Viðskiptaráð Íslands

Hversu oft má fara með rangt mál?

Sökum stærðfræðilegs ómöguleika getur krafan um að laun fylgi dæmigerðum neysluútgjöldum aldrei verið grundvöllur ákvarðana um launabreytingar í landinu

Elísa Arna Hilmarsdóttir

Í yfirstandandi kjaradeilu milli Eflingar og SA hefur átt sér stað umræða um þörf sérstakrar launahækkunar meðal félagsfólks Eflingar á höfuðborgarsvæðinu sökum hærri húsnæðiskostnaðar þar en annars staðar á landinu. Nýjasta dæmið um þessa áherslu má finna í grein starfsmanns Eflingar, Stefáns Ólafssonar, frá 14. janúar. Í greininni leggur Stefán áherslu á að laun séu í samræmi við opinber framfærsluviðmið, og leggur þau upp sem lágmarksframfærslukostnað. Sá skilningur er reyndar misskilningur, alveg eins og þegar Stefán skrifaði sambærilega grein í Kjarnann fyrir rétt rúmum fjórum árum.

Í greininni er notast við svokallað dæmigert neysluviðmið félagsmálaráðuneytisins (áður velferðarráðuneytisins). Vandinn er sá að viðmið þetta er fjarri því að vera mælikvarði á lágmarksframfærslukostnað en greinarhöfundur segir viðmiðið „sýna hversu miklu fólk eyðir í neyslu. Síðan er tekið út úr tölunum útgjöld í það sem ekki telst til nauðsynja og þannig fæst framfærsluviðmið eða kostnaður við nauðþurftir“.

Þessi fullyrðing kemur þó ekki heim og saman við skýrslu velferðarráðuneytisins um íslensk neysluviðmið en þar segir: „Í hinu dæmigerða viðmiði er lögð áhersla á að reikna út dæmigerða neyslu fyrir alla útgjaldaflokka án þess að leggja nokkurt mat á hvort neyslan sé nauðsynleg eða ónauðsynleg.“ Enn fremur segir í skýrslunni um neysluviðmið að þau séu „hvorki endanlegur mælikvarði á hvað telst nægjanleg neysla einstakra heimila né dómur um hvað einstakar fjölskyldur þurfa sér til framfæris“. Túlkun ráðuneytisins er þannig í fullkominni andstöðu við rökstuðning greinarhöfundar á kröfum um hækkun launa.

Á vef Stjórnarráðsins segir að dæmigert viðmið sé byggt á miðgildi neyslu heimila og af þeim sökum sé hvorki um lágmarks- né lúxusviðmið að ræða. Dæmigerða viðmiðið gefi því til kynna neyslu heimilis sem er meiri en hjá helmingi sambærilegra heimila og minni en hjá hinum helmingi heimila. Við þetta viðmið kýs greinarhöfundur að styðja sig – viðmið þar sem enginn skal vera með minni neyslu en helmingur landsmanna. Það er ljóst að ómögulegt er að nota slíkt viðmið sem lágmarksviðmið.

Í ofanálag felur krafa greinarhöfundar í sér ákveðinn spíral út í hið óendanlega. Hækkun launa á höfuðborgarsvæðinu myndi nær örugglega hækka miðgildi neysluútgjalda sem kallar þá á frekari hækkun lágmarkslauna til samræmis við hið áðurnefnda dæmigerða neysluviðmið. Það kann ekki góðri lukku að stýra.

Að lokum skal hafa í huga að neysluviðmið félagsmálaráðuneytisins eru af tvennum toga. Annars vegar dæmigert viðmið og hins vegar grunnviðmið . Ólíkt dæmigerða viðmiðinu gefur grunnviðmiðið vísbendingu um hvað heimili þurfa að lágmarki til að framfleyta sér. Eðli málsins samkvæmt er grunnviðmiðið lægra en dæmigerða viðmiðið en í síðustu uppfærslu var það tæplega 60% lægra en dæmigerða viðmiðið. Í fyrrnefndri grein er fullyrt að dæmigerða viðmiðið sé 256.002 kr. í janúar 2023. Samkvæmt því er grunnviðmiðið tæplega 104 þúsund krónur. Það er töluvert lægri upphæð en útborguð lágmarkslaun eru í dag.

Þar að auki virðist vera mat margra að aðferðafræðin og gögnin sem lögð eru til grundvallar neysluviðmiðinu séu ekki lengur fullnægjandi. Starfshópur á vegum félags- og barnamálaráðherra skilaði skýrslu haustið 2020 og taldi hópurinn ýmsa annmarka vera til staðar. Niðurstaða hópsins var sú að endurskoða þyrfti neysluviðmiðin í heild en sú endurskoðun fer nú fram í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Það skýtur því skökku við að greinarhöfundur skuli nota svo gott sem úrelt viðmið sem rökstuðning á kröfum um hækkun launa.

Sama hver afstaða greinarhöfundar er á notagildi neysluviðmiðsins getur krafan um að laun fylgi dæmigerðum neysluútgjöldum í öllu falli aldrei verið grundvöllur ákvarðana um launabreytingar í landinu. Ástæðan er sá stærðfræðilegi ómöguleiki sem felst í því að enginn geti verið undir miðgildisneyslu, nema auðvitað ef neysla allra væri nákvæmlega sú sama en það verður hún sennilega seint. Eins og Viðskiptaráð hefur margsinnis bent á er nauðsynlegt að byggja á staðreyndum þegar tekist er á um kaup og kjör, eins og svo margt annað raunar, og vonandi að Efling tileinki sér slík vinnubrögð í áframhaldandi kjaradeilum.

Elísa Arna Hilmarsdóttir, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu, 25. janúar 2023

Tengt efni

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024

Eftirlitsmisskilningur Þórunnar

Viðskiptaráð leggur fram tíu tillögur sem lækka kostnað vegna eftirlits án þess …
31. ágúst 2024