„Það þarf að fara varlega með vald, um það þurfa að vera skýrar reglur og markmið valdbeitingar og eftirlits þurfa að vera ljós.“
Það er örugglega erfitt starf að vera handboltadómari. Ekki síst þegar litið er til þess að stundum lítur út fyrir að það gildi engar reglur í þessum hrindingum innanhúss, eins og þessi tiltekna íþrótt er oft kölluð á mínu heimili. Reglurnar eru þó þarna og dómararnir framfylgja þeim fyrir opnum tjöldum og sæta iðulega talsverðri gagnrýni fyrir. Það á svo sem sennilega við um alla sem gegna því hlutverki að hafa eftirlit með okkur hinum og beita einhverjum íþyngjandi úrræðum.
Það þarf að fara varlega með vald, um það þurfa að vera skýrar reglur og markmið valdbeitingar og eftirlits þurfa að vera ljós. Þannig getur verið afar varhugavert að tengja inngrip eftirlitsstofnana og sektir við fjárhagslegan ábata stofnana eða starfsfólks og hætta þannig á að slíkar aðgerðir fari að gegna einhverju öðru hlutverki en að fæla fólk frá óæskilegri hegðun. Með öðrum orðum: Þær eiga ekki að vera tekjustofn fyrir neinn.
Fréttir af ábatamati Samkeppniseftirlitsins og kaupaukakerfi Skattsins vekja mann til umhugsunar um að þar sé fólk mögulega aðeins að reyna á þolmörk þessara viðmiða. SKE telur að öll þeirra inngrip séu þjóðhagslega hagkvæm, jafnvel þótt sýnt sé fram á aukinn kostnað fyrirtækja, sem hlýtur að enda hjá viðskiptavinum og Skatturinn skýrir í yfirlýsingu kaupaukakerfi sitt með því að honum sé ætlað að ná sem mestum árangri í störfum sínum. Ef árangur er skilgreindur sem fjöldi mála sem afgreidd eru með álagi eða fjöldi inngripa við samruna erum við komin út á hættulega braut.
Ef við yfirfærðum þetta á aðrar stéttir mætti ímynda sér að lögreglumaður ársins væri sá sem handtæki flesta, árangursríkasta bifreiðaeftirlitið gæfi út flesta endurskoðunarmiða og besti handboltadómarinn væri sá sem dæmdi flest víti. Væri það sniðugt?
Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 31. janúar 2024.