Viðskiptaráð Íslands

Fyrirtækin hluti af lausninni – ekki vandanum

Loftslagsvitund og skilningur á kolefnismörkun fyrirtækisins þarf að vera ein af grunnstoðum þess. Hana þarf að samþætta inn í alla helstu viðskiptaferla fyrirtækisins: stefnumótun, fjárfestingar, aðfangakeðjustjórnun og vöruþróun svo eitthvað sé nefnt.

„Fyrirtæki sem hunsa loftslagskreppuna verða gjaldþrota.“ Slíka fullyrðingu hefðu fáir tekið alvarlega fyrir örfáum árum – hvað þá trúað að hún kæmi frá einum virtasta seðlabankastjóra heims: Mark Carney, bankastjóra Englandsbanka. Hann liggur ekki á skoðunum sínum um framtíð heimshagkerfisins og varar við fjárhagslegu hruni vegna yfirvofandi neyðarástands í loftslagsmálum.

Dómsdagsspár af þessu tagi finnast víðar, þvert á stjórnmálaflokka og geira. Loftslagsvandinn er af þeirri stærðargráðu að „hægri“ og „vinstri“ skipta ekki lengur máli. Ef við stöndum ekki saman um að leysa vandann – þá mun allt annað falla um sjálft sig. Því lengur sem við frestum aðgerðum til að snúa við þróuninni og draga úr losun koltvísýrings, þeim mun alvarlegri verða afleiðingarnar fyrir efnahagsskipan heimsins.

Sumir halda því fram að eina leiðin til að binda enda á loftslagsvandann sé að kollvarpa núverandi efnahagskerfi. Upp séu runnin endalok kapítalismans sem byggi á sífelldum ágangi á náttúruauðlindir og aukinni mengun. Nýja efnahagsskipan þurfi til að stöðva þá þróun. Þetta er rangt. Leiðin út úr vandanum eru tæknibreytingar og framfarir í nýtingu auðlinda. Nú þegar eru grænar lausnir t.a.m. sól- og vindorkugjafar að verða sífellt hagkvæmari. Ökutæki, skip og framleiðslufyrirtæki sem nýta rafmagn í stað jarðefna eru í örum vexti. Allt þetta byggir á tækniþróun öflugra fyrirtækja.

Í það minnsta er ljóst að þörf er á alvöru aðgerðum til að ná kolefnishlutleysi og slíkar aðgerðir krefjast verulegra fjárfestinga. Að mati Mark Carney kemur slík krafa á besta tíma þar sem þörf er á mikilli aukningu í fjárfestingum á heimsvísu til að örva hagvöxt og „til að koma okkur úr þessari lágvaxtagildru sem við erum í“ – en vaxtastig í heiminum hefur sennilega aldrei verið lægra og er svo lágt að margir hafa af því verulegar áhyggjur.

Fyrirtækin eru hér í aðalhlutverki. Loftslagsvitund og skilningur á kolefnismörkun fyrirtækisins þarf að vera ein af grunnstoðum þess. Hana þarf að samþætta inn í alla helstu viðskiptaferla fyrirtækisins: stefnumótun, fjárfestingar, aðfangakeðjustjórnun og vöruþróun svo eitthvað sé nefnt. Fyrirtæki sem láta það undir höfuð leggjast munu tapa trúverðugleika gagnvart starfsfólki, viðskiptavinum, birgjum og fjárfestum, og hætta er á að þau líði undir lok. Almenningur mun fylgjast æ betur með því hvort fyrirtæki hafi ábyrga loftslagsstefnu og færa viðskipti til þeirra er það hafa.

Heimurinn er samtengdur og áföll í einum heimshluta geta haft geigvænleg áhrif í öðrum. Íslensk fyrirtæki eru ekki undanskilin í þessu samhengi enda erum við hluti af vist- og hagkerfi heimsins og byggjum okkar lífsviðurværi á öflugum utanríkisviðskiptum. Sem dæmi á ein okkar lykilatvinnugrein, sjávarútvegurinn, mikið undir aðstæðum í hafinu sem að hluta ráðast af hitastigi lofthjúpsins eins og kunnugt er.

Mörg íslensk fyrirtæki hafa nú þegar áttað sig á stöðunni og tekið mikilvæg skref í rétta átt – en tíminn til að taka þessi mál föstum tökum er ekki seinna en núna.

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands

Greinin birtist fyrst í 300 stærstu, riti Frjálsrar verslunar

Miðasala á Viðskiptaþing 2020: Á grænu ljósi – fjárfestingar og framfarir án fótspors

Tengt efni

Innstæðulaus inngrip í kjarasamninga

„Í stað innstæðulausra inngripa í kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði ættu …
17. október 2024

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024