21. maí 2013
Uppá síðkastið hefur Seðlabankinn verið virkur í útgáfumálum. Fyrst má nefna fyrra hefti Fjármálastöðugleika, því næst annað hefti af Peningamálum og svo stýrivaxtaákvörðun bankans. Eins og þekkt er orðið var stýrivöxtum haldið óbreyttum í 6%, í takt við spár.
Þó deila megi um réttmæti stýrivaxtaákvörðunar peningastefnunefndar er vert að staldra við fjölmörg varnarorð Seðlabankans síðustu daga og vikur, en meðal þeirra má nefna að:
- Hægt hefur á efnahagsbatanum, einkum vegna lakari horfa í atvinnuvegafjárfestingu sem er vel undir langtíma meðaltali.
- Áhætta tengd fjármálastöðugleika hefur dregist saman á marga mælikvarða.
- Þó verður að huga að hugsanlega neikvæðu samspili uppgjöra búa gömlu bankanna, þungrar greiðslubyrði af erlendum skuldum á næstu árum og losun fjármagnshafta.
- Sé horft til stærðar gjaldeyrisforðans, undirliggjandi viðskiptajöfnuð og afborgunarferils erlendra lána blasir við óskemmtileg mynd 2016 þegar forðinn er uppurinn.
- Það er því ljóst að lengja þarf í lánum eða endurfjármagna.
- Til að mæta þungu afborgunarferli þarf töluvert meiri afgang af viðskiptajöfnuði en nú er, ásamt auknu innflæði erlends fjármagns til fjárfestingar innanlands.
- Ekki þarf að hafa áhyggjur af bólum á hlutabréfamarkaði að því marki að það ógni fjármálastöðugleika, en huga þarf að verklagi á markaði.
- Nú er tækifæri til að ná verðbólgumarkmiði Seðlabankans og ætlar bankinn að hefja á ný kaup á gjaldeyri til að flýta þar fyrir.
- Hins vegar losnar mikill fjöldi kjarasamninga á næstu misserum og að jafnaði geta laun ekki hækkað meira en sem nemur verðbólgumarkmiði annars vegar og framleiðniaukningu hins vegar, eða um 4,5%.
Af þessu má ráða skýr skilaboð um að efnahagsástandið sé enn á viðkvæmu stigi. Því væri heppilegt ef komandi kjörtímabil myndi hefjast á víðtækri samvinnu nýrra stjórnvalda, hagsmunasamtaka atvinnulífs og launafólks, Seðlabankans sjálfs auk fleiri um markvissar úrbætur.
Haraldur I. Birgisson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands