Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem felur í sér fyrstu aðgerðir til að brúa fjárlagahalla ríkissjóðs á komandi misserum. Mörgum orðum væri hægt að fara um frumvarpið og þær breytingar sem það felur í sér á sviði skatt- og gjaldheimtu og ljóst er að skiptar skoðanir eru um ágæti þeirra. Efni þessarar skoðunar er aftur á móti einskorðað við þann hluta frumvarpsins sem lýtur að skattlagningu vaxtagreiðslna til erlendra aðila. Sambærilegar tillögur voru kynntar til sögunnar af hálfu fjármálaráðuneytisins á síðastliðnu vorþingi en vegna rökstuddrar andstöðu fjölda aðila taldi efnahags- og skattanefnd tilefni til að skoða betur áhrif slíkrar skattlagningar og ákvað að fella ákvæðið úr frumvarpinu.
Markmið frumvarpsins þá voru af hinu góða, þ.e. að skerpa á framkvæmd og skilvirkni skattheimtu og draga úr skattaundanskotum. Ástæða andstöðu umsagnaraðila var hinsvegar að skattlagning í samræmi við frumvarpið hefði verulega skaðleg áhrif á samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja, sem þegar er afar slök vegna núverandi efnahagsaðstæðna. Löggjöfin myndi takmarka frekar aðgengi þeirra að erlendu lánsfjármagni og gera það litla fjármagn sem í boði er mun dýrara. Því miður virðist ráðuneytið ekki hafa tekið athugsemdir og gögn umsagnaraðila í þessa veru til nánari athugunar líkt og efnahags- og skattanefnd lagði til í nefndaráliti sínu, en ákvæðið og athugasemdir frumvarpsins eru nær óbreyttar.
Mikilvægt er að stjórnvöld taki tillit til þessara athugasemda og vinni að því að ná ásættanlegri niðurstöðu í þessu máli í góðri samvinnu við íslensk fyrirtæki. Neikvæðar afleiðingar þess að lögfesta skattlagningu vaxtagreiðsla eru margvíslegar og hafa lítið með vafasama viðskiptahætti að gera. Í fyrsta lagi má gera ráð fyrir að íslensk fyrirtæki muni í reynd bera þann skatt sem frumvarpið hyggst leggja á móttakanda vaxtagreiðslunnar; Í öðru lagi mun skattlagningin leggja Þránd í götu erlendrar fjárfestingar hérlendis og var þó staðan verulega slæm fyrir; Í þriðja lagi þá verður hér við lýði skattlagning sem þekkist ekki innan innri markaðar Evrópu og í fjórða lagi verður vegið að grundvelli afnáms gjaldeyrishafta hvað nýjar fjárfestingar varðar. Fjárhagslegir hagsmunir ríkissjóðs af skattlagningunni eru afar takmarkaðir en eins og greint hefur verið frá geta neikvæðar afleiðingar þess orðið verulegar. Viðskiptaráð hvetur því stjórnvöld til að fella út ákvæði frumvarpsins sem tekur til skattlagningar vaxtagreiðslna til erlendra aðila og endurmóta hana í samvinnu við atvinnulíf og aðra hagsmunaaðila.
Skoðunina í heild má lesa hér