Viðskiptaráð Íslands

Fermingaráhrifin

Svanhildur Hólm fer yfir fermingaráhrif í efnahagslegu samhengi.

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.

Meðan fjölmiðlar veltu vöngum yfir næstu ríkisstjórn um nýliðna helgi komst fátt annað að á mínu heimili en ferming yngsta barnsins. Í flestum tilfellum krefst ferming og fermingarveisla margvíslegrar skipulagningar sem fermingarstúlkunni fannst fara fullrólega af stað hjá foreldrunum. Hún tók því málin í sínar hendur og skráði mig í ýmsa hópa á Facebook, þar sem fólk deilir ýmsum áhyggjum og veitir góð ráð um allt sem viðkemur fermingum og fermingarundirbúningi. Í þessum hópum er þetta almennt talin talsverð útgerð, en það er alveg til fólk sem er á þeirri skoðun að þetta sé nú ekkert stórmál.

Þau, sem halda því fram, hafa sennilega ekki opnað ísskáp og horft á stæður af majónesi, eggjum, rækjum og smjöri. Þau hafa þá heldur ekki misnotað foreldra og ættingja við að baka marengs í fermetravís eða til að setja á brauðtertur sem staðfesta að allt það besta í matargerð var fundið upp fyrir myntbreytingu. Þau hafa heldur ekki sent (hæfilega) þolimóðan maka sinn í tíundu búðarferðina af því að átta lítrar af rjóma eru bara ekki nóg!

Allt þetta er hluti af því sem virðulegir hagfræðingar myndu í greinum og hlaðvörpum kalla einkaneyslu. Ef litið er til þess að 2010 árgangurinn er einn sá stærsti í Íslandssögunni, er ljóst að eftirspurnaráhrifin í mars og apríl hlaupa sennilega á milljörðum þegar allt er talið, fermingarföt, gjafir, ferðir veislugesta, veitingar, skreytingar, salarleiga, myndataka og allt hitt.

Ég vildi bara nefna þetta ef peningastefnunefnd færi eitthvað að fetta fingur út í einkaneyslu á vormánuðum og beina því til hennar að lesa ekki of mikið í þær tölur við næstu vaxtaákvörðun.

Svo er hitt: Lendi ég nokkuð á einhverjum peningaþvættislista þegar ég fer með barnið að leggja fermingarpeningana inn?

Tengt efni

Innstæðulaus inngrip í kjarasamninga

„Í stað innstæðulausra inngripa í kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði ættu …
17. október 2024

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024