Í dag fer árlegt Viðskiptaþing Viðskiptaráðs fram á Hilton Reykjavík Nordica. Umfjöllunarefni þingsins er alþjóðageirinn en undir hann fellur öll sú starfsemi sem ekki er háð aðgengi að náttúruauðlindum með beinum hætti, nýtur ekki samkeppnisverndar og keppir á alþjóðlegum mörkuðum.
Alþjóðageirinn býr ekki við vaxtarskorður
En til hvers að velta alþjóðageiranum fyrir sér þegar við Íslendingar búum við gjöfular náttúruauðlindir? Sterkar auðlindagreinar hafa jú myndað hryggjarstykkið í verðmætasköpun og útflutningi landsins í langan tíma, enda hefur okkur borið gæfa til að nýta auðlindirnar á sjálfbæran hátt. Það er hins vegar vel þekkt að vöxtur innan þessara greina er takmörkunum háður. Frekari verðmætasköpun og þar með lífskjaraumbætur verða því að koma í ríkari mæli úr öðrum áttum. Þar kemur til kasta alþjóðageirans.
Góðu fréttirnar eru þær að við búum enn að ágætum grunni á þessu sviði. Síðastliðin 20 ár hefur sífellt stærri hluti íslensks atvinnulífs keppt með beinum og óbeinum hætti á alþjóðlegum mörkuðum. Fyrirtæki innan alþjóðageirans eiga sér rætur í mörgum greinum og eru jafnframt af ýmsum stærðum og gerðum. Vonandi munu sem flest þeirra eiga eftir að vaxa og dafna hérlendis með því að skapa alþjóðlega samkeppnishæfar vörur og þjónustu.
Öflugur mannauður er grunnhráefnið
En til þess að fyrirtæki hérlendis geti keppt á erlendum mörkuðum þarf umgjörð atvinnulífsins að vera samkeppnishæf í alþjóðlegum samanburði. Stöðugleiki í efnahagsmálum og rekstrarumhverfi fyrirtækja, ábyrg stjórn peningamála, aðgengi að fjármagni, öflugt nýsköpunarstarf, hagkvæmt skattaumhverfi, skilvirkt regluverk og aðgengi að mörkuðum ráða þar einna mestu. Auðnist okkur að færa þessa þætti til betri vegar er ekki aðeins traustari stoðum skotið undir alþjóðageirann heldur munu allir aðrir hlutar hagkerfisins samhliða njóta umbótanna.
Stærsta tækifæri okkar Íslendinga hvað varðar eflingu alþjóðageirans felst þó í uppbyggingu framúrskarandi mannauðs. Til að ná sem bitastæðustum sneiðum á alþjóðlegum mörkuðum þarf að leggja aukinn kraft í eflingu menntunar, rannsókna og nýsköpunar. Án öflugs mannauðs og nýrrar þekkingar nýtist ábati hagfellds fjárfestingar- og rekstrarumhverfis aðeins að hluta. Stefna stjórnvalda í menntamálum kemur þannig til með að ráða úrslitum um langtímasamkeppnishæfni þjóðarinnar og þar með lífskjör í landinu.
Sagan sýnir ábata alþjóðavæðingar
Frelsi til viðskipta, sér í lagi utanríkisviðskipta, hefur ráðið miklu um efnahagslega framvindu þjóðarinnar. Alþjóðavæðing og aukin utanríkisviðskipti hafa gert okkur kleift að skapa sérhæfingu á ýmsum sviðum og auka verðmæti innlendrar framleiðslu svo um munar. Þetta hefur gjörbreytt öllum sviðum samfélagsins og verið undirstaða þeirra lífskjarabóta sem Íslendingar hafa orðið vitni að á undanfarinni öld.
Leiðir til að viðhalda þessari vegferð næstu áratugina fela í sér eflingu alþjóðageirans – þetta er umfjöllunarefni Viðskiptaþingsins í ár.
Hreggviður Jónsson, formaður stjórnar Viðskiptaráðs Íslands.
Greinin birtist í Fréttablaðinu 12. febrúar 2014