Í morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun ræddum ég og fráfarandi forseti ASÍ, Gylfi Arnbjörnsson, um fjármagnstekjuskatt. Við Gylfi vorum, eins og kemur líklega engum á óvart, ekki alveg sammála. Við hjá Viðskiptaráði teljum til dæmis eðlilegt að fjármagnstekjuskattsprósentan sé lægri en af launatekjum af ástæðum sem fjallað er um hér á vef Viðskiptaráðs.
Gylfi vill aftur á móti hærri skattprósentu fjármagnstekjuskatts og máli sínu til stuðnings nefndi hann Danmörk sem dæmi. Þar er prósenta fjármagnstekjuskatts mun hærri en hér á landi eða allt að 42% og sagði Gylfi ekki hafa „… orðið var við það að Danmörk líði fyrir að þar sé hvorki fjárfestingar eða sparnaður?“
Lægri skattprósenta – hærri skatttekjur
Það er ekki nema von að svo sé því að þrátt fyrir háa skattprósentu eru tekjur af fjármagnstekjuskatti mun lægri í Danmörku en á Íslandi. Árið 2017 var fjármagnstekjuskattur á íbúa í Danmörku um 755 danskar krónur eða um 13.900 íslenskar krónur á gengi dagsins í dag. Á sama tíma var fjármagnstekjuskattur á íbúa hér á landi 103.271 krónur eða ríflega sjöfalt hærri. Ástæðan fyrir þessum mun er að skattstofninn hér á landi er lægri. Til að mynda eru vaxtagreiðslur, ásamt öðru, frádráttarbært frá fjármagnstekjuskatti í Danmörku, ólíkt því sem er hér á landi.
Skattkerfið á ekki að ýta undir óhóflega skuldsetningu
Með öðrum orðum þýða þá hærri skuldir að skattgreiðslur séu lægri, sem óneitanlega skapar hvata til aukinnar skuldsetningar. Því má nefna að skuldir danskra heimila eru þær hæstu meðal OECD ríkja sem hlutfall af ráðstöfunartekjum eða 282% árið 2017. Samkvæmt nýútkomnu Fjármálastöðugleikariti Seðlabankans var sama hlutfall hér á landi 152% árið 2017 og 150% í júní síðastliðnum. Þannig eru íslensk heimili betur í stakk búin til að takast á við áföll en þau dönsku, enda þekkjum við vel hversu alvarlegar afleiðingar ósjálfbær skuldsetning getur haft í för með sér. Þá má nefna að vextir í Danmörku er sögulega lágir og fara vart mikið lægra þar sem þeir nálgast 0%. Ef það snýst við og vextir hækka, sem gæti gerst ef verðbólga eykst á Evrusvæðinu, eru dönsk heimil mjög berskjölduð. Ekki getur talist góð hagstjórn að skapa hvata í skattkerfinu sem beinlínis auka slíka hættu.
Það segir lítið sem ekkert að bera saman skattprósentur á milli landa einar og sér, eins og þessi samanburður sýnir. Skattkerfi eru oft flókin og skattaafsláttur, frádrættir og annað flækir þá mynd. Þannig getur líka vel verið að ofangreindur samanburður skatttekna sé ófullnægjandi en það breytir vart stóru myndinni hér.
Tímabær endurskoðun fjármagnstekjuskatts framundan
Efast má um að ASÍ vilji í raun lægri greiddan fjármagnstekjuskatt þó að danska fyrirkomulagið leiði til þess. Við getum verið ósammála um hversu mikið á að greiða í skatt af fjármagnstekjum og hvernig skatturinn er útfærður. Enda stendur til endurskoðun á stofni fjármagnstekjuskatts, sem er greinilega tímabær. Það hljóta samt allir að vera sammála því að skattar eiga ekki að hvetja til skuldsetningar umfram það sem samræmist efnahagslegum stöðugleika og að samanburður skattprósenta milli landa segir okkur lítið einn og sér.
Sjá skatttekjur hins opinbera í Danmörku hér undir „General Government, taxes“
Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs
Greinin birtist fyrst í Kjarnanum 25. október 2018.