Samkvæmt nýjum stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar mun hún vinna að því markmiði að byggja upp opið og skapandi umhverfi sem stenst samanburð við það sem best gerist í nágrannalöndum okkar í Evrópu, bæði að því er varðar efnahag og lífsgæði. Í þeim efnum er sérstaklega horft til frændþjóða okkar á Norðurlöndum og kveðið á um að endanlegt markmið sé að skapa norrænt velferðarsamfélag á Íslandi. Markmið sem þetta þarf ekki að undrast enda eru lífskjör og mannréttindi á Norðurlöndunum með því besta sem gerist í heiminum. Að sama skapi er frekari opnun hagkerfisins þjóðinni til mikilla hagsbóta þar sem mikil verðmæti eru fólgin í þeirri þekkingu sem slík stefna dregur inn í hið íslenska hagkerfi. Ólík sýn á hlutina eykur líkur á framþróun og bættum lífskjörum enda geta þjóðir heims miðlað kunnáttu sín á milli og nýtt það besta úr mörgum heimum.
Líkt og flestum er ljóst lentu Íslendingar í miklum hremmingum á nýliðnum vetri og glímir þjóðin nú við áskoranir af áður óþekktri stærð. Vandræðin má rekja til fjölmargra þátta, t.a.m. alþjóðlegs fjármálaumhverfis, ofvaxins bankakerfis, viðkvæmrar örmyntar, útgjaldastefnu hins opinbera, áhættusækni í fyrirtækjarekstri og neyslugleði landsmanna. Við úrlausn vandans er mikilvægt að leita í smiðju annarra þjóða (líkt og ný ríkisstjórn stefnir að) og nýta sér þekkingu og reynslu þeirra til góðra verka. Ef vel tekst til geta Íslendingar skapað jákvætt fordæmi sem aðrir geta dregið lærdóm af, enda ljóst að umfangsmikil efnahagsvandamál hrjá fleiri þjóðir um þessar mundir.
Nú þegar á móti blæs er engu að síður mikilvægt fyrir Íslendinga að hafa hugfast að lífskjör hérlendis hafa verið með því besta sem gerist í heiminum í seinni tíð. Þannig hefur góður árangur náðst á fjölda sviða sem mikilvægt er að standa vörð um. Íslendingar hafa búið við sterkt velferðarkerfi þar sem framlög til mennta- og heilbrigðismála hafa verið með þeim hæstu í heimi, lífslíkur eru hér hæstar, barnadauði í lágmarki, atvinnuþátttaka kvenna mikil, samgöngur til fyrirmyndar, lífeyrissjóðakerfið er sterkt, hér er stunduð sjálfbær nýting á verðmætum náttúruauðlindum, skattkerfið er einfalt, skilvirkt og hvetjandi. Þannig mætti lengi telja. Það eru því margir styrkleikar sem byggja má á til framtíðar og því ber að fagna. Af þessari upptalningu má sjá að erlendar þjóðir geta lært ýmislegt af Íslendingum rétt eins og Íslendingar geta fært sér reynslu og þekkingu annarra þjóða í nyt.
Íslendingar eru vinnusöm þjóð. Atvinnuþátttaka hefur í gegnum tíðina verið með því hæsta sem gerist í heiminum, sveigjanleiki vinnumarkaðar mikill og atvinnuleysi í lágmarki. Þetta er mikill styrkleiki og því afar brýnt að ráða sem fyrst bug á vaxandi atvinnuleysi með ríflegri lækkun vaxta og sveigjanleika gagnvart atvinnulífinu. Ein af meginástæðum þess að Íslendingar hafa verið viljugir til að leggja hart að sér og vinna umfram lágmarkstímafjölda er fyrirkomulag skattkerfisins hérlendis. Einfalt, réttlátt skattkerfi með lágum jaðarsköttum á launatekjur og miklum hvata til fjárfestinga og atvinnustarfsemi er mun líklegra til að draga þjóðina útúr vandanum en flókið, þrepaskipt skattkerfi með háum jaðarsköttum á launatekjur og meiri hvata til neyslu en fjárfestinga.
Viðskiptaráð Íslands hefur legið undir ámæli fyrir setningu sem birtist í skýrslu til Viðskiptaþings 2006 sem bar yfirskriftina Ísland 2015. Þar segir orðrétt að ráðið leggi til að „Ísland hætti að bera sig saman við Norðurlöndin enda stöndum við þeim framar á öllum sviðum“. Við nánari skoðun kemur í ljós að með setningunni er vísað til skattkerfa landanna sem hafa verið mótuð með ólíkum áherslum. Engu að síður er um óheppilegt orðalag að ræða og er það miður. Inntakið byggir á þeirri staðreynd að Norðurlöndin hafa grundvallað skattkerfi sín á stigvaxandi sköttum, miklum tekjutengingum og tiltölulega flóknu bótakerfi. Þetta leiddi til þess að jaðarskattar voru komnir langt umfram það sem eðlilegt gat talist, en þegar verst lét fengu Svíar innan við tíu krónur í eigin vasa af síðustu hundrað krónunum sem þeir þénuðu. Til að bregðast við þessum vanda hafa frændur okkar reynt að einfalda skattkerfi sín á undanförnum árum, lækka jaðarskatta og draga úr heildarskattheimtu, einkum í Svíþjóð og Danmörku. Einföld skattkerfi með lágum jaðarsköttum hafa reynst ríkjum heims vel í gegnum tíðina og því ættu Íslendingar ekki að gleyma nú þegar sverfur að í ríkisfjármálum.
Íslendingar geta margt lært af nágrannaríkjum sínum, ekki síst Norðurlöndunum. Hófsemi, áhættufælni, langtímaáætlanagerð, góðir stjórnarhættir fyrirtækja, samkvæmni í ákvarðanatöku hins opinbera, gagnsæi og heiðarleiki í stjórnsýslu, stöðugleiki í peningamálum og öflug eftirfylgni regluverks eru allt þættir sem ber að horfa til. Íslendingar ættu þó að gæta þess að glata ekki verðmætum þjóðareinkunnum þrátt fyrir tímabundinn mótbyr. Hér ríkir frumkvöðlaandi, dugnaður, kraftur og almennur metnaður til að gera vel. Virðing er borin fyrir einstaklingsframtaki og Íslendingar trúa því flestir að ávinningur eigi að vera í samræmi við framlag. Á sama tíma ríkir mikill vilji til að standa vörð um þá sem minna mega sín og þurfa á aðstoð að halda. Þessir þættir fara vel saman enda er verðmætasköpun einstaklinga grundvöllur þess að hægt sé að bjóða upp á sterka velferðarþjónustu.
Íslendingar ættu alltaf að setja markið hátt. Þrátt fyrir að margir vilji rekja núverandi vanda til einhverskonar mikilmennskuæðis er þetta þjóðareinkenni mikilvægur drifkraftur okkar fámenna samfélags. Það er því fagnaðarefni að ríkisstjórnin stefni á að koma Íslandi á lista meðal tíu samkeppnishæfustu ríkja heims árið 2020 líkt og tilkynnt var nýverið. Til að svo megi vera ættu stjórnvöld að horfa til þeirra ríkja sem standa fremst á hverju sviði , en ekki einskorða sig við eina fyrirmynd. Margt má læra af Norðurlöndunum, en ekki síður af öðrum löndum sem státa af stöðugum og afar góðum lífskjörum, t.a.m. Sviss, Ástralíu, Kanada, ýmis ríki Evrópusambandsins og iðnríki Asíu. Með þeim hætti hámarka stjórnvöld líkur þess að þjóðin nái sér fljótt úr núverandi öldudal og Íslendingar búi áfram við lífskjör eins og þau gerast best í heiminum.
Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. Grein birtist í Morgunblaðinu 23. maí sl.