Eins og fáum dylst er frekari hagræðingu í rekstri hins opinbera að vænta. Menntakerfið er meðal stærstu kostnaðarliða hins opinbera, en árið 2012 var um 17% af heildarútgjöldum varið í málaflokkinn (sjá hér). Það væri því óraunhæft að ætla að framlag hins opinbera til menntunar geti staðið óhaggað.
Með hliðsjón af því hversu þungt stefna í menntamálum vegur í vegferð þjóða að bættum lífskjörum er þó mikilvægt að vanda til verka. Áframhaldandi breitt aðgengi að menntun eflir samkeppnishæfni og verðmætasköpun auk þess að stuðla að fjölþættum samfélagslegum framförum. Um þessi sjónarmið ríkir almenn sátt á Íslandi og því mikilvægt að standa vörð um gæði menntunar og tækifæri almennings til að njóta hennar. 1
Útlagar í háskólamálum
Framlag til menntamála á Íslandi er nokkuð hátt í alþjóðlegum samanburði ef miðað er við heildarútgjöld sem hlutfall af landsframleiðslu ( sjá hér).
Í ljósi þeirrar staðreyndar kemur því ýmsum á óvart að hlutfallslegt framlag á hvern íslenskan háskólanema er það lægsta innan OECD landanna, eða um 40% undir meðalframlagi ( sjá hér). Ísland er ennfremur eina landið sem ver minni fjármunum á hvern háskólanema en grunnskólanema. Að meðaltali verja OECD ríki 70% meira fjármagni í hvern háskólanema en grunnskólanema, en á Íslandi snýst taflið við og hver grunnskólanemi kostar 8% meira en hver háskólanemi.
Afar ólík þróun eftir skólastigum
Á föstu verðlagi hafa útgjöld til menntamála, mæld sem fjárframlög á hvern nemanda, aukist um 6% á síðustu 15 árum. Heildartalan segir þó lítið um þá þróun sem hefur átt sér stað innan skólakerfisins.
Þannig hefur fjárframlag til hvers grunnskólanema aukist verulega yfir tímabilið, eða um 29%. Á sama tíma hefur framlag til til hvers framhaldsskólanema lækkað um 16% og háskólum er nú úthlutað um 31% minni fjármunum á hvern nemenda en fyrir 15 árum ( sjá hér). Þannig hafa fjármunir beinlínis færst frá háskóla- og framhaldsskólastigi yfir á grunnskólastig.
Mælikvarðar á námsárangur hafa haldist nokkuð stöðugir innan grunnskólakerfisins og kjör helstu starfsstétta eru áframhaldandi bitbein í kjaraviðræðum. Það bendir því flest til að kerfislægir þættir valdi þessu mikla kostnaðarauka fremur en uppbygging kerfisins.
Hvað er til ráða?
Þegar horft er á leiðir til hagræðingar í menntamálum eru tvær meginleiðir færar. Annars vegar er hægt að draga úr þeim fjölda nemenda sem kerfið sinnir og hins vegar minnka kostnað við hvern nemenda sem fer í gegnum kerfið. Í því samhengi verður illa komist hjá því að taka fyrir ýmsar heilagar kýr og gera kerfislægar breytingar í menntamálum ( sjá hér).
Hækkun innritunargjalda í háskólum myndi gera þeim betur kleift að mæta lækkun ríkisframlaga án þess að skaða gæði háskólamenntunar. Mögulega má ná fram hagræðingu með fækkun háskóla niður í tvo til þrjá. Þar má þó ekki líta framhjá þeim ábata sem hlotist hefur af aukinni samkeppni á háskólastigi og hugmyndir um einn háskóla eru vægast sagt skammsýnar.
Á framhaldsskólastigi felst stærsti mögulegi ávinningurinn í fækkun námsára úr fjórum árum í þrjú. Til lengri tíma myndi slíkt ekki einungis draga úr kostnaði kerfisins heldur einnig skila ungu fólki fyrr á vinnumarkað með tilheyrandi ábata fyrir hagkerfið. Fyrstu skref í þessa átt hafa þegar verið tekin innan ákveðinna skóla og er það fagnaðarefni.
Að lokum er óumflýjanlegt að horfast í augu við þær staðreyndir sem blasa við í grunnskólakerfinu. Það má vel færa fyrir því rök að íslenskt grunnskólakerfi nái ekki sömu hagkvæmni og þéttbyggðari ríki með hærri meðalaldur. Engu að síður blasa við ýmsir möguleikar til hagræðingar innan grunnskólakerfisins. Þar eru einkum fjórir þættir sem standa uppúr:
Samstöðu þarf um heildstæða endurskoðun
Menntun er hornsteinn samkeppnishæfni þjóða og stefna í málaflokknum hefur áhrif á flesta þætti samfélagsins. Við núverandi kringumstæður, þar sem áframhaldandi hagræðingaraðgerðir eru fyrirsjáanlegar í rekstri hins opinbera, er því afar brýnt að horfa á menntastefnuna í heildstæðu samhengi. Fjármuni þarf að nýta með sem bestum hætti á öllum stigum skólakerfisins til að hægt sé að tryggja gæði náms og hvetjandi starfsskilyrði kennara.
Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands
Greinin birtist í Kjarnanum þann 19. september 2013