Viðskiptaráð Íslands

Endurskoðum efnahagsstefnuna

Eftirfrandi grein birtist í Áramótum Viðskiptablaðsins 30. desember 2010

Þegar litið er yfir atvinnulífið í heild sinni og árið gert upp kemur fyrst upp í hugann hversu skammt hefur í raun miðað fram veg frá hruni. Slíkt mat er ekki byggt á tilfinningunni einni því tölur Hagstofunnar sýna að fjárfesting hefur dregist saman, hagvöxtur er neikvæður og allt of margar viljugar hendur fá ekki störf við hæfi.

Þegar horft er til aðgerða núverandi ríkisstjórnar þarf þetta ekki að koma á óvart. Það er hinsvegar útbreiddur misskilningur að ríkisstjórnin hafi setið aðgerðalaus. Svo er ekki, heldur hefur hún gengið rösklega til verks í að gera og leggja til veigamiklar breytingar á helstu grunngerðum samfélagsins og starfsumhverfi fyrirtækja.  Þar má nefna stórfelldar skattkerfisbreytingar, aukna aðkomu hins opinbera að hefðbundnum atvinnurekstri, hömlur á erlenda fjárfestingu og aðför að sjávarútvegi, svo fáein dæmi séu nefnd.

Atvinnulífið bregst við
Við þessu hefur atvinnulífið brugðist með uppbyggilegum tillögum og samræðum um það sem betur hefur mátt fara. Til dæmis fengu Viðskiptaráð og Samtök atvinnulífs helstu sérfræðinga á sviði skattamála til að gera veigamikla úttekt á áhrifum skattkerfisbreytinga og í kjölfarið voru lagðar fram tillögur að fjölda einfaldra og hagfelldra breytinga. Þessu sýndu stjórnvöld nokkurn áhuga og tóku undir sumar hugmyndirnar. Það veldur hinsvegar vonbrigðum að efndir í fjárlagafrumvarpi urðu afar takmarkaðar og svo virðist sem stjórnvöld vinni markvisst að því að færa hagkerfið með hraði frá því umhverfi sem hér var búið að koma á fót og var forsenda fjárfestingar, verðmætasköpunar, hagvaxtar og velferðar. Þessa stefnu verður núverandi ríkisstjórn að endurskoða.

Vissulega voru gerð mistök og vissulega varð hér efnahagshrun. Látum til þess bæra aðila kveða upp dóm um hvað fór úrskeiðis. Aðrir ættu að beina kröftum sínum að því að byggja upp landið og nýta auðlindirnar sem við höfum í mannauði og náttúru. Forsenda þess að það takist er að áfram verði byggt á kröftugu markaðshagkerfi þar sem starfsskilyrði atvinnulífs eru góð og nýtt fjármagn laðað að með góðum skilyrðum til fjárfestinga. Eingöngu þannig fá fleiri hendur störf, verðmæti skapast, gjaldmiðillinn styrkist, umsvif aukast og skattstofnar breikka. Þannig verður okkur kleift að greiða niður skuldir, vaxa til framtíðar og viðhalda velferðinni.

Árið 2011 gæti reynst erfitt
Gera má ráð fyrir að næsta ár verði heimilum og fyrirtækjum erfitt. Lítið sem ekkert svigrúm er til launahækkana og afar mikilvægt að við sköpum ekki gjá milli atvinnugreina, t.a.m. þeirra sem starfa á innlendum markaði og þeirra sem starfa í útflutningsgreinum. Af því höfum við nýlega reynslu sem ætti að vera okkur víti til varnaðar. Vel má vera að einhverjir líti svo á að hér sé ég eingöngu að horfa til þess geira sem ég starfa í. Svo er hinsvegar alls ekki. Ég ber þá von í brjósti að hér verði hægt að halda úti efnahagsstefnu sem styrkir atvinnulíf almennt og efnahag til lengri tíma og að veiking krónunnar sé tímabundin en ekki varanleg. Útflutningsgreinarnar fundu vel fyrir því á árunum fyrir hrun að gjaldmiðillinn var allt of sterkur. Við byggjum okkar framtíð ekki á stöðunni í dag heldur hvernig við viljum vaxa. Ef við viljum byggja upp fjölbreytt atvinnulíf og fjölbreytt samfélag verðum við að tryggja að hér standi atvinnuvegirnir nokkurn veginn jafnfætis þegar kemur að því að draga að sér vinnuafl og hugvit.

Síðast en ekki síst verður að nefna að ein forsenda uppbyggingar fjölbreytts atvinnulífs þar sem allir sitja við sama borð er að gjaldeyrishöft verði afnumin sem allra fyrst. Höftin eru okkur kannski ekki sýnileg frá degi til dags en þau valda ómældum skaða með því að takmarka sóknarmöguleika íslenskra fyrirtæka á erlenda markaði og beinlínis hvetja til þess að starfsemi verði flutt út fyrir landsteinana. Um leið virka þau sem varnarmúr fyrir fjárfestingar hérlendis, bæði gagnvart innlendum og erlendum aðilum. Höftin verða að víkja þó það kosti mögulega fórnir til skemmri tíma.

Tómas Már Sigurðsson, formaður Viðskiptaráðs Íslands.

Tengt efni

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024

Eftirlitsmisskilningur Þórunnar

Viðskiptaráð leggur fram tíu tillögur sem lækka kostnað vegna eftirlits án þess …
31. ágúst 2024