Þegar ég hóf störf í Asíu var ég óvön að þurfa að prútta um verð. Ég áttaði mig þó fljótt á að þann hæfileika varð ég að þróa með mér hratt og örugglega til þess að enda ekki alltaf á því að borga „túristaverð“ á mörkuðum stórborgarinnar þar sem ég starfaði. Ég tók því til við að prófa mig áfram með misgóðum árangri.
Í eitt skiptið var ég eflaust of fljót á mér og samdi um verð sem var rétt um 10% lægra en uppsett verð. Ég var einfaldlega svo spennt yfir ákveðnum bakpoka að ég hoppaði á fyrsta gagntilboð sem bauðst. Næst gekk mun betur. Ég þóttist ekkert allt of viss um að mig langaði í klútinn sem ég var að skoða. Ég náði helmingsafslætti í það skiptið – en leið hálf illa þegar ég horfði á geðvonskulegan seljandann. Í næsta skipti gekk ég hreinlega of langt. Þá var um að ræða armband sem ég var nokkuð spennt fyrir og var viss um að geta komið verðinu allverulega niður. Seljandinn gaf upp fjárhæðina 1000 Baht og ég bauð hundrað á móti. Ég hafði varla sleppt orðinu að kaupmaðurinn hendir mér út á götu með tilheyrandi handapati. Þarna hafði ég greinilega farið yfir strikið. Varan var ekki í boði lengur – ekki einu sinni fyrir rétt verð. Innst inni dauðskammaðist ég mín fyrir að hafa ekki áttað mig á hvar mörkin lægju og var hundfúl yfir að hafa misst af armbandinu.
Það er nefnilega þannig með prútt á mörkuðum, líkt og í öðrum samningaviðræðum, að báðir samningsaðilar þurfa að fá einhverju framgengt. Ef annar aðilinn byrjar víðsfjarri hinu raunsæja verði er líklegt að samningaviðræður verði stirðar – nái viðsemjendur yfirhöfuð saman á endanum. Þeir sem eru góðir í þessu vita innan hvaða ramma hægt er að semja. Þeir leyfa sér að hefja leikinn við það sem þeir meta sem raunsæ ystu mörk. Leikurinn felst síðan í því að gefa eftir í nokkrum skrefum og ná að lokum sátt um rétt verð. Þannig ganga báðir aðilar sáttir frá kaupum og sölu.
Líkt og með prúttið hefur íslenskt atvinnulíf mátt læra af reynslu margs konar samningalota. Reynsluboltar kjaraviðræðna hafa deilt sögum um það hvernig sumir einstaklingar hafi verið betri en aðrir í þessum efnum. Þeir farsælustu hafi kunnað að tefla fram ákveðinni málamiðlun þannig að allir samningsaðilar hafi getað hampað einhverjum ávinningi að lokum. Aldrei hafi annar aðilinn fengið öllu sínu framgengt – enda væri þá eðli málsins samkvæmt ekki um samninga að ræða heldur valdboð.
Sé horft til krafna verkalýðshreyfingarinnar um skattabreytingar, kerfisbreytingar, styttingu vinnutíma, launahækkanir o.fl. er ljóst að þær geta tæpast verið einhverskonar raunsær upphafspunktur. Á sama tíma berast yfirlýsingar þeirra um átök og baráttu. Ég trúi því, kannski í einfeldni minni, að það sé fleira sem sameini okkur Íslendinga en sundri og því ættum við að geta sammælst um t.d. að tryggja nægt framboð af íbúðarhúsnæði á viðráðanlegu verði, gera breytingar á skatt- og bótakerfum til hagsbóta fyrir þá sem lægstu launin hafa, finna leiðir til að ná betra jafnvægi milli frítíma og vinnu og síðast en ekki síst tryggja sem best kjör lægstu tekjuhópanna, án þess að það smitist upp launastigann og endi í aukinni verðbólgu.
Í raun geta, líkt og Gylfi Zoega setti skýrt fram í Vísbendingu fyrr í mánuðum, frekari hótanir verkalýðshreyfingarinnar haft þau efnahagslegu áhrif að „skerða lífskjör launafólks áður en til kjarasamninga kemur […og leitt] til falls krónunnar, minni kaupmáttar launa og aukinnar misskiptingar eigna.“ Seðlabankastjóri útskýrði m.a. með sama hætti í viðtali 12. desember sl. gengislækkun krónunnar og nefndi í því samhengi „svartsýniskast og geðsveiflur“ sem orsakavalda.
Það er því vinsamleg ábending til þeirra sem semja á vinnumarkaði að menn tali og semji af ábyrgð, sanngirni og af fenginni reynslu síðastliðinna áratuga. Vinnuveitendur vilja flestir hag starfsfólks síns sem bestan og því er markmiðið ekki að semja um „túristaverð“ handa starfsfólki heldur tryggja launahækkanir sem endurspegla raunverulega aukningu verðmætasköpunar.
Það er eðlilegt að menn hefji leik á sitt hvorum enda, en jafnframt að hagsmunir heildarinnar séu hafðir að leiðarljósi, sem og sú staðreynd að að lokum verða aðilar að ná saman. Kjarnaáskorun nýs árs er að glopra ekki niður þeim góða árangri sem aðilar vinnumarkaðar fyrri ára hafa þó náð á undanförnum árum og áratugum.
Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands