Þegar ljóst var í hvað stefndi og tölur úr Brexit-kosningunum bárust að kvöldi kjördags fóru áhugaverðir hlutir að gerast á Google. Leitir á borð við „hvað er Brexit?“ „hvað er ESB?“ og „hvað felur það í sér að ganga úr ESB“ tóku að dúkka upp í auknum mæli. Breska þjóðin, sem samþykkti með naumum meirihluta að segja skilið við sambandið, virðist ekki hafa vitað almennilega um hvað kosningarnar snérust. Umræðan í aðdraganda kosninganna var heldur ekkert sérstaklega staðreyndadrifin.
Góður málstaður þarfnast ekki ósanninda, hálfsannleika, eða illandi framsetningar. Góður málstaður þarfnast þess hins vegar að hann sé settur fram heiðarlega og á skiljanlegan hátt, því góður málstaður er oft flókinn. Athyglisvert er að hugsa um þriðja orkupakkann með þetta í huga. Þeir sem harðast ganga fram í andstöðu við innleiðinguna segja ýmist ósatt, hálfsatt, eða setja fram órökstuddar fullyrðingar með villandi hætti. Hverjar sem ástæður þessa málflutnings kunna að vera situr eftir að í síbylju bullyrðinga, sem skýrar staðreyndir ná ekki að kveða á brott, er ekki nema von að manni fallist hendur.
Dæmi um þennan málflutning er bullyrðingin að Norðmenn hafi athugasemdalaust hafnað póst- og þjónustutilskipuninni svokölluðu og að með sömu rökum getum við hafnað þriðja orkupakkanum. Þetta er einfaldlega rangt. Hið rétta er að tilskipunin hefur ekki enn orðið hluti af EES-samningnum. Hún hefði getað orðið það en sameiginlega EES-nefndin og ESB áttu í löngum viðræðum um hvort tilskipunin færi inn í samninginn því Norðmenn höfðu efasemdir. Á endanum leystist úr deilunni þegar stjórnarskipti urðu í Noregi. Ný stjórn hafði engar efasemdir. Tilskipunin, sem varð ekki hluti af EES-samningnum, var leidd í norsk lög. Samskonar frumvarp liggur nú fyrir Alþingi. Á þessu og orkupakkanum er hins vegar grundvallarmunur. Orkupakkinn er kominn í gegnum sameiginlegu EES-nefndina auk þess sem Norðmenn og Lichtenstein hafa aflétt fyrirvörum. Að vísa til póst- og þjónustutilskipunarinnar sem fordæmi eru ósannindi. Þetta er staðreynd. Góður málstaður þarfnast ekki ósanninda, bara útskýringa.
Pakkasinnar, ég þeirra á meðal, eiga erfitt með að átta sig á grundvelli fullyrðinga andstæðinga pakkans. Andstæðingarnir virðast bara segja eitthvað og vona að enginn sannreyni fullyrðingarnar og við höfum varla undan að sannreyna þær. Þegar bullyrðingarnar eru athugaðar kemur í ljós að lítið sem ekkert stenst. Samsæriskenningar um sæstreng út frá orðalagi aðfararorða tilskipunarinnar, hækkandi raforkuverð, „Landsreglarinn,“ lófalestur í orkupakka 4, 5 og 6 og grýlur um erlend yfirráð yfir auðlindum eru dæmi um þetta. Það stendur ekki steinn yfir steini.
Að sama skapi get ég ekki fullyrt um hvað gerist ef Ísland hafnar því að innleiða þriðja orkupakkann. Við eigum lagalegan rétt á því. Það er óumdeilt. Ég hef líka lagalegan rétt á því að koma pöddufullur heim til kærustunnar minnar um tvöleytið á hverri nóttu. Ég get hins vegar gert mér í hugarlund að það hefði verulega alvarlegar sambandspólitískar afleiðingar. Sömu sögu er að segja af EES-samningnum. Innleiðingu hefur ekki verið hafnað í 25 ára sögu hans. Ég tel líklegra en ekki að höfnun hefði í för með sér verulega alvarlegar pólitískar afleiðingar. Þessi afstaða byggir á skrifum fræðimanna um viðfangsefnið, til dæmis hér, hér, hér og hér. En ég get ekki fullyrt blákalt um það án þess að ljúga. Alveg eins og þau sem segja að höfnun á innleiðingu hafi engar afleiðingar. Þau ljúga, því þau vita það ekki. Umræðan um þriðja orkupakkann, sem er vissulega þörf, er í annan þráðinn skálkaskjól fyrir umræðuna um hvort við viljum áfram vera í EES. Þess vegna ættum við að leggja umræðunni um tiltekna innleiðingu og ræða þær allar. Viljum við áfram tilheyra EES og tryggja mikilvægasta fríverslunarsamning þjóðarinnar? Já takk.
En vandinn er stærri. Vandinn er nátengdur því hvernig frjálslynt fólk, sem almennt styður veru Íslands í EES, nálgast heiminn. Frjálslynt fólk vill ekki ganga fram fyrir skjöldu í baráttunni við pópúlista. Skiljanlega. Það er erfitt og leiðinlegt. Frjálslynd gildi hafa verið ríkjandi á fullorðinsárum Íslendinga undir fimmtugu. Frjálslynt fólk er því miklu vanara því að takast á við annað frjálslynt fólk um hvernig eigi að útfæra þennan frjálslynda heim sem við byggjum en leggur ekki í pópúlistana.
Staðan minnir óþægilega á samtakamátt andspyrnuhreyfinganna í Life of Brian, þar sem það eina sem þær hötuðu meira en Rómverjana var hverja aðra. Frjálslynt fólk er tvístrað en þarf að standa saman gegn uppgangi pópúlisma. Við þurfum ekki að leita aftur til fæðingartíma frelsarans til að finna dæmi um afleiðingar þessa samstöðuleysis. Breskir popúlistar kyntu bálið með lygum um að úrsögn úr Evrópusambandinu myndi skila 55 milljörðum króna á viku þráðbeint í breska heilbrigðiskerfið. Þetta reyndist erfitt að kveða niður, enda algjörlega úr lausu lofti gripið. Fæstir eru vanir því að þurfa að svara lygum. En þær virkuðu. Niðurstaðan? Glundroðinn sem í daglegu tali kallast Brexit.
Demókratar í Bandaríkjunum gerðu svo hvað þeir gátu til að hundsa stuðningsmenn Trump og létu nægja að uppnefna þá. Í fjölmiðlum voru fyrirsagnir mismunandi útgáfur af: „Nei, þetta eða hitt sem Trump heldur fram er ekki satt,“ en allt kom fyrir ekki. „Falsfréttir!“ hrópaði raunveruleikaþáttastjarnan, sem nú situr í sætinu sem áður tilheyrði leiðtoga hins frjálsa heims.
Þess vegna þarf frjálslynt fólk að segja hingað og ekki lengra. Það þarf að mæta ósannindum af festu og samstöðu á mannamáli því málstaðurinn er góður. Við viljum ekki vakna upp við vondan draum einn morguninn í náinni framtíð og gúggla: „Hvað er EES?“
Gunnar Dofri Ólafsson, lögfræðingur Viðskiptaráðs
Greinin birtist upphaflega á vef Kjarnans þann 29. apríl 2019.