Viðskiptaráð Íslands

Vel heppnaður Peningamálafundur Viðskiptaráðs

Áhugaverður fundur er að baki þar sem Már Guðmundsson seðlabankastjóri fór yfir árangur og áskoranir peningastefnunnar. Innflæðishöftin eru tæki sem Seðlabankinn sér fyrir sér að geta gripið til á komandi árum ef þörf er á með fljótandi gengi og verðbólgumarkmiði, þó markmiðið sé að lækka bindiskyldu niður í núll eins fljótt og auðið er. Ákall barst frá atvinnulífinu á fundinum um stöðugleika og fyrirsjáanleika í gengismálum. Rætt var um þann viðskiptakostnað sem fylgir krónunni, en seðlabankastjóri benti á að bankinn gæti ekki stýrt raungenginu, aðeins nafngengi. Hér þyrftu stjórnmálamenn að sjá að sér í atvinnustefnu.

Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs, benti á þá skemmtilegu tilviljun að fundinn bæri upp á dag íslenskrar tungu en íslenskan hefur varðveist og haldið sér í megin dráttum frá því að hér riðu hetjur um héruð. Velti hún því upp hvort það væri með þessum sömu augum sem við horfðum á íslensku krónuna?

„Er hún menningararfur og mikilvægur partur af sjálfstæði okkar Íslendinga eða er hún einungis mælieining, gjaldmiðlavog í viðskiptum og tæki til að geyma verðmæti? Svo ég vitni nú í Ragnar S. Halldórsson, forvera minn í starfi, sem spurði einmitt þeirrar spurningar í blaðagrein árið 1986 hvort sjálfstæði þjóðar felist í sjálfstæðri mynt, eigin gjaldmiðli? Og hvort það væri svik við landið að leggja til að íhuga upptöku annarrar myntar? Hann minnti á að þegar hér riðu hetjur um héruð, var notuð erlend mynt á Íslandi. Ekki að við séum að fara að boða upptöku annarrar myntar hér í dag heldur er ætlunin að fara yfir þá valkosti sem í boði eru þegar kemur peningamálum og rökræða það sem við vitum fyrir víst og hvað ekki.“

Hér má sjá myndir frá fundinum.

Viðskiptaráð þakkar seðlabankastjóra og pallborðsgestum kærlega fyrir góðan fund.


Tengt efni

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024

Stöðnun á grunnskólastigi - hátíðarræða við brautskráningu frá HR

Laugardaginn 22. júní útskrifuðust 692 nemendur frá Háskólanum í Reykjavík. Í …
24. júní 2024