Viðskiptaráð Íslands

Skyldur atvinnulífsins

Erlendur Hjaltason, formaður Viðskiptaráðs, ritaði eftirfarandi grein í Viðskiptablaðið í vikunni:

Á undanförnum mánuðum og misserum hefur íslenskt atvinnulíf legið undir gagnrýni og ljóst má vera að í of mörgum tilvikum er hún verðskulduð. Fjölmörg mistök hafa verið gerð. Þau þarf að viðurkenna og af þeim þarf að læra. Tryggja þarf að viðhorf um mikilvægi góðra stjórnarhátta og viðskiptasiðferðis verði ríkjandi til framtíðar í íslensku atvinnulífi. Í því felst að eigendur og stjórnendur fyrirtækja uppfylli undantekningarlaust lagalegar skyldur, hafi heilbrigt siðferði ávallt að leiðarljósi og beri hag hluthafa, starfsfólks og samfélags fyrir brjósti. Fagleg vinnubrögð og gegnsætt eignarhald eru lykilatriði.

Í kjölfar þess að íslenska bankakerfið hrundi hefur almennt traust fólks á viðskiptalífi landsmanna beðið mikinn hnekki. Skortur á trausti og trúverðugleika hefur staðið uppbyggingarstarfi fyrir þrifum og því er forgangsmál að ráða þar bót á. Vantraust sem þetta kemur í veg fyrir skjóta og skilvirka úrvinnslu á veigamiklum málum og getur því tafið efnahagslegan bata. Til þess að ráða bót á þessum vanda þarf samhent átak stjórnvalda, atvinnulífs, fjölmiðla og fólksins í landinu. Í þeirri vinnu ættu heiðarleiki, gegnsæi, upplýsingagjöf og samvinna að vera í öndvegi.

Innan skamms mun rannsóknarnefnd Alþingis birta niðurstöður sínar um aðdraganda, orsakir og ábyrgð á bankahruninu. Að því gefnu að fyllsta hlutleysis hafi verið gætt við vinnu nefndarinnar getur umrædd skýrsla markað kaflaskil í enduruppbyggingu trausts og samstöðu innan samfélagsins. Það er mikilvægt að þeir aðilar sem gagnrýni hljóta taki hana til sín og nýti til uppbyggilegra umbóta. Þar gildir einu hvort gagnrýnin snúi að stjórnmálamönnum, embættismönnum, fjölmiðlum, hagsmunasamtökum atvinnulífs eða forystumönnum í viðskiptalífinu. Þegar allt kemur til alls hljóta mestu verðmæti naflaskoðunar sem þessarar að felast í þeim lærdómi sem dreginn verður af reynslunni.

Það er ljóst að áherslur í íslensku viðskiptalífi munu sjálfkrafa breytast næstu árin og færast í auknum mæli yfir í það smáa, nýja og fjölbreytta. Stöðug og sjálfbær þróun mun í auknum mæli taka við af sveiflukenndum og áhættusæknum rekstri. Afar mikilvægt er að ekki dragi úr metnaði til að gera vel og ná árangri, en tryggja verður að ávinningur eins verði ekki til skaða fyrir annan. Í því felst heilbrigt siðferði í viðskiptum.

Um leið og forsvarsmenn fyrirtækja hafa í heiðri skuldbindingar gagnvart eigendum og hluthöfum hafa þeir jafnframt ríkar skyldur við núverandi aðstæður til þess að standa vörð um störf og halda upp atvinnustigi. Uppbygging samkeppnishæfra fyrirtækja með áherslu á traustan vöxt, fjölgun starfa, ráðdeild og árangur í rekstri er vísasta leiðin til að ná þessu markmiði. Með blómlegum atvinnurekstri er staðinn vörður um íslenskt velferðarkerfi og góð lífskjör til framtíðar. Þess vegna þarf atvinnulífið að safna kröftum á nýjan leik og það er samstarfsverkefni þjóðarinnar allrar.

Tengt efni

Innstæðulaus inngrip í kjarasamninga

„Í stað innstæðulausra inngripa í kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði ættu …
17. október 2024

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024