Viðskiptaráð Íslands

Keppni án verðlauna

Við fáum engin verðlaun fyrir að vera kaþólskari en páfinn

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs

Sífellt fleiri fyrirtæki þurfa að setja sig inn í regluverk um sjálfbærni og átta sig á hvað til þeirra friðar heyrir. Markmið með slíkri reglusetningu er göfugt, t.d. meira gagnsæi, endurbætur á ferlum og auðvitað – sjálfbærni. Nýjasta innleiðingin snýst um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og viðamikla flokkunarreglugerð ESB, sem er eins og oft áður, innleidd með íþyngjandi hætti.

En hvaða áhrif hafa íþyngjandi innleiðingar? Í greiningu sem Viðskiptaráð birti í síðustu viku kemur fram að þegar svokölluð NFRD-tilskipun Evrópusambandsins, sem varðar birtingu ófjárhagslegra upplýsinga, var innleidd hér á landi árið 2016 var gildissviðið útvíkkað þannig að um átta sinnum fleiri fyrirtæki hafa ríkari skyldur til upplýsingagjafar en þörf krefur. Séríslensk innleiðing miðast nefnilega við 250 manna fyrirtæki en ekki 500 eins og tilskipunin. Þetta var gert án rökstuðnings og án þess að meta hvaða áhrif þessi ákvörðun hefði.

En hvernig gerist þetta? Iðnaðar- og viðskiptaráðherra mælti fyrir frumvarpi til breytinga á ársreikningalögum í janúar 2016, daginn eftir að það var lagt fram. Umræðan var enda ekki burðug og snerist helst um hluti sem voru ekki í frumvarpinu. Málið var frekar tæknilegt en að ýmsu leyti jákvætt, m.a. fól það í sér „hnappinn“ sem ýmis fyrirtæki þekkja, en hann gerir svokölluðum örfyrirtækjum kleift að skila ársreikningi með einföldum hætti. Skilgreining örfyrirtækja var innleiðingarmál og þar var reyndar einnig vikið frá stærðarmörkum. Samkvæmt tilskipuninni hefðu um 90% íslenskra félaga fallið undir einfaldari skil en frumvarpið kvað á um 80% félaga. Ráðherra benti í ræðu sinni á að vikið væri frá stærðarmörkum, bæði í tilviki örfyrirtækja og vegna birtingar ófjárhagslegra upplýsinga. Voru þessi íslensku viðmið sett fram að tillögu vinnuhóps sem undirbjó frumvarpið og í sátu sérfræðingar frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu, ársreikningaskrá, fjármálaeftirlitinu, Félagi löggiltra endurskoðenda og Félagi bókhaldsstofa. Sennilega hefði verið í lagi að hafa einhvern fulltrúa fyrirtækja þarna líka. En hvað sem því líður, þá vekur athygli að ráðherra bað efnahags- og viðskiptanefnd að taka sérstaklega til skoðunar hvort víkja ætti frá tilskipuninni í þessum tveimur tilvikum.

Skemmst er frá því að segja að efnahags- og viðskiptanefnd fjallað um örfélögin og komst að því að það væri fínt að einfaldari skil næðu til færri félaga en tilskipunin heimilaði. Af nefndarálitinu að dæma náði hin íþyngjandi innleiðingin ekki athygli nefndarmanna. Til að allrar sanngirni sé gætt fór þetta víðar undir radarinn en hjá þinginu. Enginn þeirra sautján sem skiluðu umsögn gagnrýndi þetta atriði.

Þegar málið var næst tekið til umræðu var kominn júní. Önnur umræða fór fram 2. júní, á síðasta degi þings fyrir sumarfrí (þangað til þingið var kallað saman viku síðar til að setja lög á verkfall flugumferðarstjóra). Einungis framsögumaður nefndarálits tók til máls í 2. umræðu, enginn kvaddi sér hljóðs í þriðju umræðu (sem er þá vissulega spurning hvort standi undir nafni), og málið var samþykkt ásamt átján öðrum frumvörpum og ófáum þingsályktunartillögum þennan dag.

Vegna þessarar afgreiðslu sitja íslensk fyrirtæki ekki við sama borð og sambærileg fyrirtæki í samkeppnislöndum okkar. Ef innleiðingin á þessu einstaka atriði hefði verið með sama hætti og innan Evrópusambandsins hefði uppsafnaður kostnaður vegna birtingar ófjárhagslegra upplýsinga nú numið um 1,5 milljörðum en ekki á tólfta milljarð eins og raunin er. Sofandahátturinn gagnvart þessu hefur því orðið til þess að umframkostnaður íslensks atvinnulífs er um tíu milljarðar. Það hefði ýmislegt verið hægt að gera fyrir þá fjárhæð, eins og að fjárfesta eða greiða laun og launatengd gjöld fyrir um 800 manns á meðallaunum í heilt ár. Eða 100 manns í átta ár eftir því hvernig dæmið er lagt upp. Í það minnsta – hættum að líta á innleiðingar evróputilskipana eins og keppni. Við fáum engin verðlaun fyrir að vera kaþólskari en páfinn.

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs

Greinin birtist fyrst í ViðskiptaMogganum 12. júlí 2023

Tengt efni

Innstæðulaus inngrip í kjarasamninga

„Í stað innstæðulausra inngripa í kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði ættu …
17. október 2024

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024