Viðskiptaráð Íslands

Fullkomlega áhugaverðar upplýsingar

Fjár­mál og efna­hags­mál eru stund­um tyrf­in og fæst­um blaðamönn­um eða les­end­um finnst þetta mjög spenn­andi um­fjöll­un­ar­efni.

Næstum því fjórir af hverjum fimm Bandaríkjamönnum telja að börn þeirra muni hafa það verra en þeir sjálfir. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem var fyrst gerð árið 1990. Þá voru einungis tveir af fimm svona svartsýnir en niðurstaðan nú er sú versta í sögu könnunarinnar, jafnslæm og hún var í miðju efnahagshruninu 2008.

Blaðið The Economist gerði þetta að umfjöllunarefni sínu í síðustu viku og veltir fyrir sér hvers vegna svo margir telji að efnahagslífið sé í molum þegar gögn bendi til annars. The Economist viðurkennir þó að það sé ekki allt frábært vestra. Þótt tekjur á mann hafi hækkað meira en t.d. í Vestur-Evrópu frá 1990, upplifi miðstéttin að hún hafi setið eftir, milli þeirra tekjulægstu og þeirra ríkustu. Annars vegar hafi tilfærslur til lægstu tekjutíundanna aukist, ekki síst í gegnum Medicaid, og hins vegar hafi hlutfall heildartekna eftir skatt til ríkasta prósentsins vaxið úr 7% í 13% frá 1979.

Blaðið rekur sig í gegnum ýmsar stærðir, eins og þá að tekjur á mann séu óvíða hærri í heiminum, starfsfólki hafi fjölgað um nær þriðjung á rúmum þremur áratugum, samanborið við um 10% í Evrópu, hlutur Bandaríkjanna í samanlagðri þjóðarframleiðslu G7 ríkjanna hafi vaxið úr 40% í tæp 60%, af þeim fyrirtækjum sem fjárfesti mest í nýsköpun og þróun í heiminum eigi Bandaríkin fyrirtækin sem skipa sér í fimm efstu sæti listans og neytendur hafi notið góðs af þeim fjárfestingum, t.d. í meiri þægindum sem fartölvur, iPhone og nýjustu gervigreindarspjallmennin hafi fært þeim. Það er þó ólíklegt að staðreyndir sem þessar séu ofarlega í huga hins venjulega Bandaríkjamanns sem, eins og víða annars staðar, hefur ekki farið varhluta af verðbólgu og vaxtahækkunum. Niðurstaðan er samt sem áður sú að áhyggjur af efnahagsmálum og framtíðinni séu umfram tilefni.

Það er athyglisvert að lesa þessar vangaveltur um stöðuna í Bandaríkjunum og sumt hljómar dálítið kunnuglega. Umræðan hér heima er iðulega eins og að helstu kerfi samfélagsins séu að niðurlotum komin og við séum stödd í miðri kreppu en ekki í sæmilega kröftugum hagvexti. Auðvitað er ýmislegt sem gera má betur og það er alveg eðlilegt að áhyggjur fólks af efnahagsmálum litist frekar af umfjöllun um hærri greiðslubyrði húsnæðislána og því hvað matarkarfan hafi hækkað í verði heldur en hagvaxtarspá Seðlabankans. Eigi að síður skiptir máli að reyna að útskýra með skiljanlegum hætti hvaða áhrif tilteknar ákvarðanir í ríkisfjármálum hafa á fólk eða hvað ýmsar þjóðhagsstærðir þýða og setja þær í samhengi. Ekki síst þegar kemur að því að afla stuðnings við nauðsynlegar aðgerðir eins og aðhald í fjármálum ríkis og sveitarfélaga. Í býsna langan tíma hefur varla komið upp sú spurning þar sem svarið hefur ekki verið aðgerðir hins opinbera. Slíkar aðgerðir kalla alltaf á aukin útgjöld, sem geta raskað mörkuðum og skapað ástand eins og t.d. þrýsting á fasteignaverð sem býr til nýjar kröfur um nýjar aðgerðir og ný útgjöld.

Það er ekki nóg að fjölmiðlar eins og The Economist fjalli um stóru myndina. Ósjaldan heyrir maður að fólk sem brennur fyrir innihaldsríkari umræðu um efnahagsmál saknar þess að íslenskir fjölmiðlar leggi sitt af mörkum. Gallinn er auðvitað sá að fjármál og efnahagsmál eru stundum tyrfin og fæstum blaðamönnum eða lesendum finnst þetta mjög spennandi umfjöllunarefni. Það er samt sem áður hluti af skyldum fjölmiðla að gera mikilvæga hluti áhugaverða til þess að fólk geti myndað sér vel grundaðar skoðanir og tekið upplýstar ákvarðanir. Sumir gætu sagt að það væri mikilvægara en hvort eitthvert fólk sem maður vissi ekki að væri til sé byrjað saman eða ástin kulnuð. Ekki að annað þurfi endilega að útiloka hitt.

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. apríl 2023

Tengt efni

Innstæðulaus inngrip í kjarasamninga

„Í stað innstæðulausra inngripa í kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði ættu …
17. október 2024

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024