Andstæðingar EES samningsins hamast nú sem mest þeir mega enda styttist í að ljúka eigi þriðja orkupakkamálinu á þingi. Umræðan að undanförnu hefur nær eingöngu skorðast við lagatæknileg túlkunaratriði og fyrir vikið hefur lítil umræða verið um efni samningsins, kostnað hans og ábata fyrir íslenskt samfélag.
EES samningurinn er fríverslunarsamningur sem gefur Íslandi aðgang að 500 milljón manna markaði gegn því að gefa öðrum aðgang að íslenskum markaði án viðskiptahindrana. Erfitt er að meta nákvæmlega hver ágóðinn er af samningnum enda eru hagfræðin þeim annmarka háð að erfitt getur reynst að gera tilraunir á samfélögum. Það er til að mynda ekki hægt að bera saman Ísland með og án EES samningsins í dag nema við ættum tímavél.
Þá gætir áhrifa samningsins víða og áhrif hans oft óbein. Það getur til dæmis verið erfitt að mæla virði bætts tengslanets í vísindasamstarfi fyrir sköpun nýrrar þekkingar eða virði gagnsærri stjórnsýsluframkvæmdar og betri stofnanaumgjörðar. Hins vegar má meta og nálgast áhrif samningsins á ýmsa vegu og eitt af því sem liggur beint við að skoða er hvort Ísland sé opnara fyrir milliríkjaviðskiptum nú en áður en samningurinn var gerður.
Hagfræðingar hafa almennt verið sammála um að milliríkjaviðskipti séu af hinu góða. Í einföldu máli má segja að milliríkjaviðskipti gefi ríkjum kost á að sérhæfa sig í því sem þau eru góð í en geta um leið eftirlátið öðrum aðra starfsemi. Ein vísbending um það hvort Ísland sé opnara nú en áður er umfang útflutnings sem hlutfall af landsframleiðslu fyrir og eftir gerð samningsins.
Sá samanburður gefur til kynna að umfang útflutnings hafi aukist eftir innleiðingu EES. Á tímabilinu 1968-1993 nam útflutningur að meðaltali 35% af landsframleiðslu en árin 1994-2018 nam hann 41% af landsframleiðslu. Útflutningur í hlutfalli við efnahagsumsvif á mælikvarða landsframleiðslu er því 6 prósentustigum hærri að meðaltali frá því að EES-samningurinn tók gildi.
Þessar vísbendingar eru sérstaklega mikilvægar fyrir þær sakir að utanríkisviðskipti Íslands eru lítil miðað við hversu fámenn þjóðin er en almennt eru utanríkisviðskipti hlutfallslega meiri eftir því sem þjóðir eru fámennari. Á þetta var m.a. bent í skýrslunni Charting a Growth Path for Iceland, sem unnin var af ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey, til þess að kortleggja vaxtarmöguleika Íslands eftir hrun. Þar var lögð sérstök áhersla á að ryðja viðskiptahindrunum úr vegi til þess að skapa frjósaman jarðveg fyrir fyrirtæki sem byggja starfsemi sína fyrst og fremst á hugviti. Í því ljósi skýtur sérstaklega skökku við að grafa undan EES samningnum eins og andstæðingar þriðja orkupakkans gera með áróðri sínum.
Ef kafað er dýpra ofan í útflutningstölur kemur í ljós að bróðurpartur útflutnings á hugverkum og meira en helmingur af útfluttri sérfræðiþjónustu er til EES svæðisins. Hér skiptir máli að minna sig á að ekki er aðeins um tölur á blaði að ræða. Á bakvið þennan útflutning eru mörg af þeim fyrirtækjum sem við Íslendingar erum hvað stoltust af og mætti jafnvel kalla krúnudjásn atvinnulífsins. Í þeim sér ungt og efnilegt fólk tækifæri til þess að geta áfram búið á Íslandi en starfað í alþjóðlegu umhverfi.
Alþjóðleg samkeppni er nógu erfið án allra heimagerðra hindrana, við skulum ekki leggja frekari steina í götu útflutningsgreina og þannig hagsæld framtíðarkynslóða með því að grafa undan EES samningnum. Samþykkjum Orkupakkann.
Ísak Einar Rúnarsson, sérfræðingur á hagfræðisviði Viðskiptaráðs
Greinin birtist fyrst á Romur.is.