Viðskiptaráð hefur í áraraðir talað fyrir skattkerfi sem styður við verðmætasköpun fyrirtækja. Málflutningur ráðsins byggir á þeirri forsendu að kröftugt atvinnulíf sé grundvöllur bættra lífskjara og standi undir öflugu velferðarkerfi. Þannig fari hagsmunir fyrirtækja, fjárfesta, launþega, hins opinbera og annarra þátttakenda samfélagsins saman. Til að jafnan gangi upp þurfa þeir sem skapa verðmætin að greiða af þeim skatta. Að öðrum kosti hafa fullyrðingar um samhengi verðmætasköpunar og bættra lífskjara holan hljóm.
Skattaskjól og aflandsfélög hafa verið áberandi í umræðu síðustu vikna, einkum á sviði stjórnmálanna. Þar hefur verið fjallað um hugtök eins og hagsmunaárekstra, aðstöðumun og upplýsingaleynd. Þrátt fyrir að fyrirtæki og fjárfestar hafi ekki verið í kastljósi fjölmiðla snerta þessi mál atvinnulífið með beinum hætti. Krafan um breytingar á viðhorfum og stjórnarháttum í kjölfar bankahrunsins á jafnt við um stjórnmál, stofnanir og atvinnulífið. Til að unnt sé að efla traust innan samfélagsins þurfa því fleiri en stjórnmálamenn að leggja spil sín á borðið.
Fyrirtæki geta verið stolt af sínu skattspori
Atvinnurekstur, fjárfestingar og neysla skila megninu af þeim tekjum sem hið opinbera byggir starfsemi sína á. Þau fyrirtæki sem hér starfa skapa verðmæti fyrir eigendur í formi arðs, fyrir starfsmenn í formi launa, fyrir viðskiptavini í formi vöru- og þjónustuframboðs og fyrir samfélagið í formi skattgreiðslna. Skattspor fyrirtækja er víðfeðmt og af því eiga eigendur, stjórnendur og starfsmenn að vera stoltir.
Um leið hefur umfang og eðli skattheimtu áhrif á hvata einstaklinga og fyrirtækja til að skapa ný verðmæti. Viðskiptaráð gagnrýndi þær tíðu og miklu skattahækkanir sem áttu sér stað í kjölfar hrunsins og hefur hvatt stjórnvöld til þess að vinda ofan af þeim breytingum. Þá hefur ráðið jafnframt talað fyrir mikilvægi þess að opinbert fjármagn sé nýtt á skilvirkari hátt og að aukin gagnsæi ríki um meðferð þess.
Gott skattkerfi hvetur fyrirtæki til þess að skilja sem stærst skattspor eftir hérlendis. Ábyrg og skynsamleg ráðstöfun opinberra fjármuna skilar íbúum landsins síðan hámarksávinningi fyrir það skattfé sem er innheimt. Hvort tveggja bætir lífskjör íbúa samfélagsins. Að viðbættu gagnsæi og málefnalegri rökræðu er kominn sterkur vísir að samfélagsáttmála sem flestir ættu að geta fellt sig við.
Aflandsfélög eru lögleg en umdeild fyrirbæri
Fyrirtæki og fjárfestar um allan heim hafa notað aflandsfélög í ýmsum tilgangi um langa hríð. Umfangið hefur að öllum líkindum verið mikið hérlendis, einkum á síðustu árum fyrir hrun bankanna.
Unnt er að nýta aflandsfélög á ýmsan máta án þess að gerast brotlegur við lög. Líkt og fram hefur komið í umfjöllun fjölmiðla geta aflandsfélög t.a.m. tengst einföldun á fyrirkomulagi kaupréttarsamninga og áhættustýringu við samstarfsverkefni á alþjóðlegri grundu. Þá er einnig ljóst að alþjóðleg fyrirtæki og fjárfestar nýta aflandsfélög til skattalegs hagræðis án þess að brjóta lög. Slíkt getur reynst nauðsynlegt til að standast alþjóðlega samkeppni.
Í framangreindum tilfellum er um löglega gjörninga að ræða. Þeir rýra þó í mörgun tilfellum skattstofna vestrænna ríkja og því ekki að undra að aflandsfélög hafi sætt gagnrýni. Þetta á sérstaklega við um aflandsfélög sem staðsett eru á svæðum sem skilgreind hafa verið sem skattaskjól. Þessi gagnrýni er réttmæt, enda eðlileg krafa að fyrirtæki og fjárfestar leggi sitt til samneyslu og uppbyggingu innviða.
Til að taka á þessari áskorun með markvissum hætti þarf alþjóðlegt samstarf að koma til. Sú vinna er þegar hafin og ýmsar mikilvægar breytingar komnar til framkvæmda eða á teikniborðinu. Má þar nefna svokallaða CFC löggjöf, BEPS aðgerðaáætlun OECD og aukna alþjóðlega upplýsingamiðlun skattayfirvalda. Íslensk stjórnvöld ættu að taka slíkum aðgerðum fagnandi og taka virkan þátt í umbótum á þessu sviði. Það eru hagsmunir heildarinnar að umgjörð aflandsfélaga sverfi ekki að tekjuöflun hins opinbera með óeðlilegum hætti.
Skattaundanskot eru ótvírætt lögbrot
Á sama tíma og unnið er að umbótum á framangreindum sviðum er mikilvægt að gera skýran greinarmun á löglegri notkun aflandsfélaga og misbeitingu þeirra. Aflandsfélög í skattaskjólum eru gjarnan notuð vegna þeirrar miklu upplýsingaleyndar sem þeim fylgir. Þessari upplýsingaleynd er hægt að misbeita á ýmsan máta. Þannig hafa aflandsfélög í skattaskjólum verið tengd við ýmsa ólöglega starfsemi, s.s. fíkniefnaviðskipti, peningaþvætti og fjárdrátt. Algengasta afbrotið sem tengist aflandsfélögum er þó skattaundanskot.
Grundvallarmunur er á skattahagræði og skattaundanskotum. Annað er löglegt og hitt ekki. Ekkert er því til fyrirstöðu að fyrirtæki og fjárfestar séu hvött til að sýna frumkvæði og samfélagslega ábyrgð með því að skila stærra skattspori en lög kveða á um. Meðan lögin leyfa skattahagræðingu verður sú ákvörðun þó alltaf í höndum hvers og eins aðila.
Skipulögð skattsvik eru aftur á móti lögbrot og aldrei réttmæt. Því breiðari sem skattstofnar eru því hagfelldara er unnt að hafa skattkerfið fyrir heildina. Fyrirtæki og fjárfestar sem nýta sér aflandsfélög til skattaundanskota grafa því undan hagkvæmni skattkerfisins og grundvelli velferðar. Slík hegðun er árás á atvinnulífið, velferðarkerfið og lífskjör í landinu. Með það í huga ættu stjórnvöld ganga hart fram við afléttingu skattalegrar leyndar aflandsfélaga og bregðast við skattsvikum með afgerandi hætti.
Nýtum lekann til góðra verka
Upphaf þess umróts sem hefur átt sér stað á stjórnmálasviðinu má rekja til gagnaleka svokallaðra Panama-skjala. Lekinn hefur varpað ljósi á leynimakk, skattsvik og stjórnmálalega hagsmunaárekstra um víða veröld. Upplýsingagildi Panama-skjalanna er því mikið og hefur hreyft við stjórnmálaumræðunni víðar en á Íslandi. Þrátt fyrir að gagnastuldur sé lögbrot – og full ástæða til að að fordæma sem slíkt rétt eins og önnur afbrot – hefur hann dregið ýmis álitaefni fram í dagsljósið sem vert er að ræða.
Sú umræða ætti að fara fram á hlutlægum og breiðum grunni. Það er óheppilegt að ekki liggi fyrir skýr svör um hvaða hluta gagnanna Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna hyggjast birta og hverju verði haldið eftir. Ætla mætti að þær vísbendingar sem skjölin draga fram um skattsvik, hagsmunaárekstra og óeðlilega viðskiptahætti eigi erindi við almenning, hverjum sem spjótin kunna að beinast að. Þá vekur jafnframt furðu að umræddum gögnum skuli ekki hafa verið komið til skattayfirvalda og annarra eftirlitsaðila heldur boðin þeim til sölu. Hvort tveggja rýrir trúverðugleika þeirra sem standa á bakvið lekann og þeirrar umfjöllunar sem fylgir í kjölfarið.
Óháð því hvort fréttaflutningur um Panama-skjölin verði hlutlægur og tæmandi getur umræðan orðið mikilvægur liður í umbótum á alþjóðlegu skattafyrirkomulagi. Því ber að fagna. Sniðganga skatta rýrir hag þeirra sem spila eftir settum leikreglum og verðskuldar hörð viðbrögð. Um þetta hljóta flestir að vera sammála.
Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs Íslands
Greinin birtist í Morgunblaðinu föstudaginn 15. apríl, bls. 19