Í mörgum hrollvekjum eru fyrirbæri sem nefnast uppvakningar í aðalhlutverki. Uppvakningar eru, samkvæmt íslenskri þjóðtrú, verur sem vaknað hafa upp eftir dauðann og ganga meðal lifenda. Yfirleitt gera þessar verur ekki annað en ógagn, stundum óskunda.
Uppvakningum fjölgar
Þegar gengi krónunnar féll um páska 2008 og svo aftur við hrun fjármálakerfisins varð fjöldi fyrirtækja á Íslandi gjaldþrota. Fyrst og fremst gerðist það vegna þess hve skuldir jukust (gengis- eða verðtryggðar) og eignir rýrnuðu samhliða. Í framhaldinu gerðu háir vextir og óstarfhæfur fjármagnsmarkaður, samdráttur eftirspurnar og almennt minnkandi umsvif í hagkerfinu fyrirtækjum enn erfiðara fyrir og hefur því bæst í hóp gjaldþrota fyrirtækja.
Ójöfnuður uppvakninga
Einhver hluti þessara fyrirtækja er þó enn starfandi, sum hver við aðstæður sem stuðla síður en svo að heilbrigðu viðskiptaumhverfi. Fjöldi fyrirtækja hefur færst undir forsjá ríkisins, með óbeinum hætti, í gegnum yfirtöku ríkisbankanna á þeim. Önnur búa við það óvissuástand að ekki hefur verið tekið á þeirra málum í bankakerfinu og því óljóst um framtíð reksturs og eignarhalds. Þetta ástand leiðir til vinnubragða sem skapa mikla röskun á almennu rekstrarumhverfi og getur hún verið af margvíslegum toga. Til að mynda getur betri fjárhagsstaða fyrirtækis í ríkiseigu, vegna eftirgjafar skulda eða sérstakrar fyrirgreiðslu sem samkeppnisaðilar njóta ekki, gert því kleift að keppa um hylli viðskiptavina af meiri hörku en annars. Vonlaus staða annars fyrirtækis, sem ekki hefur verið tekið á með greiðslustöðvun, gjaldþrotaskiptum eða afskrift skulda, svo félagið verði rekstrarhæft, getur einnig leitt til skaðlegra vinnubragða. Fyrirtækjum sem ekki hafa skýrar rekstrarforsendur og heilbrigðan efnahagsreikning verður ekki stýrt til lengdar á eins hagkvæman máta og unnt er. Segja má að fyrirtæki í þessari stöðu séu uppvakningar viðskiptalífsins.
Draugar kveðnir niður
Á undanförnum mánuðum hafa komið upp allt of mörg dæmi um óheppileg vinnubrögð af því tagi sem nefnd eru hér að ofan og þau finnast nánast öllum greinum atvinnulífsins. Því verður að linna. Nú er ár liðið frá falli íslenska fjármálakerfisins og mikilvægt er að gengið verði rösklega til verks við endurskipulagningu skulda fyrirtækja. Uppvakninga viðskiptalífsins verður að kveða niður, annaðhvort með hefðbundinni gjaldþrotameðferð eða meðhöndlun skulda sem gera viðkomandi fyrirtæki rekstrarhæft. Verði það ekki gert skemmist rekstrarumhverfi fyrirtækja enn frekar og heilbrigð fyrirtæki velta í kjölsogi þeirra sem haldið er gangandi á óeðlilegan hátt. Kostnaðurinn af löskuðu samkeppnisumhverfi fellur á heimili landsins og líklegra er að við horfum fram á mun lengra tímabil stöðnunar en ella þyrfti. Vítin eru til varnaðar og er japanska hagkerfið ágætt dæmi um langvarandi stöðnun sem varð vegna þess að ekki var tekið á vandamálum óstarfhæfra fyrirtækja.
Fórnarlömb aðstæðna
Rétt er að halda því til haga að mörg fyrirtæki sem nú starfa við óvenjulegar aðstæður, undir ríkisbanka, skilanefnd eða í annarri óvissu, eru rekin á eðlilegan og sanngjarnan hátt. Fyrir það eiga stjórnendur þeirra hrós skilið en um leið er ljóst að það er hagsmunamál þeirra, banka, skilanefnda, viðskiptavina, keppinauta og samfélagsins í heild að rekstur þessara fyrirtækja verði sem fyrst færður á eðlilegan grunn. Í þessu felst að tekið verði á skuldavanda fyrirtækja af samkvæmni, festu og heiðarleika. Mörg þeirra fyrirtækja sem nú standa illa eru mun frekar fórnarlömb ytri aðstæðna en óskynsemi í rekstri. Því ber að halda til haga og leita í þeim tilfellum leiða til að koma til móts við stjórnendur og eigendur þeirra við endurskipulagningu skulda.
Sumir eiga rétt á lífi
Að undanförnu hefur skortur á trúverðugleika og stefnufestu viðskiptalífs, fjármálageira, embættis- og stjórnmálakerfis staðið endurreisn fyrir þrifum. Skref í átt að meira trausti til allra viðkomandi er að úrvinnsla á vanda fyrirtækja fari fram fyrir opnum tjöldum eftir skilvirku og gagnsæu ferli. Eftir fremsta megni verður að koma í veg fyrir að illa löskuðum fyrirtækjum, uppvakningum, séu leyft að ráfa um meðal þeirra sem eiga góða lífsvon í eðlilegu rekstrarumhverfi. Þessi fyrirtæki þarf annað hvort að vekja aftur til lífsins með endurskipulagningu skulda og skýru eignarhaldi, eða fara með þau í þrot og selja eignir þeirra. Heppilegast leiðin að þessu marki er að eignum og fyrirtækjum verði sem fyrst komið úr höndum banka og ríkis þangað sem framtak og hagsmunir geta farið saman. Þetta á við jafnvel þó aðstæður til sölu eigna séu ekki sem bestar. Ávinningur af heilbrigðu rekstrarumhverfi sem getur af sér þróttmikið atvinnulíf verður í öllum tilvikum meiri en væntur ávinningur ríkis eða ríkisbanka af sölu fyrirtækja síðar meir.
Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands. Grein birtist í Markaðnum 7. október sl.