Viðskiptaráð Íslands

Styðjum velferð frekar en opinber útgjöld

Tómas Már Sigurðsson, formaður Viðskiptaráðs, ritaði eftirfarandi grein í Fréttablaðið í vikunni:

Þegar kakan minnkar harðnar baráttan um bitana. Þetta er lögmál sem hefur einkennt sögu mannkyns frá örófi alda. Lönd sem búa við hagsæld og batnandi lífskjör eru mun ólíklegri til að upplifa pólitískan óstöðugleika og samfélagslega sundrung heldur en þau sem búa við kröpp kjör og versnandi lífskjör. Ísland er lifandi sönnun þess.

Með hliðsjón af þessu er ljóst að verkefni stjórnvalda næstu misserin verður ekki auðvelt. Engum dylst að þörf er á verulegri hagræðingu í rekstri hins opinbera vegna stóraukinna skulda ríkissjóðs, óhóflegrar útþenslu í ríkisútgjöldum undanfarin ár og verulegs samdráttar í skatttekjum.

Varðstaða um heildarhagsmuni
Lausnir í stöðunni eru tvær, auknar skatttekjur eða niðurskurður útgjalda. Óraunhæft verður að teljast að hægt sé að notast eingöngu við aðra leiðina og því má nánast sjálfkrafa gera ráð fyrir einhvers konar blöndu beggja. Hvorug þessara aðgerða er vinsæl enda fela báðar í sér rýrnun lífsgæða fyrir einhverja. Nú þegar umræðan einkennist af sundrung og hnútukasti er því enn nauðsynlegra en ella fyrir stjórnvöld að velja leið sem byggir á hagsýni, raunsæi og varðstöðu um heildarhagsmuni.

Því miður endurspeglast þetta ekki í því frumvarpi sem fjármálaráðherra hefur lagt fram fyrir fjárlög ríkisins árið 2010. Skortur á hagsýni endurspeglast í þeim mikla þunga sem lagður er á aukna tekjuöflun í stað þess að skera þau fitulög sem safnast hafa í rekstri hins opinbera á undanförnum árum. Skortur á raunsæi felst í vanmati stjórnvalda á þeim áhrifum sem fyrirhugaðar skattahækkanir koma til með að hafa á umsvif í hagkerfinu og um leið þá tekjustofna sem stjórnvöld hyggjast skattleggja. Að lokum eru hagsmunir opinberra starfsmanna og afmarkaðra hópa sem ríkið hefur staðið vörð um í gegnum tíðina teknir fram yfir hagsmuni heildarinnar. Því er erfitt að sjá að frumvarpið verði til þess að skapa aukna sátt og samstöðu í samfélaginu.

Mikil aðlögun hjá fyrirtækjum og heimilum
Það má vera ljóst að skattahækkanir eru meðal þeirra aðgerða sem þörf er á til að jafnvægi náist í rekstri hins opinbera. Atvinnulífið hefur þar gengið fram með góðu fordæmi með því að taka sjálfviljugt á sig auknar byrðar í formi hærra tryggingagjalds. Að auki hefur átt sér stað mikil aðlögun hjá fyrirtækjum og heimilum sem sést best á verulegum samdrætti í einkaneyslu, hruni í fjárfestingu einkaaðila, auknum gjaldþrotum fyrirtækja, meira en 10 þúsund töpuðum störfum og lækkandi launum á almennum vinnumarkaði.

Á tímum sem þessum er nauðsynlegt að hagsýni og skynsemi sé látin ráða för. Slíkt var einmitt boðað í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarninar, sem lagði áherslu á að fyrirtækjum yrðu búin hagstæð rekstrarskilyrði, þannig að störf yrðu varin og aðstæður skapaðar fyrir fjölgun þeirra á ný. Ennfremur átti sérstaklega að stuðla að beinum erlendum fjárfestingum hérlendis. Boðaðar aðgerðir stjórnvalda vinna beinlínis gegn báðum þessum markmiðum.

Þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um leiðir til tekjuöflunar er nauðsynlegt að taka mið af líklegum hliðarverkunum og langtímaáhrifum. Það má vel hugsast að veruleg hækkun fjármagnstekjuskatts, auðlindaskattur á fyrirtæki og hátekjuskattur hljómi sem sanngjarnar leiðir til að auka tekjur hins opinbera. Raunveruleikinn er þó sá að væntar skatttekjur af þessum breytingum eru afar rýrar auk þess sem þær leiða til verri samkeppnisstöðu íslenskrar framleiðslu og versnandi umhverfis til erlendrar fjárfestingar hérlendis. Hvort tveggja kemur niður á lífskjörum þjóðarinnar og er ekki líklegt til að auka tekjur hins opinbera til lengri tíma. 

Hið opinbera taki virkari þátt
Í ljósi þess sem á undan er gengið er sýnt að hvorki heimili né fyrirtæki landsins standa undir þeim skattahækkunum sem nú hafa verið boðaðar. Það er því hvorki óeðlileg né ósanngjörn krafa að hið opinbera taki með virkari hætti þátt í þeirri nauðsynlegu aðlögun sem nú stendur fyrir dyrum, með svipuðum hætti og einkageirinn hefur nú þegar gert. Ríkisútgjöld hafa þanist út á undanförnum árum og því er ekki ásættanlegt að jafn máttlítil skref séu stigin í átt til hagræðingar og fjárlagafrumvarpið ber með sér. 

Fyrst má nefna að niðurskurður ríkisútgjalda gengur alltof skammt borið saman við skattahækkanir. Þannig er gert ráð fyrir að útgjöld dragist saman sem nemur framúrkeyrslu fjárlaga þessa árs að viðbættum verðlagsáhrifum. Heildarútgjöld samkvæmt fjárlögum 2010 eru því nánast þau sömu og árið 2009 í krónum talið. Samkvæmt stöðugleikasáttmála sem undirritaður var af ríkisstjórn og aðilum vinnumarkaðar í sumar var lögð áhersla á að hlutdeild tekjuöflunar í ríkisfjármálum yrði ekki of mikil. Miðað var við að skattar yrðu lækkandi hlutfall aðlögunaraðgerða og ekki samtals hærri en 45% þeirra fyrir árin 2009 – 2011. Það þarf mikinn vilja til að komast að þeirri niðurstöðu að fjárlagafrumvarp ársins 2010 liggi einhvers staðar nærri þessum hlutföllum.

Þessu til viðbótar orkar sú stefna tvímælis sem hagræðing útgjalda felur í sér. Rík áhersla virðist lögð á að niðurskurði sé fyrst og fremst beint að þeim verkefnum sem einkaaðilar koma að. Þannig hafa ríkisframkvæmdir sem boðnar eru út nánast verið stöðvaðar og í ákveðnum tilfellum er einkaaðilum sem sinna opinberri þjónustu gert að draga meira úr útgjöldum en sambærilegum ríkisstofnunum. Í sparnaðarátaki í ríkiskerfinu var sérstaklega tekið fram að skorður yrðu settar á aðkeypta ráðgjafaþjónustu án frekari skýringa. Þessi stefna felur það í sér að standa skuli vörð um opinber störf, á kostnað almenns vinnumarkaðar.

Þetta skýtur skökku við, því markmið stjórnvalda á ekki að vera verndun opinberra starfa, heldur verndum starfa yfir höfuð. Besta leiðin til að verja störf er að skapa fyrirtækjum hagkvæmt rekstrar- og skattaumhverfi. Ekki verður séð að nýtt fjárlagafrumvarp bæti þar úr, heldur þvert á móti. Besta leiðin til að verja velferðarkerfið er að efla tekjugrunn hins opinbera til lengri tíma. Það verður best gert með öflugum einkageira enda er það hann sem stendur undir útgjöldum hins opinbera. Að auka hlutfallsleg umsvif hins opinbera, líkt og gert er ráð fyrir á næsta ári, veikir því undirstöður velferðarkerfisins í stað þess að styrkja þær.

Að lokum er ljóst að hagkvæmustu leiðirnar til niðurskurðar felast ekki endilega í minni útgjöldum í grunnþjónustu. Áherslan ætti að vera á óskilvirkar millifærslur og þau miklu fitulög sem myndast hafa í opinberum rekstri á undanförnum árum. Þannig ættu stjórnvöld að standa vörð um menntun og heilbrigðisþjónustu á sama tíma og endurskoða mætti niðurgreiðslur til landbúnaðar, lífeyriskerfi opinberra starfsmanna, stofnanaumhverfi í stjórnsýslu hins opinbera, fyrirkomulag utanríkisþjónustunnar og margt annað. Áherslan á að vera á útgjöld sem auka eða viðhalda almennri velferð, ekki framlög sem þjóna sérhagsmunum þröngra hópa.

Öflugt atvinnulíf forsenda sterks velferðarkerfis
Fjárlagafrumvarp ársins 2010 vegur að jafnvægi milli almenns markaðar og opinberrar þjónustu. Flestir gera sér grein fyrir að ekki mun takast að brúa fjárlagahallann án aukinna tekna hins opinbera, en á sama tíma er borin von að brúa bilið nær eingöngu með skattahækkunum. Án verðmætasköpunar einkageirans verða ekki til tekjur sem standa undir opinberri þjónustu. Lífsviðurværi flestra heimila veltur fyrst og fremst á því að hér verði starfrækt öflugt atvinnulíf, ekki útþanið ríkisbákn. Því fleiri störfum sem tekst að bjarga á almennum vinnumarkaði, því öflugri forsendur eru fyrir sterku velferðarkerfi. Á sama tíma getur skattaok leitt til margvíslegra vandamála. Ber þar helst að nefna fjármagnsflótta, varanlegan fólksflótta og spekileka, vöxt svartrar atvinnustarfsemi og minnkandi hvata til frumkvæðis og nýsköpunar. Fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp verður því að taka gagngerum breytingum ætli stjórnvöld sér að byggja upp samkeppnishæft hagkerfi með eftirsóknarverðum horfum til framtíðar.

Tómas Már Sigurðsson
Formaður Viðskiptaráðs Íslands

Tengt efni

Innstæðulaus inngrip í kjarasamninga

„Í stað innstæðulausra inngripa í kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði ættu …
17. október 2024

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024