Um áramótin losnuðu 82 kjarasamningar og 152 til viðbótar losna í mars. Ein af þeim kröfum sem sett er fram í kjaraviðræðum, ásamt tugprósenta launahækkunum, er að lægstu laun verði skattfrjáls. Sú tillaga hljómar ágætlega í sjálfu sér enda eru langflestir sammála um að skattbyrði fylgi tekjum einstaklinga upp að einhverju marki. Við nánari athugun er tillagan þó langt í frá ágæt.
Lægstu laun eru í dag 300.000 krónur á mánuði og skv. greiningu fjármálaráðuneytisins myndu tekjur ríkissjóðs minnka um 149 milljarða ef skattleysismörk færu upp í 300.000 krónur með hækkun persónuafsláttar. Í ljósi krafna um aukin útgjöld til m.a. velferðar- og samgöngumála má fastlega gera ráð fyrir að aðrir skattar þurfi að hækka á móti til að tekjur hins opinbera haldist þær sömu að öðru óbreyttu. En hversu mikið?
Í nýrri skoðun Viðskiptaráðs, Vinnumarkaðslegur ómöguleiki, kemur fram að ein sviðsmyndin til að mæta þessari kröfu sé að hækka neðra skattþrepið úr 36,94% í 60,54% og það efra úr 46,24% í 67,25%. Þannig myndi hið opinbera taka drjúgan meirihluta af öllum launatekjum landsmanna umfram lágmarkslaun. Hægt væri að breyta útfærslunni að einhverju leyti t.d. með sérstöku hátekjuþrepi. Ef slíkt væri gert t.d. með 75% skatti á tekjur umfram 1,67 milljónir króna myndi það einungis skila 5 milljörðum að óbreyttu. Meginniðurstöðuna bæri ávallt að sama brunni; skattar á millitekjuhópa myndu hækka verulega, enda er meginþorri launafólks með meðaltekjur.
Yrði slíkt fyrirkomulag raunin minnka um leið hvatar til vinnu og menntunar. Það skiptir máli, þó að annað en laun ráði líka framantöldum þáttum. Það myndi aftur leiða til þess að lífsgæði rýrnuðu og skatttekjur ríkisins sömuleiðis. Það má líka spyrja sig hvort 60% skattur sé raunverulega það sem meginþorri almennings er að kalla eftir. Ég efast um það.
Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands
Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 4. janúar 2019