Viðskiptaráð Íslands

Skiptir samkeppnishæfni máli?

Á undanförnum árum hefur töluvert verið fjallað um samkeppnishæfni þjóða, sem má skilgreina sem getu hagkerfa til að skapa verðmæti. Þannig ræður samkeppnishæfni því hvers konar lífskjör bjóðast í viðkomandi landi, en þar er m.a. horft til gengis gjaldmiðils og kaupmáttar og þeirrar þjónustu sem landsmenn geta leyft sér, t.d. á sviði menntunar og heilbrigðisþjónustu. Almennt má segja að eftir því sem samkeppnishæfni er meiri, þeim mun eftirsóknarverðara er að búa og starfa í viðkomandi landi.

Ísland í 26. sæti
Samkvæmt úttekt IMD viðskiptaháskólans í Sviss er Ísland í 26. sæti á lista yfir 59 samkeppnishæfustu þjóðlönd heims árið 2012. Efstu sætin í úttekt IMD skipa Hong Kong, Bandaríkin og Sviss en í neðstu sætunum sitja Venesúela, Grikkland og Króatía. Frændþjóðir okkar, Svíþjóð, Noregur, Danmörk og Finnland, skipa sér svo allar ofar okkur á lista.

Á milli áranna 2011 og 2012 batnaði staða Íslands um 5 sæti, sem er jákvæð þróun. Þegar aftur er horft til síðustu 15 ára hefur landið ekki áður verið neðar á lista yfir samkeppnishæfustu þjóðir, að undanskildum síðustu tveimur árum. Stuttu fyrir aldamót var Ísland í 15.-20. sæti en staða landsins batnaði þá hratt, að miklu leyti vegna endurbóta í opinberum rekstri, opnunar hagkerfisins og umbóta á skattkerfinu. Í framhaldinu batnaði efnahagsleg frammistaða landsins og var Ísland í fremstu röð ríkja fram til ársins 2008. Efnahagshrunið hafði svo talsverð áhrif, en milli áranna 2007 og 2011 féllum við úr 7. sæti í það 31.

Mikill munur á 10 og 30
Þeir eru til sem ekki finnst tiltökumál að stöðu Íslands hafi hrakað frá því að vera eitt af samkeppnishæfustu löndum heims í að vera nálægt því þrítugasta. Við erum þrátt fyrir allt enn framarlega meðal þjóða og lífskjör hér góð. En þegar horft er til þeirra landa sem skipa sér í kringum 10. sætið (t.d. Noregs, Þýskalands, Hollands eða Danmerkur) og þau borin saman við lönd sem skipa sér nálægt 30. sætinu (Síle, Tæland, Kasakstan eða Pólland) er ljóst að þar er verulegur munur á lífskjörum.

Íslendingar sem muna þróun lífskjara síðustu tvo áratugi, sérstaklega síðustu ára, finna á eigin skinni áhrif breyttrar samkeppnishæfni. Um þau þarf vart að fjölyrða, en laun og kaupmáttur hafa lækkað, skattar hækkað, atvinnuleysi hefur aukist og fáir hafa farið varhluta af umtalsverðum niðurskurði í þjónustu ríkis og sveitarfélaga.

Segja má að með efnahagshruninu hafi Íslendingar fengið smjörþefinn af því hver munurinn er á 10. og 30. sæti í samkeppnishæfni. Hann er raunar svo mikill að ólíklegt er að við munum almennt sætta okkur við lífskjör á borð við það sem tíðkast í löndum sem nú eru nágrannar okkar á lista IMD. Sú framtíðarsýn er óásættanleg.

IMD sem leiðarvísir
Þó að úttektir á borð við þá sem IMD gerir séu hvorki óumdeildar né óskeikular þá gefa þær vísbendingu um að hverju þarf að huga til að bæta samkeppnishæfni og lífskjör. IMD horfir þar til fjögurra meginþátta, sem eru skilvirkni hins opinbera, skilvirkni atvinnulífs, efnahagsleg frammistaða og samfélagslegir innviðir.

Samanburður á stöðu Íslands og Norðurlandanna, eða annarra landa þar sem lífskjör teljast góð, sýnir í hnotskurn veikleika Íslands. Þeir liggja fyrst og fremst í óskilvirkni opinberrar þjónustu og brotalömum í gangverki atvinnulífs sem leiða til slakrar efnahagslegrar frammistöðu. Það sem heldur Íslandi þó á meðal 30 efstu þjóðanna eru samfélagslegir innviðir, sem enn eru með því besta sem gerist.

Góður árangur Norðurlandanna sýnir hinsvegar hvernig agaður markaðsbúskapur er nýttur til að knýja áfram velferðarkerfi og sterka samfélagslega innviði. Þar er efnahagsleg frammistaða góð, vegna skilvirkni atvinnulífs og opinbers reksturs, og þess vegna geta Norðurlandaþjóðirnar leyft sér það öfluga velferðakerfi sem þær eru kunnar af.

Sagan hefur kennt okkur að Ísland hefur alla burði til að teljast meðal samkeppnishæfustu þjóða. Þá stöðu er hins vegar ekki hægt að byggja á góðum samfélagslegum innviðum einum saman. Frekar má segja að þeir séu afleiðing góðrar efnahagslegrar frammistöðu sem nýtt er til að standa undir öflugu velferðarkerfi og öðrum innviðum. Leiðarlýsingin sem draga má af niðurstöðum IMD er því skýr. Til að lífskjör verði áfram eftirsóknarverð á Íslandi þarf að koma aflvélinni sem þau knýr í gang, með skilvirkari nýtingu opinberra fjármuna og úrbótum á rekstrarumhverfi fyrirtækja, sem skapa verðmæti, störf og bætt lífskjör. Sú vinna gengur nú of hægt og mikið verk eftir óunnið.

Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands
Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 31. maí 2012

Tengt efni

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024

Eftirlitsmisskilningur Þórunnar

Viðskiptaráð leggur fram tíu tillögur sem lækka kostnað vegna eftirlits án þess …
31. ágúst 2024

Ólympíuleikar í loftslagmálum

"Ísland er ekki lítið land. Ísland er stórasta land í heimi," sagði Dorrit …
21. ágúst 2024