Viðskiptaráð Íslands

Getur stefnumótun bætt samkeppnishæfni Íslands?

Viðskiptaháskólinn IMD í Sviss hefur gert árlega úttekt á samkeppnishæfni ríkja frá árinu 1989. Niðurstöðurnar fyrir árið 2015 voru birtar í síðustu viku. Ísland hækkar um eitt sæti á milli ára og situr nú í 24. sæti.

Samkeppnishæfni hefur fengið aukið vægi í opinberri umræðu á undanförnum áratugum. Hugtakið byggir á þeirri hugsun að ríki keppi sín á milli um vinnuafl, atvinnustarfsemi og fjármagn, rétt eins og fyrirtæki keppa um viðskiptavini og fjárfestingar.

Til að bæta samkeppnishæfni með markvissum hætti þarf að greina aðalatriði frá aukaatriðum. Niðurstöður úttektar IMD innihalda fjóra flokka, 20 undirþætti og 340 mælikvarða sem snerta á öllum flötum efnahagslífsins. Með hliðsjón af þessu mikla umfangi er nauðsynlegt að færa upplýsingarnar á það form sem nýtist við stefnumótun. Öðruvísi er ekki hægt að þróa árangursríka aðgerðaáætlun.

Fyrirtæki beita slíkri aðferðafræði við stefnumótun í sínum rekstri og þjóðríki geta gert slíkt hið sama. Skrefin í báðum tilfellum eru þau sömu: Forgangsraða, finna drifkrafta og útbúa aðgerðalista. Hér er tekið dæmi um hvernig slík vinna fyrir Ísland gæti litið út.

Fyrsta skrefið felst í forgangsröðun, það er að bera kennsl á þá þætti sem mestu máli skipta. Í úttekt IMD er einkunn gefin fyrir 20 þætti sem saman mynda heildareinkunn fyrir samkeppnishæfni Íslands. Á mynd 1 má sjá dæmi um forgangsröðun þeirra. Þar eru þættirnir metnir út frá tveimur forsendum: annars vegar hve miklum árangri umbætur geta skilað í sætum talið (svigrúm til bætingar) og hins vegar hve fljótlegar og raunhæfar umbætur eru (framkvæmanleiki). Í kjölfarið eru einungis þeir þættir sem fá háa einkunn á báðum mælikvörðum skoðaðir. Þannig má skoða nánar þá þætti sem geta batnað mikið og umbætur eru bæði raunhæfar og fljótvirkar í framkvæmd.


Næsta skrefið er að koma auga á þá drifkrafta sem mest áhrif hafa á þá þætti sem eru í forgangi. Séu mælikvarðar þessara þátta skoðaðir kemur í ljós að ákveðnir drifkraftar geta haft áhrif á marga þeirra. Til dæmis er efnahagslegur stöðugleiki áhrifamikill drifkraftur; með því að auka hann myndu um 20 mælikvarðar væntanlega batna, þar á meðal skammtímavextir, fjármögnunarkostnaður, lánshæfismat, stuðningur við peningastefnu og gengisstöðugleiki.

Á mynd 2 má sjá útkomuna þegar allir þeir þættir sem settir hafa verið í forgang eru skoðaðir með þessum hætti. Fimm drifkraftar eru veigamestir: efnahagslegur stöðugleiki, bætt regluverk, aukin alþjóðavæðing, skattalækkanir og skilvirkari opinber rekstur. Samanlagt hafa þessir drifkraftar áhrif á um 70 mælikvarða. Að þessu skrefi loknu liggur því fyrir hvað er árangursríkast að einblína á til að bæta samkeppnishæfni Íslands á sem skemmstum tíma.


Þriðja og síðasta skrefið er að útbúa lista yfir þær aðgerðir sem hafa jákvæð áhrif á þessa drifkrafta. Á mynd 2 eru tekin dæmi um slíkar aðgerðir. Innleiðing slíkra aðgerða myndi færa þessa fimm drifkrafta til betri vegar og bæta þannig árangur Íslands á þeim mælikvörðum sem settir voru í forgang í upphafi. Þar sem aðgerðalistinn byggir á heildstæðri yfirferð sem byggir á því að hámarka ávinning á sem skemmstum tíma er líklegt að framkvæmd hans myndi skila bættri samkeppnishæfni Íslands á komandi árum.

Þeir drifkraftar og aðgerðir sem dæmi eru tekin um hér að ofan byggja á mati Viðskiptaráðs. Það er hins vegar stjórnvalda á hverjum tíma að meta hvaða drifkraftar og aðgerðir skila mestum ávinningi og eru raunhæfar í innleiðingu með hliðsjón af pólitískum veruleika. Ætlunin með skrefunum hér að ofan er því að sýna hvernig slík vinna gæti litið út.

Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands
Greinin birtist í Vísbendingu, mánudaginn 1. júní

Tengt efni

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024

Eftirlitsmisskilningur Þórunnar

Viðskiptaráð leggur fram tíu tillögur sem lækka kostnað vegna eftirlits án þess …
31. ágúst 2024

Ólympíuleikar í loftslagmálum

"Ísland er ekki lítið land. Ísland er stórasta land í heimi," sagði Dorrit …
21. ágúst 2024