Viðskiptaráð Íslands

Að hvetja frekar en að refsa

Ísland komst í heimsfréttirnar á síðasta ári fyrir lögfestingu jafnlaunavottunar fyrst allra landa. Jöfn réttindi á vinnumarkaði sem og öðrum sviðum samfélagsins er klárlega markmið sem allir eiga að sammælast um. Launamunur kynjanna mælist mismikill eftir rannsóknum hvort sem hann er skýrður eða óskýrður en er þó ávallt konum í óhag. Því ber að fagna skrefum sem tekin eru í átt að auknu launajafnrétti.

Að því sögðu ber þó að hafa í huga að erfitt er að segja til fyrirfram um árangur þeirra umfangsmiklu og kostnaðarsömu aðgerða sem fylgja innleiðingu jafnlaunavottunar. Fram kom í fréttum vikunnar að einungis 11% fyrirtækja hafi hlotið vottun af þeim sem skyldug eru til að ná því markmiði fyrir lok árs. Takist það ekki getur Jafnréttisstofa skv. lögum beitt dagsektum allt að 50.000 kr. – sem renna beint til ríkissjóðs.

Hvernig stendur á því að í íslenskri löggjöf sé frekar leitast eftir því að íþyngja og refsa, en að auka skilvirkni og skapa hvata til framfara? Alþekkt er hvernig EES-reglur eru í þriðjungi tilfella innleiddar með meira íþyngjandi hætti en þörf er á og sektir oft hærri en gengur og gerist í löndunum í kringum okkur.

Er ekki betra, líkt og Viðskiptaráð lagði til fyrir lögfestinguna, að umbuna frekar fyrirmyndar-fyrirtækjum sem leggjast í þá vinnu og taka á sig þann kostnað sem jafnlaunavottunin felur í sér, endurhugsa sektarákvæðið og huga frekar að hvötum eða ívilnunum fyrir fyrirtæki sem uppfylla kröfur þessa viðamikla staðals?

Markmið jafnlaunavottunar er göfugt en hins vegar þarf líka að huga að sívaxandi reglubyrði íslenskra fyrirtækja. Það er að minnsta kosti eins gott að kostnaðarsöm vottun stuðli að þeim árangri sem lagt var upp með – en á síðasta ári, áður en jafnlaunavottunin tók gildi, minnkaði launamunur kynjanna um 2% milli ára.

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu, þann 30. ágúst 2018.

Tengt efni

Innstæðulaus inngrip í kjarasamninga

„Í stað innstæðulausra inngripa í kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði ættu …
17. október 2024

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024