Viðskiptaráð Íslands

Innstæðulaus inngrip í kjarasamninga

„Í stað innstæðulausra inngripa í kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði ættu stjórnvöld að einbeita sér að því að skila hallalausum fjárlögum.“ Þetta kemur fram í grein sem Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, skrifar.

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar, birti grein í Morgunblaðinu á laugardaginn þar sem hún gagnrýndi umsögn Viðskiptaráðs um fjárlagafrumvarp næsta árs. Ingibjörg sagði ráðið leggja þar til að „ríkið eigi að virða skuldbindingar sínar að vettugi og draga úr mikilvægum aðgerðum fyrir fólkið í landinu.“ Sams konar gagnrýni barst frá tveimur fulltrúum verkalýðshreyfingar, þeim Vilhjálmi Birgissyni, formanni Verkalýðsfélags Akraness, og Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR.

Í umsögn okkar gagnrýndum við áform stjórnvalda um að reka ríkissjóð með 41 ma. kr. halla á næsta ári, en það yrði sjöunda ár hallarekstrar í röð. Við lögðum því þar fram níu hagræðingartillögur sem bæta afkomu ríkissjóðs um 47 ma. kr. og loka fjárlagagatinu. Fyrrgreind gagnrýni beindist fyrst og fremst að fyrstu tillögu okkar um að falla frá viðbótarútgjöldum í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Sú tillaga myndi spara ríkissjóði um 14 ma. kr. á næsta ári.

Viðskiptaráð hefur frá upphafi verið mótfallið aðgerðum stjórnvalda í tengslum við kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði. Í umsögn ráðsins um fjárlagafrumvarpið hefur engin breyting orðið þar á. Þrjár ástæður eru fyrir þessari afstöðu.

Í fyrsta lagi þá eru ekki til fjármunir fyrir aðgerðunum. Ófjármögnuð viðbótarútgjöld sem auka bæði hallarekstur ríkissjóðs og verðbólguþrýsting eru ekki aðgerðir fyrir fólkið í landinu líkt og Ingibjörg heldur fram. Þvert á móti þarf sama fólk í sama landi að greiða fyrir aðgerðirnar í formi hærri skatta og verðbólgu. Umræddar aðgerðir vinna þannig gegn meginmarkmiði kjarasamninga um lækkun verðbólgu og vaxta.

Í öðru lagi fela útgjöldin í sér óeðlilega samþættingu stjórnvalda og hagsmunaaðila. Ágæt birtingarmynd þess er fullyrðing Ingibjargar um að tillögur Viðskiptaráðs gangi gegn meginreglu samningaréttar um að samninga skuli halda. Þar er einn hængur á: stjórnvöld eru ekki aðili að kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Aðilar vinnumarkaðar geta hvorki bundið hendur lýðræðislega kjörinna stjórnvalda né stofnað til framtíðarskuldbindinga fyrir skattgreiðendur. Alþingi hefur fullt sjálfdæmi um hvaða útgjalda það kýs að stofna til og í hve miklum mæli.

Í þriðja lagi stangast afskipti stjórnvalda af kjarasamningagerð á við sjónarmið um að aðgerðir stjórnvalda séu ígrundaðar og framkvæmdar með jafnræði að leiðarljósi. Eðli kjarasamninga er að þeir eiga sér stað undir tímapressu og aðgerðir þeim tengdar unnar í flýti. Eðlilegra er að aðgerðir stjórnvalda hverju sinni mótist af lýðræðislegu umboði þeirra og að hagsmunaaðilar sitji allir við sama borð, t.d. með opnu umsagnarferli, í stað þess að stjórnvöld ráðist í lagabreytingar út frá þrýstingi tiltekinna aðila.

Í stað innstæðulausra inngripa í kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði ættu stjórnvöld að einbeita sér að því að bæta efnahagslega umgjörð bæði launþega og fyrirtækja. Ein árangursríkasta aðgerðin á því sviði væru hallalaus fjárlög. Þau myndu leggja grunn að lækkun verðbólgu og vaxta, meiri stöðugleika og hagvexti. Þannig tryggja stjórnvöld að meira sé til skiptanna í kjaraviðræðum hverju sinni.

Höfundur er hagfræðingur Viðskiptaráðs

Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. október 2024

Tengt efni

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024

Eftirlitsmisskilningur Þórunnar

Viðskiptaráð leggur fram tíu tillögur sem lækka kostnað vegna eftirlits án þess …
31. ágúst 2024