningi við nýsköpun

Nýir og hærri skattar eru lagðir til í bandorminum svokallaða, sem eru …
22. október 2024

Afnema ætti ríkiseinokun og auglýsingabann

Íslensk áfengislöggjöf mismunar innlendum fyrirtækjum samanborið við erlend …
15. október 2024

Missum ekki sjónar á hagsmunum neytenda

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að missa ekki sjónar á því að hagur neytenda …
10. október 2024