Þrátt fyrir heimsfaraldur og efnahagslegar hörmungar hækka útgjöld ríkis og sveitarfélaga á næsta ári og verða 1.440 milljarðar króna, sem er litlu lægri fjárhæð en verðmæti alls íbúðarhúsnæðis í Kópavogi, Garðabæ og Mosfellsbæ. Upphæðirnar eru svimandi háar og eðlilega eru um þær skiptar skoðanir. Til að mynda er bent á það í nýlegri umsögn Viðskiptaráðs að opinber fjármál stefni á ystu nöf þess að vera sjálfbær. Einnig munu útgjöld vaxa áfram eins og lítið hafi í skorist næstu ár, þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir „varanlegu framleiðslutapi“.
Hvað sem líður vangaveltum um umfang og fyrirkomulag opinberra útgjalda er mikilvægt að utan um útgjöldin, sem og tekjurnar, sé skýr rammi sem stuðlar að því að skattfé nýtist sem best til lengri tíma. Sá rammi batnaði hér á landi í ársbyrjun 2016 þegar ný lög um opinber fjármál tóku gildi. Með þeim er horft til lengri tíma og áhersla lögð á árangursviðmið svo eitthvað sé nefnt.
Viðfangsefni laganna er úrlausnarefni til eilífðar, en vísbendingar eru um að lögin sjálf og framkvæmd þeirra séu það einnig. Framkvæmdin er flókin og í stað þess að lagt sé fram eitt þingmál, fjárlög, eru nú iðulega lögð fram tvö önnur á hverju þingi: fjármálaáætlun og fjármálastefna. Til staðar eru tækifæri til að sníða agnúa af lögunum og bæta framkvæmdina í ljósi reynslu síðustu ára. Í nýútkominni skýrslu Viðskiptaráðs, Hið opinbera: Meira fyrir minna, er bent á nokkur slík atriði.
Eitt það mikilvægasta er að taka betur tillit til ófyrirsjáanlegra sveiflna í hagkerfinu. Í lögunum eru skilyrði sett um jákvæða afkomu á fimm ára tímabili, árlegan halla undir 2,5% af landsframleiðslu og að skuldir séu lægri en 30% af landsframleiðslu. Þegar allt leikur í lyndi og hagkerfið siglir lygnan sjó ganga skilyrðin upp, en veruleikinn er sá að reglulega verða áföll sem lögin gera ekki nægilega vel ráð fyrir. Það sést glögglega í dag þegar reglurnar hafa verið aftengdar og verða ekki uppfylltar í nánustu framtíð.
Til að tryggja eðlilegan sveigjanleika svo bregðast megi við ófyrirséðum sveiflum, má til dæmis miða við hagsveifluleiðrétta afkomu. Með því verður sjálfvirk sveiflujöfnun ríkisfjármála fastari í sessi og útgjöld fyrirsjáanlegri. Slíkt auðveldar áætlanagerð sem er til þess fallið að bæta nýtingu opinberra fjármuna, öllum til hagsbóta. Rétt er að taka fram að mæling hagsveifluleiðréttrar afkomu er ófullkomin og bundin vandkvæðum. Á hinn bóginn má benda á að það á við nær allar hagmælingar, t.d. verðbólgumælingar, og því ekki nægjanleg ástæða til að beita ekki slíku tæki. Einnig ætti að endurskoða skuldareglu samhliða til að veita svigrúm til að skuldir vaxi tímabundið við aðstæður líkt og nú, án þess þó að það leiði til ósjálfbærrar skuldasöfnunar.
Fleira má gera betur. Hægt er að bæta framsetningu til að auka gagnsæi og æskilegt væri að fjármálaáætlun sé innifalin í hagspám sem liggja til grundvallar, enda hefur hið opinbera í krafti eðli síns og stærðar mikil áhrif á efnahagsþróun. Til framtíðar er þó ef til vill mikilvægast að unnið sé eftir árangursmælikvörðum og þeir þróaðir áfram, enda ekki sjálfsagt að útgjöld ein og sér skili árangri. Loks væri til bóta ef forgangsröðun verkefna væri skýrari.
Þegar kófinu líkur munu blasa við nýjar áskoranir til skemmri og lengri tíma. Ef marka má sífellda kröfu um aukin útgjöld frá ríkinu, sem fáir ef einhverjir benda á leiðir til að greiða fyrir, verður eflaust horft áfram til þess. Af þessum sökum og í ljósi þess að í húfi eru 1.440 milljarðar króna, jafngildi verðmætis heimila 68 þúsund Íslendinga, er nauðsynlegt að umgjörðin sé traust. Þannig má stuðla að stöðugleika og sem bestri nýtingu opinberra fjármuna.
Konráð S. Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands
Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. nóvember 2020