Viðskiptaráð Íslands

Eru víðar tækifæri til einföldunar?

Lögverndun hentar vel í vissum tilvikum til leiðréttingar á markaðsbrestum, sem annars gætu hamlað samkeppni og skaðað neytendur.

Nýverið var kynnt til sögunnar samkeppnismat OECD á regluverki ferðaþjónustu og byggingariðnaðar á Íslandi. Matinu má lýsa sem skynsamlegum leiðarvísi stjórnvalda hér á landi í átt til aukinnar samkeppnishæfni regluverks á þessum sviðum, neytendum til hagsbóta. Var niðurstaða matsins að 30 milljarða króna árlegur ábati lægi í ónýttum tækifærum til einföldunar regluverksins. Sá hluti úttektarinnar er vakti hvað mesta athygli sneri að lögverndun starfsgreina hér á landi, en ýmsar stéttir tengdar byggingariðnaði og ferðaþjónusta njóta slíkrar verndar. Þó ber að hafa í huga að þetta er aðeins lítill hluti umfjöllunarinnar, en tillögur OECD eru alls 438 talsins.

Lögverndun hentar vel í vissum tilvikum til leiðréttingar á markaðsbrestum, sem annars gætu hamlað samkeppni og skaðað neytendur. Lengi hefur þó verið vitað að of íþyngjandi regluverk getur orðið atvinnulífinu fjötur um fót og neytendum til baga. Í stuttu máli geta afleiðingarnar verið atvinnuleysi, hærra verð fyrir neytendur og minni framleiðni. Þá getur of íþyngjandi lögverndun haft neikvæð áhrif á nýsköpun og torveldað þróun nýrrar tækni og lausna.

Ein tillaga OECD vegna lögverndaðra starfsgreina var að endurskoða þyrfti í heild sinni löggjöf um löggiltar starfsgreinar, ekki síst lög um handiðnað nr. 43/1978, í þeim tilgangi að meta hver væru undirliggjandi markmið löggildingar og hvort þær takmarkanir á atvinnufrelsi sem fælust í löggildingu væru málefnalegar í ljósi markmiðanna. Í einhverjum tilfellum kynnu markmiðin að vera óljós eða úrelt. Ekki er að sjá að víðtækar breytingar hafi verið gerðar á umræddum lögum í gegnum tíðina með tilliti til þess hvaða störf eru löggilt og sá listi starfsgreina sem löggiltar hafa verið í reglugerð nr. 940/1999 nær óbreyttur frá því um aldamót, þegar hún var sett. Í reglugerðinni eru alls um sextíu löggiltar starfsgreinar.

Það sem mesta athygli vekur þó er að hér á landi njóta alls 165 starfsgreinar lögverndar, þar af 154 með leyfisskyldu sem er mest íþyngjandi form lögverndunar og í flestum þeirra er einnig við lýði vernd starfsheita. Af samantekt OECD er ljóst að mun fleiri starfsgreinar njóta lögverndunar með leyfisskyldu hér á landi en í nokkru þeirra ríkja sem OECD hafði til samanburðar (Norðurlöndin, Bretland, Írland og Holland). Í raun er munurinn sláandi og ástæða til þess að farið verði ofan í saumana á þessum málum hér á landi.

Hvað varðar skilvirkni og samkeppnishæfni almennt eru vísbendingar um að Ísland geti gert betur. Samkvæmt úttekt IMD-viðskiptaháskólans í Sviss er Ísland eftirbátur Norðurlandanna þegar kemur að regluverki atvinnulífsins og hafnar í 21. sæti af 63. Sömu sögu er að segja af mati á því hve einfalt það sé að eiga í viðskiptum hér á landi (e. ease of doing business), en samkvæmt Alþjóðabankanum stendur Ísland Norðurlöndunum einnig að baki í því tilliti og hafnar í 21. sæti af 190.

Augljóst er að víða eru tækifæri til úrbóta í regluverki byggingariðnaðar og ferðaþjónustu. Gæti verið að frekari tækifæri til einföldunar sé að finna í löggjöfinni? Líklega. Má heimfæra aðferðafræði OECD upp á regluverk sem á við fleiri svið atvinnulífsins? Alveg örugglega og miðað við þann ávinning sem OECD telur felast í tillögum sínum um byggingariðnað og ferðaþjónustu, er til mikils að vinna. Hér skal því þó haldið til haga að lögverndun starfsgreina þarf að endurskoða atviksbundið, þ.e. með það í huga hvort og þá hvernig aðstæður í hverri og einni starfsgrein hafi breyst í áranna rás. Hið sama þarf ekki að gilda um þær allar. Hér á landi gætu þar að auki verið uppi aðstæður sem ekki eru í samanburðarlöndunum sem gæfu þá mögulega tilefni til að fara aðrar leiðir. Í sumum tilfellum gæti einnig verið tilefni til að þrengja einkarétt til tilekinna starfa fremur en að afnema hann.

Í öllu falli er ákjósanlegt að stjórnvöld beiti sér af krafti fyrir því að einföldun regluverks nái fram að ganga, ekki síst þegar illa árar og þörfin fyrir viðspyrnu er brýn.

Jón Birgir Eiríksson, sérfræðingur á lögfræðisviði Viðskiptaráðs.
Greinin birtist fyrst í ViðskiptaMogganum þann 18. nóvember.

Tengt efni

Innstæðulaus inngrip í kjarasamninga

„Í stað innstæðulausra inngripa í kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði ættu …
17. október 2024

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024