Viðskiptaráð Íslands

Traust til íslenskra fyrirtækja fer vaxandi

Traust almennings til íslenskra fyrirtækja fer vaxandi og hefur ekki verið hærra frá því að mælingar hófust árið 2010. Þá bera fjórir af hverjum fimm einstaklingum traust til eigin vinnuveitanda. Þetta eru niðurstöður viðhorfskönnunar sem unnin var af Gallup fyrir Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands.

Íslensk fyrirtæki vinna sér inn traust á ný
Í kjölfar efnahagshrunsins minnkaði traust almennings til margra aðila. Íslensk fyrirtæki voru þar engin undantekning og fór traustið lægst niður í 37% árið 2012. Síðan þá hefur hins vegar orðin umtalsverð aukning ár frá ári og stendur traustið nú í 58%. Það er mesta traust til íslenskra fyrirtækja sem mælst hefur hjá Gallup frá því að mælingar hófust árið 2010.

Svipaða sögu er að segja af vinnuveitendum. Þar fór hlutfallið lækkandi á svipuðu tímabili og fór neðst í 69% árið 2014. Síðan þá hefur hlutfallið hækkað upp í 80% svo fjórir af hverjum fimm einstaklingum bera traust til eigin vinnuveitanda í dag. Þetta hlutfall hefur einungis einu sinni verið hærra, eða 81% árið 2010.

Mikið traust samanborið við aðra
Vinnuveitendur sem og íslensk fyrirtæki njóta nú mikils trausts samanborið við aðra aðila. Einungis Landhelgisgæslan mælist með meira traust en íslenskir vinnuveitendur. Þá eru íslensk fyrirtæki í fimmta sæti af 18 yfir þá aðila sem almenningur ber mest traust til.

Traust styrkir grundvöll góðra lífskjara
Traust í viðskiptum skiptir sköpum fyrir verðmætasköpun og betri lífskjör. Íslensk fyrirtæki bera mikla ábyrgð í þeim efnum og geta gert ýmislegt til að efla traust. Virk upplýsingagjöf, ábyrg hegðun gagnvart samfélaginu og uppbyggilegt samtal við helstu hagaðila eru allt lóð á vogarskálar aukins trausts.

Það er jafnframt mat Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs Íslands að með því að fylgja góðum stjórnarháttum megi efla almennt traust gagnvart viðskiptalífinu enn frekar. Í því samhengi er vert að benda á Leiðbeiningar um góða stjórnarhætti sem samtökin hafa gefið út í samstarfi við Nasdaq Iceland. Leiðbeiningunum er meðal annars ætlað að skýra hlutverk og ábyrgð stjórnenda fyrirtækja og auðvelda þeim þannig að rækja störf sín og um leið treysta hag hluthafa, fjárfesta og annarra hagsmunaaðila.

Nýjustu niðurstöður Gallup eru hvatning fyrir íslensk fyrirtæki og það er von Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs Íslands að unnt verði að efla traust enn frekar á komandi árum. Til að svo megi verða er mikilvægt að samtal helstu hagsmunaaðila fari fram á uppbyggilegum og málefnalegum grunni. Það eru sameiginlegir hagsmunir atvinnulífs og almennings að styrkja grundvöll góðra lífskjara enn frekar.

Tengt efni

Björn Brynjúlfur í stjórn HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024